142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[23:14]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Nú bregður svo við að ég er ekki alveg sammála hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni um hversu gagnlegt það væri að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra væri viðstaddur umræðuna og tæki jafnvel þátt í henni. Ég held að það gæti einmitt orðið fóður í góða umræðu ef hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kæmi hingað og tæki þátt í umræðunni á köflum. Ég held að það gæti verið gagnlegt.

Varðandi það að það sé ekki endilega góður siður að óska eftir því að ráðherrar séu viðstaddir þegar mál er komið inn í þing eru auðvitað ýmsar hliðar á því. Það er ekkert endilega sjálfgefið að þeir þurfi að vera það, þegar þeir eru í raun búnir að leggja málið inn í þing og það er komið hingað til meðferðar, en á meðan við búum enn þá við það kerfi að ráðherrar eru líka þingmenn og hafa atkvæðisrétt hér finnst mér ekki útilokað að hægt sé að æskja þess að ráðherrar séu viðstaddir umræðuna, a.m.k. hlýði á þann málflutning sem hér fer fram vegna þess að hann getur verið (Forseti hringir.) fóður fyrir þá ágætu ráðherra í áframhaldandi vinnu þeirra.