142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[23:15]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Þetta var auðvitað sjónarmið út af fyrir sig hjá hv. þingmanni. En almennt er ég á móti því að þegar mál er komið til þings og komið til umfjöllunar fagnefnda að verið sé að draga ráðherra til að svara fyrir það, það er ekki lengur í þeirra höndum. Það er partur af þeirri glöggu skiptingu sem á að vera milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins að við einmitt undirstrikum það með því að draga einungis til ábyrgðar fyrir málsins hönd á því stigi þá eða þann sem leiðir viðkomandi fagnefnd. Ráðherra má þess vegna vera víðs fjarri og stundum er það betra fyrir málið.

Ég held líka að hv. þingmaður hafi ekki sterka trú á sínum eigin málstað í umræðunni ef hann telur að það sé fallið til að styrkja málstað hans að fá hingað ráðherra beinlínis til að honum verði fótaskortur í öðru hverju spori og hægt sé að notfæra sér það. Við erum í málefnalegri umræðu sem hefur að ýmsu leyti verið ákaflega málefnaleg. Ég tek því alls ekki undir þetta.