142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[22:12]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það hefur verið áhugavert að hlýða á þá umræðu sem farið hefur fram í dag og hófst á föstudaginn um þetta stóra mál sem liggur fyrir þinginu. Mig langar að gera tvennt að umræðuefni í ræðu minni: Það er annars vegar fjárlagahlið málsins og hvaða áhrif það hefur að leggja hér fram frumvarp á miðju ári sem hefur veruleg áhrif á fjárlög þessa árs og kallar að sjálfsögðu á aðgerðir til að mæta þeirri tekjuskerðingu sem ríkissjóður verður fyrir sem og fjárlagavinnu næsta árs og ríkisfjármálaáætlun til lengri tíma. Hins vegar langar mig að gera að umtalsefni þá hugmyndafræði sem liggur að baki auðlindarentunni og þá hugmyndafræði sem liggur að baki tekjuöflun á borð við þessa, sem er kannski sá hugmyndafræðilegi ágreiningur sem hefur staðið yfir um tekjuöflun af þessu tagi. En mig langar fyrst að beina sjónum að því sem er praktískt viðfangsefni þingmanna sem horfa framan í fjárlagagerð fyrir árið 2014 og sem horfa framan í gerð fjáraukalaga fyrir árið 2013, hreinlega með því að ræða hér aðeins um umsögn fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytis þar sem farið er yfir þau áhrif sem þetta frumvarp, verði það að lögum, hefur á stöðu ríkissjóðs.

Ég held að allir hv. þingmenn hljóti að vera sammála um að meginverkefni undanfarinna ára allt frá hruni frá því að við horfðum framan í gjaldþrot Seðlabankans, frá því að við horfðum framan í risavaxinn halla á ríkissjóði og frá því að við horfðum framan í öll þau áhrif sem efnahagshrunið hér hefur haft. Hv. þm. Birgitta Jónsdóttir ræddi einmitt stærðargráðu hrunsins áðan og við skulum ekki gleyma því að gjaldþrot þeirra þriggja banka sem hér urðu gjaldþrota rötuðu inn á topp 10 lista yfir stærstu gjaldþrot mannkynssögunnar, ekki Íslandssögunnar, mannkynssögunnar. Hér varð auðvitað risavaxið hrun sem haft hefur áhrif á kjör alls almennings í landinu og má eiginlega segja að við höfum fátt gert annað, að minnsta kosti hefur þetta verið langtum fyrirferðarmesta viðfangsefni okkar hv. þingmanna hér í þessum sal, en að ræða það hvernig við eigum að koma Íslandi upp úr kreppunni í gegnum efnahagsþrengingarnar, hvernig við eigum að ná hér jöfnuði í ríkisfjármálum og hvernig við eigum í raun að koma landinu út úr stórfelldustu efnahagsþrengingum sem það hefur gengið í gegnum á lýðveldistímanum.

Eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson kom inn á í andsvari sínu áðan þá skýtur það alveg stórkostlega skökku við að á þeim tíma sem við erum enn að reyna að sauma saman fjárlög, á þeim tímapunkti þar sem við erum enn að horfa framan í það að vera að greiða 90 milljarða í vaxtagjöld af skuldum hins opinbera, séu fyrstu verk nýrrar ríkisstjórnar frumvörp sem miða að því að draga úr tekjum ríkissjóðs. Ef við lítum bara á álit fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytis sem hér er lagt fram með frumvarpinu þá segir þar, með leyfi hæstv. forseta:

„Verði frumvarpið óbreytt að lögum má gera ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af veiðigjöldum fyrir aflaheimildir verði 3,2 milljörðum kr. lægri á árinu 2013“ — við erum ekki að tala um næsta ár, við erum ekki að tala um þarnæsta ár, við erum að tala um þetta ár — „og að tekjurnar geti orðið 6,4 milljörðum kr. lægri á árinu 2014 en áætlað var.“

Því er skellt hér fram og enn hefur ekki verið skýrt hvernig mæta á þessari tekjuskerðingu í fjárlögum. Við vitum að búið er að senda út bréf og boða 1,5% niðurskurð á rekstri og stofnunum hins opinbera og ég ætla að leyfa mér að segja það hér í ræðustól Alþingis að ég hélt hreinlega að komin væri ákveðin sátt um það í þessum sal þegar við afgreiddum síðustu fjárlög að svo stór hluti rekstrar hins opinbera væri kominn að þolmörkum að ekki yrði gengið lengra í niðurskurði. Ég get nú bara nefnt nærtækt dæmi, ég get nefnt framhaldsskóla landsins þar sem búið er að skera niður nánast hvern einasta lið, þar sem við horfum framan í það að alls staðar er búið að draga úr öllu og skera allt sem einhver gat hugsanlega kallað fitu. Við erum löngu komin inn að beini í rekstri framhaldsskóla landsins. Síðast horfðum við framan í það hreinlega að framhaldsskólarnir fengu viðbót fyrir fjárlög ársins 2013 því að annars hefði þurft að vísa frá nemendum. Annars hefðu íslensku framhaldsskólarnir ekki getað tekið við öllum þeim nemendum sem þangað vilja sækja í samfélagi sem vill efla menntunarstig. Allir stjórnmálaflokkar tala um að þeir vilji efla menntunarstig, að þeir vilji fjölga þeim sem ljúka framhaldsskólaprófi og við horfum framan í það að nú á að fara að skera meira niður í þessum stofnunum sem eru löngu komnar inn að beini.

