142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Það stendur einfaldlega í þessari ályktun, óháð því hvort landsdómur, Ísland eða Úkraína eru nefnd, að lýðræðið og réttarríki krefjist þess að stjórnmálamenn séu verndaðir fyrir því að vera ákærðir vegna pólitískra ákvarðana. Þetta er það sem stendur þar og það mun standa. Hvort Ísland er nefnt á nafn eða Úkraína, þetta stendur þarna klárt og kvitt og er sending til okkar þingmanna um að sá leiðangur sem hófst hér 2010 var rangur. Menn geta með ýmsum hætti reynt að skjóta sér undan því en leiðangurinn var rangur og það er það sem Evrópuráðssamþykktin segir. Lýðræðið og réttarríkið krefjast þess, um það snýst málið sem ég gerði að umtalsefni í upphafi. Menn geta svo haft sínar skoðanir á því, bæði þeir sem ákærðu og hinir sem ekki gerðu það.

Virðulegur forseti. Menn hafa rætt um þingskapalögin, þau sem áttu að taka gildi í september á síðasta ári þegar fráfarandi fjármálaráðherra átti að leggja fram fjárlögin og tekjufrumvörpin samhliða. Því var frestað, ákvæðinu var frestað til ársins í ár, vegna þess að fjármálaráðuneytið treysti sér ekki til að leggja þetta fram á sama tíma. Þess vegna var ákvæðinu frestað. Nú, þegar beðið er um frestun vegna þess að kosningar eru nýafstaðnar, nýir flokkar teknir við — það tók mánuð að mynda ríkisstjórn — nú, þegar farið er fram á að þetta sé skoðað, verður uppi fótur og fit og þá þarf að halda þingsköpin. Hæstv. forseti. Fyrirgefið þið, þegar menn segja svo að ekki eigi að gera þetta (Forseti hringir.) pólitískt þá segi ég bara: Amen.