142. löggjafarþing — 18. fundur,  2. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[00:04]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aftur til áréttingar; á bls. 2 í áliti minni hlutans, sem er afskaplega gott plagg og ég hvet hv. þingmann til að lesa vandlega vegna þess að þar er vitnað í auðlindastefnunefndina frá 2012 í september, segir, með leyfi forseta:

„Auðlindarenta myndast m.a. í atvinnugrein sem byggir á sérleyfum til nýtingar náttúruauðlinda. Hún er sá umframhagnaður sem eftir stendur þegar atvinnugreinin hefur greitt allan rekstrarkostnað og staðið undir eðlilegri ávöxtun þess fjár sem bundið er í greininni með tilliti til þeirrar áhættu sem í rekstrinum felst.“

Með öðrum orðum, auðlindarentan getur verið mjög misjöfn. Hún getur verið misjöfn milli greina, hún getur verið misjöfn milli fyrirtækja eftir því hvernig aflasamsetningin er og á hvaða veiðum menn byggja fyrst og fremst. Hún getur verið misjöfn frá einum tíma til annars og það getur verið ólík áhætta af ólíkum tegundum.

Þess vegna finnst mér besta leiðin til að ákvarða auðlindarentuna sú sem ég rakti í ræðu minni, sem er að það sé gert í frjálsum viðskiptum á markaði. Þá þarf nefnilega ekkert að þrasa um hvort hún sé of hraustleg eða of léttvæg. Þá er það bara þannig að fyrirtæki borga það verð sem þau sjá sér hag í að borga fyrir viðbótarveiðiheimild. Það er besti mælikvarðinn að frjálsar útgerðir í frjálsu samkeppnisumhverfi leggi með frjálsum hætti mat á hvað þær eru tilbúnar að borga á hverjum tíma og það ráði skilgreiningunni á auðlindarentunni.

Ég hlakka nú bara til að vinna með hv. þingmanni að því að koma þessu mikla baráttumáli Samfylkingarinnar lengra en það hefur þegar komist.