142. löggjafarþing — 18. fundur,  2. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[00:00]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Fyrst ætla ég nú bara að segja hv. þingmanni til fróðleiks að ég hef alltaf talað fyrir hraustlegu auðlindagjaldi. Ástæðan fyrir því að ég segi hraustlegt en ekki hóflegt er að sumir mistúlka hugtakið hóflegt auðlindagjald á þann veg að það eigi að vera samkvæmt óskum þess sem gjaldið leggst á. Mér finnst ég kenna nokkurn keim af þeirri afstöðu í því frumvarpi sem hér er til umræðu.

Hraustlegt auðlindagjald er auðvitað þannig að allir þeir sem það er lagt á eru þokkalega ósáttir við það en það er hins vegar rétt. Þeir sem þurfa að greiða það bölva því eðlilega og telja það alveg í hæsta lagi en það er rétt, fyrir mér er það skilgreiningin á hraustlegu auðlindagjaldi.

Ég ætla nú ekki, af því að ég er ekki hagfræðingur og ekki sérfræðingur í auðlindarentu og skilgreiningu á henni, að útskýra það í of miklum smáatriðum. En það er auðvitað ekki þannig að auðlindarenta sé fasti, eins og ég sagði áðan í ræðunni, og sé þar af leiðandi sú sama í öllum greinum. Hún getur verið ólík í ólíkum greinum vegna þess einfaldlega að arðsemin er ólík í ólíkum greinum. Þá er arðurinn af aðganginum að auðlindinni mismikill. Það þýðir á móti að verðmætið af nytjum hennar er mismikið og þess vegna er eðlilegt að gjaldið sem innheimt er sé mismikið.