Framhaldsskólinn á Íslandi er ekki dýr, ekki í alþjóðlegum samanburði, og hvað þá háskólarnir. Kostnaður Íslendinga við háskólastigið er langt undir alþjóðlegu meðaltali ef við miðum við OECD. Heildarkostnaðurinn er 23 milljarðar kr. Það er sem sagt fjórðungur af öllum heildarkostnaði við íslenska háskólakerfið sem nú er ætlunin að skerða tekjur ríkisins um. Háskólarnir eiga væntanlega að taka sinn skerf af því með þessum 1,5% niðurskurði sem boðaður hefur verið og er væntanlega líka boðaður í heilbrigðiskerfi. Og það er nú eitt af því sem hvað mest hefur verið rætt í þessum sal í þeim erfiðu aðgerðum sem við höfum þurft að grípa til, til að mæta því hruni sem varð og þeim risagjaldþrotum sem hér urðu. Þá var farið í niðurskurð á heilbrigðiskerfinu og ég er nokkuð viss um að allir þeir hv. þingmenn sem tóku þátt í afgreiðslu síðustu fjárlaga voru nokkurn veginn sammála um að heldur yrði ekki lengra gengið í þeim efnum.

Hvort sem litið er til Landspítalans, Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, heilbrigðisstofnana um landið eða heilsugæslunnar þá held ég að allir hv. þingmenn hafi verið sammála um að þarna var búið að ganga hart fram og að ekki yrði gengið lengra fram. En aftur er boðaður niðurskurður af því að við horfum nú framan í tekjuskerðingu hjá ríkinu upp á 6,4 milljarða króna á ársgrundvelli og ekki aðeins það, heldur þarf að bregðast við því á miðju ári. Verið er að hrófla við fjárlögum ársins 2013 og ekki liggur neitt fyrir um það hvernig mæta eigi tekjuskerðingunni. Það liggur ekkert fyrir um hvernig standa eigi við áætlanir um að ná fram jöfnuði í ríkisfjármálum á árinu 2013 en eigi að síður er verið að leggja til tekjuskerðingu á miðju ári.

Þegar við ræðum þetta mál t.d. við nágrannaþjóðir okkar og vinaþjóðir sem einnig hafa staðið í efnahagsþrengingum og niðurskurði þá furða þær sig á því að við sem höfum einmitt verið á leið út úr kreppunni og höfum séð fram á að geta hreinlega náð hér jöfnuði á næsta ári séum enn að auka á kreppuna með því að skerða tekjur ríkisins á miðju ári 2013.

Lánasjóður íslenskra námsmanna hefur verið talsvert til umræðu hér. Þar þarf að skera niður. Hér var fyrirspurn frá hv. þm. Freyju Haraldsdóttur í dag um hvernig nákvæmlega eigi að koma til móts við þá sem af einhverjum ástæðum geta ekki verið í svo háu námshlutfalli eins og gert er ráð fyrir í tillögum stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Það á að skera lánasjóðinn niður um 1,5% en framlag ríkissjóðs til hans eru rúmir 9 milljarðar þannig að þetta er um það bil 2/3 af því framlagi — 2/3 af því framlagi, ef við setjum það í samhengi.

Ég gæti haldið hér lengi áfram og farið yfir ýmsa liði í rekstri ríkisins. Ég var til að mynda að fletta upp hér áðan heildartölunni sem rennur til heilsugæslunnar í landinu. Jú, það eru einir 8,5 milljarðar kr. Þetta er dágóður skerfur af því. Um þetta ætlum við að skerða tekjur ríkisins. Ég ítreka að við höfum ekki fengið svör um hvernig á að mæta því og ég hef nefnt hér rekstrarþætti sem búið er að boða niðurskurð á. Það er líka hægur vandi fyrir ríkisstjórnina að ráðast þá frekar í að skerða tímabundin verkefni og það er eitt af því sem áhugavert væri að fá svör hv. ríkisstjórnar við. Nokkrir hv. þingmenn í þessum sal, sem áður voru miklir áhugamenn um að hér yrði opnað náttúruminjasafn, hafa nefnt það sem hugsanlega leið til sparnaðar að ekki verði ráðist í stofnkostnað við að setja hér upp náttúruminjasýningu á vegum Náttúruminjasafns Íslands í Perlunni, náttúruminjasafn sem við erum margoft búin að ræða í þessum sal. Hv. þingmenn hafa haft uppi málflutning um að enginn sómi sé að því eftir að ný lög voru samþykkt um þetta höfuðsafn á sviði íslenskra náttúruminja að þetta safn sé hvergi með sýningu. Því var unnið að því hér á undanförnum árum hvernig koma mætti því í kring, án þess að ráðast í gríðarháan stofnkostnað eða reisa hér nýbyggingu, mætti gera Náttúruminjasafninu, einu af höfuðsöfnum Íslendinga, kleift að opna sýningu á sínum vegum þannig að íslensk börn og ungmenni, til að mynda hér á höfuðborgarsvæðinu hafi aðgang að sýningu um náttúruminjar, þannig að ferðamenn sem hingað til lands koma, ekki síst vegna náttúrunnar, hafi viðkomustað hér á höfuðborgarsvæðinu þegar þeir vilja kynna sér náttúru og umhverfi landsins. Ráðist var í þetta en þetta er eitt af því sem er nefnt að skera megi niður.

