142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[22:10]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur komið fram í gögnum veiðigjaldsnefndar eða frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu að útgerð án fiskvinnslu þolir ekki þau gjöld sem voru. Það hefur komið fram í gögnum málsins.

Það kom einnig fram á nefndarfundum að það dugði ekki til að sækja gögn til skattstjórans, setja einföld lög til þess að ná þeim. Það þurfti að setja lög á Hagstofuna. Ef við hefðum sett lög á Hagstofuna til þess að fá þau gögn sem eru trúnaðargögn hjá þeim og þeir mega ekki afhenda hefðum við verið að brjóta einhverja Evrópusáttmála eða sáttmála sem við erum aðilar að. Þetta hefur allt saman komið fram á þeim mörgu fundum sem við höfum haldið. Sú leið var ekki fær. Þau gögn sem vantar aðallega eru varðandi þessa fjárfestingu, fjárfestinguna í greininni, rekstrarfjármuni, nákvæmar tölur um rekstrarfjármuni. Að öðru leyti gaf þetta nokkuð glögga mynd.

Ef við setjum lög til að sækja þetta erum við farin að brjóta Evrópusáttmála þannig að það var ekki inni í myndinni, ekki af minni hálfu.