142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[22:04]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er svolítið gaman að fylgjast með þessum umræðum. Það er alltaf gaman að sjá þegar gegnsæið fær að ráða. Ég vil bara minna á að gegnsæið eitt og sér réttlætir ekki allt sem sést, en ég ætla ekki að segja meira um það að svo stöddu.

Mig langar til þess að minna hv. þm. Pál Jóhann Pálsson á þegar hann segir að hér sé aðeins deilt um útfærslu og hversu mikið útgerðin þoli að það er í raun og veru enginn sérstakur ágreiningur um það í þjóðfélaginu. Ágreiningurinn í þjóðfélaginu er út af þeim 6,4 milljörðum sem vantar inn í næsta ár við kringumstæður þar sem þarf að skera niður vegna þess að við fáum ríkisreksturinn að láni á hverju einasta ári. Núna þurfum við að fá meira að láni í nafni sanngirni.

Við búum við þær kringumstæðum núna að engin skattlagning er í reynd sanngjörn. Hvað með virðisaukaskatt á mat, er sanngjarnt að vera með skatt á mat sem við notum til þess að lifa, til þess að halda áfram að anda? Það er ekki sanngjarnt. Það er ekki endilega sanngjarnt að taka 36–46% af tekjum fólks, en við búum við þann ríkisrekstur að þurfa peninga. Þá peninga sem við fáum ekki fáum við sjálfkrafa að láni. Við erum að fá sanngirni fyrir útgerðarmenn að láni. Það er það sem fólk er ósátt við.

Ef ríkisstjórnin hefði komið með tillögur þar sem ekki hefði verið þetta tekjutap fyrir ríkið, hvort sem við köllum það lækkun eða frestun eða afbókun á hækkun eða hvað sem við köllum það, ef eitthvað hefði komið til móts við það, jafnvel þótt það hefði verið tímabundið, hefðu viðbrögðin í samfélaginu ekki verið þau sömu. Þá væru ekki 34 þúsund undirskriftir gegn þessu. Það væru ekki 70% aðspurðra á móti því. Það væri mun skárra, það hefði verið hægt að gera það með meiri sátt, en það var einfaldlega ekki gert.