142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[22:08]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér skilst að vitað sé hvaða upplýsingar þarf til að reikna þessi gjöld. Mér skilst að vitað sé hvað vantar upp á. Mér skilst að það hafi verið hægt úr nefndinni, án þess að ég sé í þeirri nefnd sjálfur, að vega upp á móti þessu í gegnum tekjuskattinn. Hv. þingmaður má endilega leiðrétta mig ef ég fer með rangt mál.

Ef við ætlum að miða við hvað reksturinn þolir held ég ekki að hv. þingmaður vilji endilega fara þá leið vegna þess að mér skilst líka að hægt sé að ganga nokkuð lengra. Við skulum ekki tala um það í bili heldur um hvernig þetta mál hefur verið sett á dagskrá án tillits til vilja þjóðarinnar og til dæmis þess hvað reksturinn þolir.

Það sem ég vildi ekki stinga upp á við hv. þm. Pál Jóhann Pálsson er að við miðum þetta einfaldlega við hvað ríkissjóður þolir. Það sem ég var að minnast á, það sem ég meinti er að ekkert okkar býr við sanngjarna skattlagningu núna, en það er engu sanngjarnara að börn og barnabörn okkar borgi fyrir það sem við höfum eytt, ýmist með því að minnka tekjur, auka útgjöld, með hruninu eða hvaða útgjaldaliðir það svo sem eru sem bera ábyrgð á núverandi fjárrekstri ríkisins. Við stöndum frammi fyrir því að annaðhvort munum við borga þetta, og með okkur á ég við þessa kynslóð, okkar kynslóð, þá sem eru lifandi núna, eða þeir sem koma næst. Það eru bara þeir tveir valmöguleikar í boði.

Akkúrat núna er ekkert hægt að lækka skatta eða gjöld á sjávarútvegi út frá þeim forsendum að reksturinn þoli það ekki eða þetta sé ekki nógu sanngjarnt. Auðvitað er það ekkert sanngjarnt. Núverandi kringumstæður bjóða ekki upp á það. Við þurfum að borga skuldir okkar. Við þurfum að laga fjárhag ríkisins áður en við förum að hygla sjávarútveginum vegna þess að hann þolir meira. Hann þolir meira, er það ekki?