Fjárfestingaráætlun sú sem síðasta ríkisstjórn kom á laggirnar snerist einmitt um að efla hér fjárfestingu á vegum hins opinbera, sem fór að sjálfsögðu í sögulegt lágmark eftir hrunið sem ég lýsti hér áðan, eftir þau gjaldþrot sem íslensku bankarnir fóru í og höfðu ómælanleg áhrif bæði á stöðu ríkissjóðs og stöðu almennings í þessu landi. Þá fór fjárfesting að sjálfsögðu í sögulegt lágmark og hv. þingmenn núverandi stjórnarflokka hafa gert það að tíðu umtalsefni hér, þ.e. skort á fjárfestingum. Hvert rekjum við þann skort? Að sjálfsögðu til hrunsins. Að sjálfsögðu hefur dregið úr fjárfestingu einkaaðila en ekki síst úr opinberri fjárfestingu og til þess að glæða þetta kynnti ríkisstjórnin áætlun um aukna fjárfestingu á vegum hins opinbera.

Það sem er merkilegt við þá áætlun er að þar er vissulega ráðist í framkvæmdir, þar er ráðist til að mynda í byggingu Húss íslenskra fræða. Þar er ráðist í samgöngubætur, til að mynda Norðfjarðargöng. Þar er líka ráðist í annars konar fjárfestingu; fjárfestingu í hugviti með því að efla Rannsóknarsjóð um helming, um 700 milljónir króna — það er bara brotabrot af þeirri fjárhæð sem nú á að skerða tekjur ríkisins um — með því að efla Tækniþróunarsjóð, með því að efla Verkefnasjóð skapandi greina og Kvikmyndasjóð. Hér töluðu margir hv. þingmenn úr stjórnarflokkunum um að þeir væru sammála þeirri forgangsröðun að efla Kvikmyndasjóð sem þurfti að mæta niðurskurði vegna hrunsins. Í kjölfarið fór fram mikil umræða bæði hér í sölum þingsins en líka út um samfélagið allt um verðmætasköpun hinna skapandi greina. Í samvinnu nokkurra ráðuneyta við samráðsvettvang skapandi greina var ráðist í mikla vinnu við það að greina hagræn áhrif hinna skapandi greina.

Niðurstaðan varð sú að hinar skapandi greinar velta 189 milljörðum króna á ári og fólk sagði: Það er kostur að fjárfesta í einhverju öðru en bara byggingarframkvæmdum, að fjárfesta líka í hugvitinu því að við sjáum það að hver króna sem þangað er lögð skilar sér margfalt til baka. Það kom á daginn að hinar skapandi greinar veltu 189 milljörðum króna, svona álíka miklu og áliðnaðurinn sem er sérstakt áhugaefni nokkurra hæstv. ráðherra. Margir töldu að það væri vegna þess að ríkisframlagið væri hátt og sögðu: Bíddu, eru þetta nú ekki framlög ríkisins sem velta þarna? Nei, það voru um það bil 24 milljarðar af þessum 189 en grunnurinn sem allt hitt hvílir á.

Við viljum byggja hér fjölbreytt atvinnulíf eins og fulltrúar allra stjórnmálaflokka boðuðu fyrir síðustu kosningar. Allir töluðu um hugvit, allir töluðu um nýsköpun, allir töluðu um fjölbreytni. Fólk kepptist við að ræða um nýsköpun og skapandi greinar. Að sjálfsögðu viljum við þannig atvinnustefnu. Og hvert er fyrsta verkið? Það er að lækka hér veiðigjald á sjávarútveg, skerða þannig tekjur ríkisins og því hefur ekki verið svarað. En hver verður framtíð allra þessara tímabundnu framlaga sem ætlað var að glæða fjárfestingu í landinu og efla hér fjárfestingarstig, sem skiptir alveg gríðarlegu máli fyrir efnahagslega stöðu Íslands til að halda áfram á réttri leið út úr kreppu? Það sem mér finnst verulega athugavert við að leggja þetta mál fram á miðju ári, sumarþingi, og hleypa þannig fjárlögum ársins 2013 í algjört uppnám er að engu hefur verið svarað um það hvaða tekjur á að skerða á móti.

