142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[14:05]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breyting á lögum um veiðigjöld. Þessi umræða stóð hér gær og á föstudaginn og sitt sýndist hverjum. Ég hitti úti á Austurvelli áðan góða vinkonu mína frá Flateyri. Hún spurði hvað verið væri að ræða núna inni á Alþingi, það eru kannski ekki allir sem fylgjast mjög vel með störfum Alþingis í sumarblíðunni. Ég sagði henni að við værum að ræða lækkun veiðigjalda. Þá sagði hún og sló sér á lær: Jæja, eiga þeir nú ekki salt í grautinn, blessaðir útgerðarmennirnir, það er kannski ekkert nýtt. En það er í lagi að þeir greiði af sínum auði þegar við sem erum ekki eins auðug þurfum að standa skil á okkar af okkar lágu tekjum.

Það finnst mér í stóra samhenginu vera kjarni þessa máls að verið er að horfa til þess að útgerðir í landinu greiði af umframhagnaði sínum eðlilega auðlindarentu til þjóðarinnar sem á auðlindina, sem ekki er deilt um. Það hefur verið sagt að í dag hafi stærstur hluti útgerðarmanna keypt sig inn í greinina og það er líka rétt en upphaflega fengu menn þessa auðlind án þess að greiða nokkuð fyrir og þannig byrjaði boltinn að rúlla. Það er enginn annar en þjóðin sjálf sem hefur skapað stærstan hluta af þeirri uppbyggingu og þeim arði og hagnaði sem er í greininni í dag. Ef það er ekki sanngjarnt núna, eftir allan þennan tíma, að menn fari að borga eðlilegri rentu af þessari sameiginlegu auðlind en verið hefur, nú þegar ríkissjóður hefur mjög mikla þörf fyrir að fá þessar tekjur, þá veit ég ekki hvenær sá tími kemur.

Það er kannski þessi réttlætiskennd almennings í landinu, og sem betur fer margra þingmanna hér inni, sem rekur á eftir. Það er með ólíkindum að það skuli vera fyrsta verk ríkisstjórnarinnar að hlaupa til og skerða tekjur ríkissjóðs um allt að 10 milljarða, eða um rúma 6 milljarða á ársgrundvelli — menn vita ekki hvað þetta hefði orðið í auknum tekjum miðað við aukinn hagnað útgerðarinnar — og koma svo hingað og segja okkur að menn geti ekki hafið þing á réttum tíma vegna þess að menn séu ekki tilbúnir með tekjuöflunarfrumvörp. Þetta er svo mótsagnakennt að manni finnst maður stundum vera staddur í leikhúsi fáránleikans.

Hjá venjulegu meðalskynsömu fólki gengur þetta ekki upp; og nú eigum við eftir að fá að vita hvar menn ætla að skera niður. Það eru örugglega margir í þjóðfélaginu sem bera fyrir því kvíðboga hvar það verður því að ekki virðist mega hrófla neitt við þeim í þjóðfélaginu sem eiga einhverja peninga eða eignir. Það virðist blasa við að leggja eigi af auðlegðarskatt, sem var settur á, og að taka eigi til endurskoðunar skattkerfið, sem breytingar urðu á á kjörtímabilinu til jöfnuðar með þrepaskiptu skattkerfi. Breytingarnar urðu í þá átt að þeir sem höfðu lægri tekjur og meðaltekjur lækkuðu hlutfallslega en hinir hækkuðu, þveröfugt við það sem var hér áður þegar þeir sem höfðu lægstu tekjurnar borguðu hlutfallslega hærra og þeir sem voru með hærri tekjur borguðu minna. En þessi hægri stjórn kemur til dyranna eins og hún er klædd. Það þarf ekkert að fara í neinar grafgötur um það fyrir hvað hún stendur. Það er kannski bara ágætt að það sé líka þannig.

Manni finnst oft að úti í þjóðfélaginu vilji menn ekki skilja hver er munur á hægri og vinstri, þetta sé allt orðið eins og enginn munur þar á. Það eigi bara að kjósa persónur og það séu engar stefnur til, það séu bara einhver gamaldags hugtök að tala um stefnur. En vinstri stjórnin brást við hruni frjálshyggjunnar á síðasta kjörtímabili á þann veg að hún lagði sig alla fram um að verja þá sem minna máttu sín og byggja þjóðfélagið aftur upp á þeim grunni að þeir sem hefðu úr meiru að spila greiddu meira til samfélagsins.

