142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[23:10]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það er nokkuð liðið á þessa umræðu en ég vildi inna hæstv. forseta eftir því hvort hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, sem málaflokkurinn heyrir undir, sé hér við umræðuna. Getur forseti upplýst um það hvort hæstv. ráðherra er hér við umræðuna?

(Forseti (ValG): Forseti getur upplýst um það að hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra er ekki í húsi.)

Hefur forseti í hyggju að gera boð fyrir ráðherrann um að vera viðstaddur umræðuna?

Að minnsta kosti þætti mér tilhlýðilegt, og ég held að segja megi að það hafi verið venja við 2. umr. um frumvörp sem afgreidd eru út úr nefnd, að nefndarformaðurinn sjálfur væri viðstaddur. Hv. þm. Jón Gunnarsson er formaður atvinnuveganefndar, er hann í húsi? Ég held að það sé býsna löng hefð fyrir því að formaður eða a.m.k. staðgengill formanns eða fagnefndar (Forseti hringir.) sem málið flytur sé við umræðuna og sé til svara og viðbragða og geti brugðist við spurningum eftir því sem umræðan gefur tilefni til.