Engu hefur verið svarað um það hvernig ná eigi markmiðum um jöfnuð í ríkisfjármálum. Þar er bara autt blað.

Svo ég vitni aftur í álit fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytis þá stendur þar, með leyfi forseta:

„Á þessu stigi liggja ekki fyrir aðrar ráðstafanir til að vega upp á móti þessari lækkun á áformaðri tekjuöflun ríkissjóð. Því verður að gera ráð fyrir að staða ríkissjóðs muni versna sem nemur þessari umtalsverðu tekjulækkun frá því sem áformað var og að þar með verði til muna lengri leið að jöfnuði í heildarafkomunni en gert hafði verið ráð fyrir í ríkisfjármálaáætlun sem fylgdi með fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2013.“

— Til muna lengri leið að jöfnuði en gert var ráð fyrir í ríkisfjármálaáætlun 2013.

Það er það sem boðið er upp á í ríkisfjármálum. Verið er að lengja leiðina að jöfnuði, gæta að hagsmunum útgerðarinnar á kostnað þess að ná hér jöfnuði í ríkisfjármálum á sama tíma og fyrir liggur að gefinn verður út aukinn kvóti og útgerðin getur vænst þess að fá auknar tekjur, þá er það forgangsatriði að lækka veiðigjaldið til hagsbóta fyrir útgerðina. Á móti mun væntanlega koma niðurskurður í ríkisrekstri, hvort sem það verður á kostnað fjárfestingar í landinu, hvort sem það verður á kostnað menningar og mennta í landinu eða hvort sem það verður á kostnað heilsugæslunnar. Við erum þegar farin að sjá fyrstu áhrifin í skerðingu á Lánasjóði íslenskra námsmanna og við eigum eftir að sjá frekari áhrif. Það væri auðvitað lágmark í anda þess sem rætt hefur verið um ríkisfjármál að hér legðu menn þá fram hugmyndir um hvernig mæta eigi tekjuskerðingu en það er þögn um það. Það er algjör þögn um það. Einstaka hv. þingmenn velta hér upp einstaka hugmyndum í þeim efnum en sá pakki kemur seinna. Hann er ekki sama forgangsatriði og að lækka hér álögur á útgerðina. Þá kemur kannski að því sem ég vildi gera hér að umræðuefni, þó að þetta sé í raun og veru nægt umræðuefni fyrir þann stutta ræðutíma sem hér er til þess að ræða þetta mikilvæga mál og ég gæti rætt það alla mína ræðu. Það er samt mikilvægt að ég komist aðeins í það að ræða þennan tekjustofn sérstaklega og af hverju ég tel að hæstv. ríkisstjórn leggi svo mikla áherslu á að skerða einmitt þennan tekjustofn.

Eins og við munum sem vorum hér á Alþingi, hv. þingmenn, þegar lögin um veiðigjöldin voru samþykkt þann 26. júní 2012 þá voru þau auðvitað mjög umdeild. Ef við veltum því fyrir okkur af hverju þau voru umdeild má segja að með þeirri löggjöf birtist í verki sá skilningur að þjóðin eigi að njóta ávaxtanna af auðlindinni. Skilningur sem byggir á þeirri hugmynd að auðlindin sé sameign þjóðarinnar, nokkuð sem stjórnmálamenn úr öllum flokkum hafa talað um að sé skilningur þeirra; að sjálfsögðu er auðlindin sameign þjóðarinnar. Hér fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla um nokkur ákvæði úr tillögum stjórnlagaráðs auk þess sem spurt var um stuðning almennings við það að tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá yrðu nýttar sem grundvöllur að nýrri stjórnarskrá. Þar sem þeirri spurningu var svarað játandi var líka spurt um einstök atriði og þar lýsti yfirgnæfandi meiri hluti þeirra sem tóku þátt, yfir 80%, sig fylgjandi sterku stjórnarskrárákvæði um sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum landsins.

Þegar við ræðum þessi mál segja allir: Að sjálfsögðu erum við sammála um þetta. En hvað þýðir það í raun að segja að við séum fylgjandi sameign þjóðarinnar á auðlindum? Hvað þýðir það að við, almenningur í landinu, eigum saman vatnið, fiskinn í sjónum, jarðhitann, fallorkuna? Hvað þýðir það í raun og veru? Hvernig finnum við fyrir því? Jú, ákvæðið er nefnilega innihaldslítið ef það skilar sér ekki með einhverjum hætti inn í samneysluna, inn í sameign þjóðarinnar.