Þannig vinna menn sem telja sig vinstri menn og félagshyggjumenn, á þeim grunni, með jöfnuð í huga og réttlæti, en hægri menn telja að allt eigi að vera sem frjálsast og eru þá ekki endilega að spá í það hvort frelsið sé á kostnað einhverra, menn eiga bara að troða sér fram fyrir í röðinni og reyna að ná bita af kökunni, að skattar séu af hinu illa og að allt eigi að gera til að hafa skatta sem lægsta, frelsi sem mest og eftirlit sem minnst og þá muni þjóðfélagið blómstra og alltaf muni hrynja brauðmolar af borði þeirra ríku til þeirra sem minna hafa í þjóðfélaginu. Þetta er brauðmolakenningin sem Framsóknarflokkurinn virðist nú taka undir.

Manni þykir það sorglegt. Ég hef alltaf litið á Framsóknarflokkinn — kannski frá fyrri tíð — sem félagshyggjuflokk og góðan samstarfsaðila fyrir vinstri menn. Því að vinstri menn hér á Íslandi hafa kannski ekki alltaf og sjaldnast haft burði til að mynda ríkisstjórnir sem höfðu hreinan meiri hluta eins og gerðist í fyrsta skiptið á síðasta kjörtímabili og hafa reitt sig á Framsóknarflokkinn til að starfa með á félagslegum grunni og með samvinnuhugsjón að leiðarljósi. En Framsóknarflokkurinn virðist í seinni tíð vera genginn af þeirri trú að félagslegt réttlæti og jöfnuður sé eitthvað sem þurfi að halda á lofti. Völdin skipta hann meira máli og það að koma sínu fólki fyrir á réttum stöðum og beita sér þannig í gegnum peninga og völd.

Og hver er þá bestur til að vinna með þegar hugsjónirnar eru orðnar á þann veg frekar en að hugsa um jöfnuð og samvinnuhugsjónir og réttlæti? Jú, auðvitað er það Sjálfstæðisflokkurinn. Mér finnst það dapurt og ekki bara fyrir þá þingmenn sem hafa vilja til að vinna vel fyrir land og þjóð heldur fyrir kjósendur sem kusu Framsóknarflokkinn á allt öðrum forsendum, kusu hann vegna þess að þeir eru félagslega þenkjandi og vegna þess að þeir eru svo tryggir. Það hefur stundum verið sagt að það skipti ekki máli hver væri í framboði fyrir þá sem hafa kosið Framsóknarflokkinn í gegnum tíðina, að menn gangi alltaf inn og krossi við sinn Framsóknarflokk. Tryggðin er svo mikil og mér finnst það sorglegt fyrir þessa kjósendur.

Auðvitað verða kynslóðaskipti og menn geta ekki endalaust reitt sig á slíka kjósendur sem vaða eld og brennistein fyrir sinn flokk og kjósa hann sama hvað á gengur. En mér finnst Framsóknarflokkurinn hafa gjörbreyst og kannski verður það bara að vera svo. Ekki er lengur hægt að reikna með að hann vilji yfir höfuð starfa til vinstri. Það virðist vera orðið eitur í beinum flestra framsóknarmanna hér á þingi, það sem heitir vinstri og félagshyggja og réttlæti. Menn vilja kenna sig við aðra hluti en það og verja einkahagsmuni, einkaeignarrétt og fjármagnið, standa með því frekar en að standa með fólkinu í landinu. En aftur á móti hentaði það fyrir kosningar að gefa sig út fyrir að lofa fólkinu í landinu því að nú skyldi Framsóknarflokkurinn beita sér fyrir því að lækka skuldir heimilanna. Út á það fyrst og fremst, þó að það væri auðvitað mjög óábyrgt, var Framsóknarflokkurinn kosinn til valda.

Hann var ekki kosinn til valda af þessu sama fólki til að lækka veiðigjöld af útgerðum í landinu sem mala gull. Hann var ekki kosinn til þess, enda hvað er að gerast núna? Á undanförnum dögum hafa skoðanakannanir verið birtar og í þeim hefur Framsóknarflokkurinn verið að missa fylgi, síðast allt að fimm þingmenn, og mér finnst það bara vera mjög eðlilegt miðað við að hann hefur ekki risið undir þeim væntingum sem hann vakti fyrir kosningar.

