142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[22:57]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er svo sem ekki mikið eftir að ræða í sjálfu sér hvað viðkemur þessu tiltekna máli. Við erum í raun og veru sammála um niðurstöðuna þegar kemur að veiðigjöldunum. Mér finnst umræðan um hægri og vinstri áhugaverð vegna þess að ég sé það aðeins öðruvísi en hv. þingmaður. Það er klassískt séð togstreitan milli samfélags og einstaklings þegar samfélagið er í raun og veru, eins og margir hægri menn eiga til að segja, lítið annað en samansafn af einstaklingum og sömuleiðis mætti saka hið klassíska vinstri um að átta sig ekki alveg á því að hægt sé að segja einstaklingar í fleirtölu. Það er kannski eitthvað sem við ættum að ræða betur yfir kaffibolla eða eitthvað svoleiðis.

Mér finnst veiðigjaldið og auðlindagjaldið og munurinn þar á svolítið mikilvægt vegna þess að þegar við segjum veiðigjald er eins og við séum að tala um einhverja sérstaka sátt þegar kemur að kvótakerfinu eða öllu heldur veiðiheimildum. Ég tel að við ættum að líta á þjóðareignir í sama skilningi og við lítum á eignarrétt einstaklings, í gegnum sama stækkunargler og við sjáum lýðræðið þegar kemur að sjálfsákvörðunarrétti einstaklings. Eins og lýðræðið er sjálfsákvörðunarréttur á stórum skala er einstaklingsfrelsið sjálfsákvörðunarréttur á litlum skala. Það sem ég meina með því — og ég þakka undirtektir hv. þingmanns um að frekar beri að kalla þetta auðlindagjald en veiðigjald — er að mér finnst að það ætti kannski að endurspeglast meira í nefndarstörfum og þegar við tölum um það almennt, vegna þess að eignarréttur hlýtur að eiga við þar og er enginn ágreiningur um það eftir því sem ég best fæ séð. Svo lengi sem við tölum um það á réttum skala ætti það heita auðlindagjald en ekki veiðigjald.