Í ágætu nefndaráliti minni hluta atvinnuveganefndar stendur einmitt, með leyfi forseta:

„Slíkt ákvæði er innihaldslítið form ef því fylgir ekki tilkall til sanngjarns hluta auðlindarentunnar eða umframarðsins af náttúruauðlindunum.“

Við þekkjum auðvitað dæmi um innheimtu slíkrar auðlindarentu hvaðanæva að úr heiminum og má segja að lögin um veiðigjaldið feli í sér í verki þann skilning á auðlindunum að þær séu einmitt sameign þjóðarinnar og þarna er það útfært hvernig sú sameign birtist. Jú, það er með þeim hætti að í gegnum ríkissjóð, sem er auðvitað hinn sameiginlegi sjóður almennings í landinu, innheimtum við tiltekið gjald af hagnaði þeirra sem nýta auðlindina. Það er auðvitað stóra grundvallaratriðið. Þeir sem hafa sagt: Er ekki eðlilegra að sjávarútvegsfyrirtækin greiði bara tekjuskatt eins og önnur fyrirtæki? Þeir kjósa að líta fram hjá þessari hugmyndafræðilegu spurningu sem er auðvitað grundvallaratriði og snýst um það hvernig við förum með auðlindirnar. Ég vil minna á það í þessu samhengi þó að það sé ekki til umræðu hér að um það hefur auðvitað stóra deilan snúist þegar við höfum verið að ræða sjávarútvegsmálin í hinu stóra samhengi og kvótakerfið, þ.e. hvort sá skilningur sé réttmætur að nýting á sjávarauðlindinni geti skapað óbeinan eignarrétt eins og haldið hefur verið fram hér af einhverjum aðilum. Aðrir, og þeirra á meðal ég, hafa bent á að það geti aldrei myndað óbeinan eignarrétt að nýta auðlind sem við köllum sameiginlega auðlind þjóðarinnar. Um það hefur deilan snúist, þ.e. hvort þeir sem nýta fiskinn í sjónum eigi kvóta eða hvort þeir hafi leyfi til þess að nýta hann og taki því að sjálfsögðu arð og reki fyrirtæki sín og greiði sínu fólki laun. En er þá ekki eðlilegt að þeir sem fá leyfi til að nýta þessa eign sem við eigum öll saman láti eitthvað af hendi rakna til okkar allra?

Það er hin hugmyndafræðilegi ágreiningur. Ég vil nefna hér sérstaklega umsögn sem borist hefur við málið frá Jóni Steinssyni, hagfræðingi við Columbia-háskóla. Ég tek það fram að Jón setur þetta hreinlega upp og segir, með leyfi forseta:

„Með nokkurri einföldun má segja að hægri menn hafi í gegnum tíðina barist fyrir tvennu í sjávarútvegsmálum:

1. Hagkvæmu markaðskerfi framseljanlegra veiðiheimilda.

2. Að auðlindaarðurinn (rentan) renni til eigenda útgerðarfyrirtækja.

Og vinstri menn hafi í gegnum tíðina einnig barist fyrir tvennu:

1. Að auðlindaarðurinn (rentan) renni til þjóðarinnar, eiganda auðlindarinnar.

2. Boðum, bönnum og pottum sem myndu grafa undan hagkvæmni í greininni.“

Jón segir svo í framhaldinu að hann vilji að við náum sátt um það að annars vegar verði tekið upp hagkvæmt markaðskerfi og hins vegar að auðlindaarðurinn renni til þjóðarinnar, eiganda auðlindarinnar.

Þó að auðvitað sé þetta allnokkur einföldun má segja að þarna birtist að einhverju leyti hugmyndafræðilegur ágreiningur sem snýst um stóra málið sem er sameign auðlindarinnar og á ekki bara við um sjávarútvegsauðlindina. Það á auðvitað líka við um fallvötnin okkar, vatnið okkar, jarðvarmann og hvað annað sem við skilgreinum sem auðlindir. Það er umræða sem átt hefur sér stað um allan heim. Hvað er að gerast til að mynda í ríkjum Afríku, svo dæmi sé tekið? Ef við horfum bara á það sem verið hefur að gerast þar er þar alltaf baráttan um auðlindir landsins sem sett hefur svip sinn á alla stjórnmálaumræðu þar alla síðustu öld og þótt lengra væri leitað aftur. Það snýst auðvitað um baráttu um yfirráð yfir auðlindum og þessi umræða er að sjálfsögðu líka talsverð hér, ekki síst í auðlindaauðugu landi eins og Íslandi þar sem miklu skiptir hvernig við förum með þær, þannig að þetta er hápólitískt mál.

En af því að hæstv. ríkisstjórn hefur líka orðið afskaplega tíðrætt um skynsemi er það einnig mikilvægt sem segir í umsögn téðs Jóns Steinssonar, hagfræðings við Columbia-háskóla. Það er atriði sem mér finnst merkilegt að meiri hlutinn virðist hafa kosið að hlusta hreinlega ekki á, að taka ekki til frekari umræðu.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Einn mikilvægur kostur við veiðigjald er að það er sérstaklega hagkvæm leið til þess að afla tekna fyrir ríkið.“

Jón heldur áfram og segir að flestir skattar séu vinnuletjandi, dragi þrótt úr hagkerfinu, en veiðigjaldið hefur ekki þann ókost svo fremi sem gjaldið er lægra en auðlindaarðurinn í sjávarútvegi.

