142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[23:12]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Eins mikið og ég dái minn ágæta þingflokksformann, hv. þm. Helga Hjörvar, verð ég að leyfa mér þann munað að vera honum ósammála. Ég tel alls ekki að það mundi greiða fyrir störfum þingsins í kvöld ef hæstv. sjávarútvegs-, landbúnaðar- og umhverfisráðherra kæmi hingað til þessarar umræðu. Ef mín orð vega eitthvað í því máli mundi ég óska eftir því að hann héldi sig heima. Eins og hv. þingmaður sem hóf máls á þessu veit, er Framsóknarflokkurinn nú þegar búinn að líma þykkan heftiplástur fyrir munninn á þeim ágæta manni sem hefur skandalíserað nánast í hvert einasta skipti sem hann hefur talað við fjölmiðla hingað til og ég held að það bjargi engu þótt hann komi hingað.

Hins vegar leyfi ég mér að taka undir með hv. þingmanni að það er eiginlega vinnuhefð á hinu háa Alþingi að formenn viðkomandi fagnefnda séu staddir við umræðuna. Það er algert lágmark. Ég ítreka hins vegar, og þetta er svo sem ekkert persónulegt gegn þessum ágæta ráðherra, að ég er almennt ekki þeirrar skoðunar að hæstv. ráðherrar eigi að vera dregnir til umræðunnar þegar málið er komið í hendur þingsins eins og núna. Þá er það úr þeirra höndum.