142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[21:56]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hættum þessu þrasi og verum bara öll sammála, látum menn njóta sannmælis. Ég hélt að hv. þingmaður ætlaði að haga máli sínu þannig þegar ég misskildi hann í upphafi um hve talnaglöggur ég væri, auðvitað var það háð. Hann gerði því skóna að ég liti svo á að 180 kr. fyrir þorskveiðikíló væri eðlilegt gjald. Ég var að vitna í blaðagrein sem vísaði síðan aftur í upplýsingar frá Fiskistofu um útleiguverð á þorskkílóinu. Það var það sem ég var að gera. Ég var ekki að segja að það væri mín skoðun að það væri eðlilegt, þvert móti hef ég margoft bent á að það væri óhóflegt verð.

Varðandi skatta almennt má náttúrlega færa þá umræðu inn á aðrar brautir vegna þess að við stöndum alls staðar frammi fyrir þessari spurningu: Hvað á að skattleggja mikið? Telur þingmaðurinn að við skattleggjum almenning, launafólk, of mikið og að við verjum of miklu af þessum sömu sköttum í greiðslur á borð við barnabætur eða almannatryggingar eða eitthvað af því tagi? Sú umræða á að sjálfsögðu við alls staðar.

Síðan er það hitt, um hagsmunatengslin. Ég veit ekki betur en að hv. þingmaður hafi lýsti því yfir að hann ætli ekki að greiða atkvæði í þessari umræðu vegna þess að hann sé hagsmunatengdur. Ég vil hvetja þingmanninn til þess að greiða atkvæði, alla vega tel ég að menn sem koma hreint fram, eins og hann hefur gert hvað það snertir, eigi miklu frekar að greiða atkvæði en þeir þingmenn sem gera það ekki. Vísa ég þá í þá styrki sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur fengið (Forseti hringir.) og upplýst hefur verið um í fréttum frá sjávarútvegsfyrirtækjum, væntanlega til að (Forseti hringir.) reka hagsmuni þeirra fyrirtækja.