Varðandi veiðigjöld þá segi ég það enn og aftur að mér finnst með ólíkindum að menn hafi kjark til að ganga hér fram og skera svo niður framtíðartekjur ríkissjóðs á þennan hátt án þess að nokkuð liggi fyrir um það hvernig mæta eigi þessum miklu tekjulækkunum hjá ríkissjóði. Menn hafa áhyggjur af þessu, líka þeir sérfræðingar sem komið hafa að þessari vinnu og telja að botnfisksútgerðin og bolfisksgeirinn greiði nær ekkert sérstakt veiðigjald með frumvarpinu en hafi vel burði til að greiða slíkt gjald, jafnvel hærra veiðigjald en áætlað er í dag. Uppsjávargeirinn er í bullandi gróða, eins og allir vita, og menn leggja til hækkun á þeim geira. Hann mun örugglega rísa undir því þó að eðlilega kveinki menn sér undan því innan sjávarútvegsins að það dragi á milli þessara útgerðarforma, uppsjávarveiði og bolfisksveiði. Ég tel það líka vera alveg eðlilegt að menn séu ekki alveg sáttir við það og held það hljóti að vera krafa frá uppsjávargeiranum að bolfisksgeirinn, sem hefur verið að skila miklum hagnaði heilt yfir, greiði eðlilega rentu.

Fyrir atvinnuveganefnd hafa komið ýmsir umsagnaraðilar og gestir og það hefur vissulega vakið athygli mína hve sveitarstjórnarmenn leggjast hart gegn veiðigjaldi og að þeir telji að verið sé að taka fjármagn úr samfélögunum og fara með það til höfuðborgarinnar. Ég spyr mig hvernig hægt sé að finna það út. Hafa þessi stóru útgerðarfélög, sem eru um land allt, verið að nýta hagnað sinn til uppbyggingar samfélaganna? Það er ekkert endilega þannig. Hvernig geta menn þá sett samasemmerki þarna á milli, að það sé sjálfgefið að menn séu að reikna út veiðigjaldið, sem lagt er á af ríkissjóði, á þann veg að deila því niður á íbúa viðkomandi sveitarfélaga og gefa í skyn að hver og einn íbúi þurfi að greiða þetta extra úr sínum vasa í ríkissjóð en ekki aðrir?

Mundu þessir sömu íbúar fá þessar tekjur sem veiðigjaldið væri ef útgerðirnar greiddu það ekki til ríkisins? Nei, auðvitað ekki og það hefur aldrei verið. Þessi þróun sem hefur verið víða á landsbyggðinni þar sem spila saman auður og völd — það er kannski gamaldags orðalag að tala um auðvald. En þegar maður hugsar það, og ég heyrði það í góðri ræðu í gær, að hugsunin á bak við auðvald, auður og vald, — það er ekkert skrýtið að menn hafi hér áður fyrr talað um auðvaldið, að það hefði þrúgandi áhrif og héldi hinum niðri sem ekki væru vel stæðir og minna mættu sín. Stór fyrirtæki, hvort sem er í sjávarútvegi eða öðrum atvinnugreinum, eru þannig sett að þau geta í raun beitt heilu samfélögunum fyrir sig og stjórnað heilu samfélögunum á bak við tjöldin; í krafti auðsins fá þau það vald.

Ég held að margir íbúar vítt og breitt um landsbyggðina þekki þetta mætavel. Ég er ekki að segja að fyrirtæki, hvort sem þau eru í sjávarútvegi eða öðrum greinum, eigi ekki að vaxa og dafna og hafa eðlilega rentu af vinnu sinni og uppbyggingu heldur vil ég að þau greiði með auðmjúkum hætti til baka til samfélagsins það sem þeim ber. Það á ekki að vera þannig að þau láti falla af manngæsku sinni til samfélagsins við hátíðlegar athafnir, hvort sem það heita íþróttamannvirki, hljóðfæri eða hjartastuðtæki — að þau séu ekki í þessum gír og telji sig þannig vera búin að greiða sitt til samfélagsins og vilji ekki greiða neitt í sameiginlega sjóði eða sem minnst og leita allra leiða til að komast hjá því. Það á ekki að vera eitur í þeirra beinum að greiða auðlindarentu af sameiginlegri auðlind.