Jón segir, með leyfi forseta:

„Ef gjaldið er lægra en auðlindaarðurinn tryggir það blómlegan rekstrargrundvöll sjávarútvegsfyrirtækja og veitir þeim næga hvata til þess að fjárfesta. Arður sem er umfram það er hreinn hagnaður sem leiðir einungis til hærri arðgreiðslna til eigenda.“

Og í ljósi þess að forsvarsmenn ríkisstjórnar hafa einmitt lagt áherslu á að skattar séu hvetjandi fyrir atvinnulífið, að þeir skapi störf, samkvæmt því sem hér er sett fram — ég er algjörlega sammála enda var það stefna okkar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fyrir síðustu kosningar. Okkar stefna var sú að með því að halda áfram á þeirri vegferð sem við höfum verið á þurfi ekki að ráðast í frekari niðurskurð, hægt sé að fara að leggja línurnar til þess að skoða hvernig við getum farið að byggja upp samfélagið, byggja upp heilbrigðiskerfið, byggja upp skólakerfið og velferðarkerfið með því að lækka ekki skatta og skoða frekari grundvöll fyrir innheimtu auðlindarentu á fleiri auðlindum en bara í sjávarútvegi.

Þetta er annars vegar staðfesting á þeirri hugmyndafræði sem allir flokkar segjast vera sammála um, að auðlindirnar eigi að vera sameign þjóðarinnar. Þar af leiðandi hlýtur að vera eðlilegt að þeir sem fá að nýta auðlindirnar greiði af þeim eðlilega rentu til þjóðarinnar. Hins vegar er þetta gjald tekið af hagnaði og á þar af leiðandi ekki að hafa þau letjandi áhrif sem stundum eru talin skapast af skattheimtu í kerfinu.

En ekki hefur verið hlustað á að veiðigjaldið sé hagkvæm tekjulind. Ráðist er í þetta án þess að gengið sé frá því hvernig mæta eigi tekjuskerðingunni og ekki er heldur hlustað á þær breytingartillögur sem minni hlutinn hefur lagt fram sem miða að því að sníða þá agnúa af veiðigjaldinu sem vissulega hafa einhverjir verið fyrir hendi. Það er kannski það undarlega við þetta mál allt saman að skömmu eftir að það var samþykkt sem lög þá var lögð fram lagabreyting og í og með var það gert með þeim rökstuðningi að talsverðir agnúar hafi verið á framkvæmd og því sé langtum best að fara þessa leið. Minni hlutinn í hv. atvinnuveganefnd leggur hér fram breytingartillögur sem miða einmitt að því að koma til móts við þá gagnrýni sem uppi hefur verið á framkvæmd laganna um veiðigjaldið þannig að unnt sé að sníða þá agnúa af framkvæmd laganna án þess að ríkið verði fyrir svo gríðarlegri tekjuskerðingu sem hér er boðuð. Tillögur minni hlutans eru hér kostnaðarmetnar upp á það að þær lækki tekjur ríkissjóðs á ársgrundvelli um 310 milljónir, ekki 6,4 milljarða.

Hér eru því lagðar fram breytingartillögur við frumvarpið sem snúast um það að ríkisskattstjóra verði gert að afhenda Hagstofu Íslands og veiðigjaldsnefnd rekstrarframtöl og aðrar upplýsingar úr skattframtölum sem þýðingu hafa fyrir ákvörðun veiðigjaldanna og snýst fyrst og fremst um heimildir stofnana til þess að geta aflað sér réttra upplýsinga. Hér er enn fremur verið að leggja til aukið frítekjumark og síðan er gert ráð fyrir að sérstaka veiðigjaldið á botnfisk verði fært aftur úr 7,38 krónum í 23,20 krónur í ljósi umsagna sem komið hafa fram en líka í ljósi áætlaðrar afkomu í sjávarútvegi.

En eftir því sem mér heyrist á þeirri umræðu sem hér hefur verið er ekki ætlunin að hlýða á þessar breytingartillögur þó að þær bregðist að miklu leyti við þeirri gagnrýni sem beinst hefur að lögunum um veiðigjöld um leið og skotið er mun styrkari stoðum undir starfsemi veiðigjaldsnefndar og undir lagagrundvöll veiðigjalda.

Mér þykir það leitt í ljósi þess að mönnum hefur orðið mjög tíðrætt um samræðustjórnmál og ný stjórnmál og nýjar umræðuhefðir að hér sé bara haldið áfram óháð umsögnum, óháð þeim tillögum sem lagðar eru fram í nefndum. Ég reikna með því að málið hljóti að fara aftur til nefndar milli 2. og 3. umr. og vonast ég til þess að einhver breyting verði á störfum hv. atvinnuveganefndar.

