142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir beindi til formanns efnahags- og viðskiptanefndar þeirri spurningu hér í þingsal 26. júní hvort eitthvað væri hægt að gera til að hjálpa þeim lántakendum sem eiga í viðskiptum við Dróma.

Svo virðist sem Drómi hafi reiknað niður gengistryggð lán tiltekins hóps viðskiptavina sinna með fyrirvara. Fyrirvarinn setur þennan hóp einstaklinga í verulega óvissu um fjárhagslega framtíð sína. Ekki er vitað til þess að önnur fjármálafyrirtæki hafi gert samsvarandi fyrirvara við endurútreikning gengislána í samræmi við lög nr. 151/2010.

Viðskiptavinir Dróma eru því að þessu leyti í allt annarri og verri stöðu en viðskiptavinir annarra fjármálastofnana. Reynist þetta rétt er tilefni til að kanna hvort slitastjórn Dróma hafi þar með brotið lög, einkum 101. gr. a í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki í slitameðferð. Í þeirri grein kemur efnislega fram að Fjármálaeftirlitinu beri að hafa eftirlit með rekstri fyrirtækja eins og Dróma. Enn fremur stendur í 1. mgr. téðrar greinar, með leyfi forseta:

„Eftirlitið nær meðal annars til viðskiptahátta þess sem felur meðal annars í sér að framganga þess gagnvart viðskiptavinum skal vera í samræmi við það sem almennt tíðkast hjá fjármálafyrirtækjum með gilt starfsleyfi.“

Um viðurlögin segir:

„Fjármálaeftirlitinu er heimilt að beina kröfu til héraðsdóms um að víkja skuli slitastjórn …“

Efnahags- og viðskiptanefnd hefur fundað með bæði Fjármálaeftirlitinu og Dróma og í framhaldi sent Fjármálaeftirlitinu bréf með spurningum um þetta mál þar sem þess er óskað að svarað verði eigi síðar en á morgun, 3. júlí.