142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[21:28]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek hjartanlega undir það sem fram kom í máli hv. þingmanns — nú verður maður svo nervös að hafa þetta ekki allt rétt — hv. þingmanns Birgittu Jónsdóttur, varðandi þau tvö meginatriði sem hún nefnir; í fyrsta lagi að tillaga minni hlutans er tilraun til málamiðlunar, sem ég teldi heppilegt að samþykkja. Í annan stað tel ég að samstarf undir lýðræðislegum þrýstingi og vökulu auga þjóðarinnar sé bara til góðs og geti ekki orðið til annars en góðs.

Ég skal játa það að þegar ég var að rekja aðdragandann í umræðunni var ég upphaflega aldrei á því máli að stóra málið væri auðindarentan af fiskveiðistjórnarkerfinu, heldur hitt að tryggja aðkomu að kerfinu, að tryggja að það væri ekki markaðsvætt, að heimildin gengi ekki kaupum og sölum. Og ég vil að sjálfsögðu, eins og við viljum öll, að sjávarútvegsfyrirtækjum vegni sem allra best.

Síðan erum við bara komin þar til sögunnar að við þurfum að reyna að tryggja meira flæði upp úr þessari mikilvægustu auðlind íslensku þjóðarinnar inn í samfélagshirslurnar til að geta rekið þá grunnþjónustu sem ég hygg að við flest viljum hafa. Þá þarf bara að velja og hafna. Hvar ætlum við að skattleggja? Hvar ætlum við að ná í fjármunina? Ætlum við að ná í þá í gegnum sameiginlega sjóði eða ætlum við að láta fólk fara að borga beint, t.d. aðgangseyri að Landspítalanum eða í skólana? Ég hef ekki áhuga á því. Við munum fljótlega standa frammi fyrir spurningum af því tagi.