Ég vil nú aðeins nefna það hér af því að það kom ekki fram þegar ég ræddi um hugmyndafræðina, að það er ekki eins og við höfum verið að finna þessa hugmyndafræði upp í fyrra, árið 2012, þegar við samþykktum lög um veiðigjald. Auðlindarentan er auðvitað málefni sem lengi hefur verið rætt í íslensku samfélagi, það var eitt af viðfangsefnum auðlindanefndarinnar sem skilaði af sér árið 2000. Síðan var sett á laggirnar auðlindastefnunefnd í tíð síðustu ríkisstjórnar sem gerði auðlindarentuna líka að umtalsefni. Að sjálfsögðu er þetta ekki séríslensk uppfinning heldur er hér verið að nýta fordæmi til að mynda frá Noregi sem hefur notað þessa hugmyndafræði t.d. varðandi nýtingu á olíuauðlindunum þar sem Norðmenn taka rentu af þeim sem nýta þá auðlind.

Það er líka mikilvægt að horfa til þess, eins og fram kom í umsögn Jóns Steinssonar hagfræðings, að þessi gjaldheimta er talin hafa minni neikvæð áhrif á rekstur en hefðbundin skattheimta eða önnur gjaldtaka. Og af því að það var nú hæstv. forsætisráðherra sem gerði það að umtalsefni að hann vildi nú ekki hlusta um of á skammstafanir þá ætla ég að nefna nokkrar skammstafanir sem hafa einmitt sett fram þessa skoðun, til að mynda hinn fræga Alþjóðagjaldeyrissjóð, AGS, einnig OECD og fleiri sem mæla einmitt með gjaldheimtu á borð við þessa. Ég held því að hæstv. forsætisráðherra og hans ágæta ríkisstjórn ætti nú kannski frekar að hlusta á það sem skammstafanirnar hafa að segja en að hafna öllu sem þar kemur fram.

Ég vitna til þess sem fram kemur í áliti minni hluta atvinnuveganefndar í hinu ágæta nefndaráliti þeirra þar sem kemur fram að í stöðuskýrslu OECD um Ísland frá því í júní 2011 segi orðrétt, með leyfi forseta:

„Frá sjónarhóli efnahagslegrar hagkvæmni er auðlindarentuskattur í grundvallaratriðum besta skattlagningin því hann skekkir ekki efnahagslegar ákvarðanir og leggur þar af leiðandi ekki á neinar auka byrðar (þ.e. engan kostnað umfram þær tekjur sem aflað er með skattinum).“

Ég hef enn þá ekki heyrt í þessari umræðu frá hv. þingmönnum þeim sem styðja það að frumvarpið fari óbreytt í gegn, ég hef enn þá ekki heyrt rök sem þeir tefla fram gegn þessu. Ég hef ekki enn þá heyrt þá umræðu tekna sem ég hefði viljað heyra sem svarar þessum sjónarmiðum, sjónarmiðum um að þetta sé tiltölulega hagkvæm tekjuöflun fyrir ríki sem enn hefur ekki getað lokað gatinu á ríkissjóði. Nú stefnir í að það gat stækki með þeim ráðstöfunum sem hv. ríkisstjórn hefur lagt fram á þessu sumarþingi.

Ég hef vísað hér til fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytis sem gerir ráð fyrir 10 milljarða tekjuskerðingu á 18 mánuðum, þ.e. 3,2 milljörðum í minni tekjur á yfirstandandi ári og 6,4 milljörðum á því næsta og raunar, miðað við nýjustu fregnir af afkomu í sjávarútvegi og væntanlegri aflaaukningu sem búið er að boða, má gera ráð fyrir að þarna séum við að missa 3–4 milljarða til viðbótar á ársgrunni, bara svo við höfum heildarmyndina undir.

Það vekur líka athygli mína að þegar veiðigjöldin voru rædd hér á sínum tíma var farið í talsverða rannsóknarvinnu og teiknaðar upp ýmsar sviðsmyndir, en þegar þetta frumvarp var lagt fram núna var ekkert samráð haft við hagsmunaaðila eða farið út í neinar sviðsmyndateikningar af því hvaða ólíku útfærslur það gæti haft í för með sér. Staða útgerðarinnar hefur farið batnandi, við heyrum fréttir af aukinni fjárfestingu í útgerðinni og ég veit ekki betur en að hér hafi útgerðir keypt ný skip, nýja togara og að farið hafi verið í miklar fjárfestingar þvert á það sem hér var boðað um að öll fjárfesting mundi stoppa, að það mundi allt frjósa við samþykkt veiðigjaldafrumvarpsins á sínum tíma. Ég sé ekki betur en að greinin hér hafi fjárfest fyrir einhverja tugi milljarða frá miðju síðasta ári.

