142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[23:03]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég fyllist alltaf andakt þegar ég hlýði á hv. þm. Össur Skarphéðinsson tala og þakka honum fögur orð um fjaðrir mínar. Það er hárrétt sem hv. þingmaður benti á að við erum auðvitað farin að sjá fyrstu merki afleiðinga þessara frumvarpa og það sést í þeirri niðurskurðarkröfu sem ég nefndi áðan sem er búið að gera á opinberar stofnanir. Það er búið að senda út bréf og námsmenn eru þeir fyrstu sem finna fyrir niðurskurðinum. Að því leytinu til held ég einmitt að við sjáum þarna endurspeglun á vinstri og hægri pólitík. Af því að hv. þingmaður gerði orð mín um Margréti Thatcher að umtalsefni má kannski segja að hennar pólitíska barátta hafi snúist um að draga pólitíkina úr stéttabaráttunni og breski Íhaldsflokkurinn hafi í raun og veru háð mestu stéttabaráttuna í Bretlandi, þ.e. gegn verkalýðsstéttinni fyrir yfirstéttina og fyrir það sem við getum kallað efri miðstéttina með því að halda þeim málflutningi á lofti að allir ættu möguleika á að tilheyra miðstéttinni ef þeir hefðu nægilega hæfileika til.

Það má kannski segja að að einhverju leyti hafi það tekist með því að setja verkalýðsstéttina niður í breskri orðræðu þannig að nú höfum við séð hvernig yfirstéttin og efri millistéttin hafa náð öllum völdum þar og er afar áhugavert að sjá arfleifð Margrétar Thatcher. Hvað varðar fréttina sem var á Stöð 2 er það svo að umræða hefur verið af hálfu formanna stjórnarflokkanna um þingsetningardag og hugsanlega frestun hans. Ég held hins vegar að það sé rétt að formenn stjórnmálaflokkanna ljúki þeim samræðum áður en þær fara fram í þingsal.