142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[22:59]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ekki sé ágreiningur milli mín og hv. þingmanns um þetta, kannski snýst umræðan frekar um orðanotkun og hvort við kjósum að nota orðið auðlindagjald, eins og hv. þingmaður gerir, eða veiðigjald. En af því að hann gerði það að umtalsefni að ég hefði tengt þetta við almenna umræðu hér á landi um kvótakerfið og um sáttina um sjávarútveginn þá held ég að sú tenging sé eðlileg. Það má kannski segja að sú umræða hafi náð langmestum hæðum í hinni pólitísku umræðu hér á landi langt aftur í tímann. Og eiginlega má segja að á síðari árum fari aðrar auðlindir og umræða um annars konar auðlindanýtingu að bætast í þann flokk, til að mynda þegar kom til einkarekstrar í orkugeiranum, sem áður var allur á samfélagslegri hendi.

Því má segja að þarna hafi umræðan þróast lengst, allt frá því í rauninni að núverandi kvótakerfi var tekið upp og sú umræða hófst hvort nýtingin á auðlind geti skapað óbeinan eignarrétt eða ekki. En að sjálfsögðu á sú umræða sem ég gerði að umtalsefni í ræðu minni áðan auðvitað heima þegar kemur að nýtingu á jarðvarma, þegar kemur að nýtingu fallvatnanna, þegar kemur að nýtingu vatnsauðlindarinnar sem er orðin ein eftirsóttasta auðlind heims. Og svo ég vitni aftur til annarra ríkja er þetta kannski stóri slagurinn þar sem vatnsauðlindin hefur verið einkavædd upp að einhverju marki, og þá erum við með nákvæmlega sömu umræðu.

Ég held að við hv. þingmaður séum sammála um að þetta sé regla sem eigi að gilda almennt um auðlindanýtingu og eðlilegt að ræða því bara um auðlindagjald.