Fjárfestingar hafa því sannarlega ekki staðið í stað og við sjáum fram á aflaaukningu. Ég held því að efnahagslega séð sé þetta feigðarflan. Þarna er verið að skerða tekjulind sem er efnahagslega hagkvæm. Þetta er pólitískt feigðarflan. Meiri hluti hv. atvinnuveganefndar leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt og hlýðir ekki á þær breytingartillögur sem ég nefndi áðan sem minni hluti hv. atvinnuveganefndar leggur fram í von um að hægt sé að sníða þá agnúa af framkvæmd laganna sem orðið hefur vart við frá því að lögin voru samþykkt. Minni hluti hv. atvinnuveganefndar leggur fram skynsamlegar breytingartillögur sem ekki er hlýtt á. Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt og ég held að það þýði að sama skapi pólitískt feigðarflan því að við færumst fjær nokkurri sátt um sjávarútveginn og við þekkjum það öll sem hér erum. Kannski er það óvinnandi vegur að ná sátt um sjávarútveginn, en ég held að verði þetta frumvarp að lögum óbreytt færumst við fjær þeirri sátt. Segja má að samþykkt laganna um veiðigjaldið hafi staðfest þann skilning að auðlindin sé sameign þjóðarinnar og að eðlilegt sé að þjóðin njóti þeirrar sameignar.

Ég tel þetta því vera efnahagslegt feigðarflan, pólitískt feigðarflan og auðvitað hleypir það fjárlögum ársins 2013 í uppnám, það hleypir ríkisfjármálaáætluninni til lengri tíma í uppnám og að því leytinu til er þetta líka feigðarflan í þeim efnum.

Ég vil að lokum koma aftur að því sem ég hóf ræðu mína hér á. Ég kalla eftir því að hæstv. ríkisstjórn svari því hvaðan hún ætlar að taka þessa 3,2 milljarða í samþykktum fjárlögum ársins 2013. Ætlar hún bara að fara þá leið að auka hér hallann á ríkissjóði af því að tekjurnar skila sér ekki eða á að fara hér í niðurskurð í september, október? Á þá að fara að gera stofnunum það að skila inn 3 milljörðum til þess að halda plani? Ef niðurstaðan verður sú að hér eigi bara að auka hallann á ríkissjóði sem tekjuskerðingin hefur í för með sér þá er það vægast sagt slóðaskapur af verstu gerð í ríkisfjármálum og boðar ekki gott eftir þá þrotlausu vinnu sem allar stofnanir hins opinbera hafa lagt á sig hér undanfarin ár. Þar hafa allir tekið höndum saman um það, eins og hv. þm. Valgerður Gunnarsdóttir sem var að ganga í salinn, þekkir mæta vel. Hver einasti framhaldsskóli er búinn að draga saman í rekstri þannig að allt er komið inn að beini. Ég veit að hv. þingmaður hlýtur að vera mér sammála um að það er ekki hægt að ganga lengra í niðurskurði í rekstri framhaldsskóla. Þá er boðaður 1,5% niðurskurður á framhaldsskólana, það er boðað á allar stofnanir ríkisins til þess að hægt sé að ívilna útgerðinni og lækka gjöldin á útgerðina eftir alla þá vinnu sem allar opinberar stofnanir hafa lagt á sig, sem allur almenningur hefur lagt á sig. Þegar við ræðum um forsendubrestinn víðfræga í hruninu má segja að hver einasti íslenski ríkisborgari, hver einasti skattgreiðandi í landinu hafi orðið fyrir forsendubresti og það þurfti að endurskoða hér allar áætlanir því að skyndilega var bara ekki hægt að gera allt það sem allir vildu gera. Það hafa allir lagt sitt af mörkum og það vitum við, ég og hv. þm. Valgerður Gunnarsdóttir, við vitum allt um það hvað framhaldsskólarnir eru búnir að leggja á sig; skólameistarar, kennarar, nemendur, hvað allir eru búnir að leggja á sig til að taka á því, til þess að koma ríkissjóði á réttan kjöl, til þess að Ísland geti haldið áfram og til þess að Ísland geti farið að greiða niður skuldir sínar og komast út úr því efnahagslega svartnætti sem hér hefur staðið. En þá er fyrsta verk hæstv. ríkisstjórnar að skerða tekjur og boða meiri niðurskurð og eins og ég segi þá verður sá niðurskurður tekinn út annaðhvort í rekstri, í rekstrinum á heilbrigðisstofnunum og heilsugæslunni og framhaldsskólunum og lánasjóðnum, eða með því að draga úr fjárfestingum á vegum hins opinbera. Hvað er verið að tala um þar? Byggingarframkvæmdir í byggingariðnaðinum sem hrundi hérna 2008? Langmesta atvinnuleysið hefur verið þar. Eða erum við að tala um að skerða hinar skapandi greinar sem velta jafnmiklu og áliðnaðurinn? Ætlum við kannski að skerða rannsóknir og nýsköpun sem allir töluðu um fyrir kosningar að íslenskt atvinnulíf ætti að hvíla á?

Virðulegi forseti. Tími minn er því miður á þrotum en svo sannarlega er mjög mörgum spurningum ósvarað í þessu máli. Ég hefði talið það eðlilegt ef við ætlum að ganga frá þessu sumarþingi með einhverri reisn að við vissum hvernig mæta á þessari tekjuskerðingu eða hvort ætlunin er virkilega sú að hafa hér meiri halla á ríkissjóði (Forseti hringir.) og reyna að brúa þetta bil með því annaðhvort að draga úr fjárfestingu (Forseti hringir.) eða skerða rekstur aðþrengdra ríkisstofnana.