142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[22:55]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst aðeins um það sem hv. þingmaður gerir hér að umtalsefni, um muninn á vinstri pólitík og hægri pólitík sem hv. þingmaður vill ekki gera of mikið úr en ég held að skipti samt mjög miklu máli þegar við skoðum sögu umræðunnar um auðlindamálin, ekki bara hér á Íslandi heldur miklu víðar í heiminum. Við horfum auðvitað á átök um hvort við erum að tala um samfélag eða bara einstaklinga. Eins og Margrét Thatcher orðaði það einhvern tíma að ekki væri til samfélag heldur bara einstaklingar og fjölskyldur þeirra. Að sjálfsögðu hefur það verið ákveðin hugmyndafræði sem hefur birst í hægrinu að ekki sé til samfélag heldur bara einstaklingar og fjölskyldur þeirra. Þar hefur orðið gríðarlegur ágreiningur við þá sem telja sig til vinstri flokkanna og vinstri stefnunnar sem leggja áherslu á að til sé samfélag og að vissa hluti eigi að reka á samfélagslegum forsendum, dæmi heilbrigðiskerfi og menntakerfi.

Um þetta hefur verið gríðarlegur ágreiningur í öllum hinum vestræna heimi á undanförnum árum þó að við höfum auðvitað séð markaðsvæðinguna fara inn á æ fleiri svið samfélagsins sem áður var talið eðlilegt að væru í samfélagslegum rekstri. Þar nægir að nefna heilbrigðisþjónustuna en við getum líka nefnt fleiri dæmi þar sem við erum að tala um — og ég nefni sem dæmi, af því að það hefur verið í fréttum, staðgöngumæðrun á Indlandi, þar sem staðgöngumæðrun er rekin á markaðslegum forsendum, sem er mjög nýtt fyrirbæri. Umhugsunarefnið hlýtur að vera hvað við teljum samfélagslegt mál og hvað markaðslegt mál..

Hv. þingmaður spyr: Er ekki eðlilegra að tala bara um auðlindagjald í víðfeðmum skilningi? Svo að ég svari spurningu hv. þingmanns: Jú, það tel ég vera. Það hefur verið stefna minnar hreyfingar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að það sé eðlilegt að þessi hugmyndafræði á bak við veiðigjaldið (Forseti hringir.) eigi við um allar auðlindir.