142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[23:11]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Helga Hjörvar. Þessi umræða hefur staðið í allan dag en reyndar er rétt að geta þess að 2. umr. um veiðigjaldið hefur í sjálfu sér ekki tekið langan tíma miðað við hversu umfangsmikið mál þetta er og stórt, ég held að hún sé á öðrum degi eða svo. En það er rétt sem hv. þm. Helgi Hjörvar gat um að það er a.m.k. hefð fyrir því að þeir sem bera ábyrgð á umfjöllun máls í þinginu, forusta viðkomandi þingnefndar, séu viðstaddir umræðuna, taki þátt í henni og svari spurningum og þess háttar. Oft er líka óskað eftir viðveru ráðherra.

Rétt er að geta þess að þetta er mál sem væntanlega mun ganga til nefndarinnar að nýju eftir 2. umr. og fyrir 3. umr. þannig að það er eðlileg ósk og krafa að þeir sem munu halda utan um málið í nefndinni séu viðstaddir umræðuna. Mér finnst að nú þegar klukkan er farin að slaga í miðnætti,(Forseti hringir.) frú forseti, hafi það engan tilgang að halda umræðunni áfram lengur í kvöld ef nefndarformaður og ráðherra geta ekki verið viðstaddir.