Ég gæti skilið þetta kvart og kvein ef útgerðin hefði ekki borð fyrir báru, ef hún væri í miklu basli eins og hún hefur oft og tíðum verið. Ég kem úr sjávarplássi sem er lítið þorp vestur í Súgandafirði og ég hef munað tímana tvenna þar. Þar hef ég upplifað mikla og öfluga útgerð, togaraútgerð og fjölda línubáta, og ég hef upplifað að fyrirtæki fóru á hausinn og ný komu í staðinn og alls konar tilfæringar. Menn voru í basli og réttu svo úr kútnum og fóru svo aftur á hausinn. Þetta hefur oft verið sagan vítt og breitt um landið hjá útgerðarfélögum, hvort sem um má kenna vitlausri gengisskráningu, lélegum stjórnendum, lágu fiskverði, háu fiskverði eða aflabresti. Það má alltaf finna einhverjar orsakir í þeim efnum en allur gangur hefur verið á útgerð í landinu eins og með aðrar atvinnugreinar. En í dag þegar þessi grein hefur allt með sér, hefur haft gengið með sér undanfarin ár, hefur haft hátt verð á mörkuðum, hefur á síðasta ári fengið aflaaukningu upp á 20 þús. tonn í þorski og sama blasir við núna, án þess að greiða krónu fyrir þessa aflaaukningu, ekki krónu til samfélagsins þó að þetta sé sameiginleg auðlind — ég segi það sem dæmi, vegna þess að mér finnst ekkert allir skilja út á hvað þetta gengur, að menn eru alltaf að segja: Ja, við borgum nú fyrir aflaheimildir í dag, við erum ekki af þeirri kynslóð sem fékk þetta frítt upp í hendurnar. Gott og vel en hvað kostar varanlegt kíló af þorski í dag? 3.500 kr., eða þar um bil. Ef við reiknum þetta þannig að þeir sem fá þessa aflaaukningu upp á 20 þús. tonn, allir þeir aðilar, mundu selja það frá sér daginn eftir þá geta þetta verið, í verðmæti á þessu fasta verði eða meðalverði á varanlegu kílói af þorski, 3.500 krónur, á milli 60 og 70 milljarðar.

Menn verða aðeins að hugsa hlutina í þessu samhengi. Menn geta ekki bara tekið fyrir augun og sagt: Við eigum þetta og við ráðum hvað við gerum við þetta af því að við höfum einhvern tímann keypt okkur inn í kerfið. Þetta er endurnýjanleg auðlind sem þú borgar þá bara einu sinni fyrir en getur ár eftir ár gengið að henni vísri og dregið afla úr sjó. Og þú ert ekki lengi að afskrifa þann útlagða kostnað sem fylgir því að kaupa aflaheimildir í upphafi. Það tekur ekki mörg ár. Og þá ertu að ganga að þessari auðlind og veiða og hafa af henni miklar tekjur án þess að greiða fyrir nema hið sanngjarna veiðigjald sem ég tel vera.

Þegar ég kom inn á þing fyrir fjórum árum var það eitt af baráttumálum mínum að gera breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Efst á óskalistanum var ekki að setja á veiðigjöld, það var að gera kerfisbreytingu í stjórnkerfi fiskveiða. En veiðigjöldin eru meðfram mikið og stórt sanngirnismál fyrir þetta þjóðfélag, fyrir þá hugsun og fyrir það sjálfsagða mál að auðlindir þjóðarinnar séu sameign þjóðarinnar. Ég hef því ekkert dregið úr því að miðað við stöðu útgerðarinnar og miðað við þá hugmyndafræði sem liggur að baki auðlindarentu eigi þeir útgerðaraðilar sem hafa aflaheimildir að greiða eðlilega auðlindarentu, út frá þeirri formúlu sem auðlindarenta er hugsuð, af hagnaði viðkomandi greinar.

Í mínum huga er kerfisbreytingin öll eftir. Það segir kannski sitt, að ekki hafi tekist á síðustu fjórum árum að gera nema litlar kerfisbreytingar, samt góðar, um það hvers konar skjaldborg er í kringum útgerðir í landinu, stórútgerðir í landinu. Ég ætla ekki að fella allar útgerðir í landinu í sama flokk, það er ekki sanngjarnt. Þar er munur á. En stórútgerðir í landinu eru orðnar ríki í ríkinu. Þær virðast hafa hér á þingi sína menn sem stíga fram grímulaust og segja svo vera. Það er líka gott ef menn tala hreint út með það. Ég tel það vera orðið hættulegt lýðræðinu þegar fyrirtæki ráða orðið ferðinni, þegar þau ráða því hvernig gjaldtaka ríkisins er við þær gífurlegu erfiðu aðstæður sem þjóðfélagið er í. Menn geta bara slegið á puttann og sagt: Þetta komist þið ekki upp með. Þið lofuðuð fyrir kosningar að lækka á okkur veiðigjöldin og þið skuluð standa við það, sama hvort ríkissjóði muni blæða og skera þurfi niður í velferðarkerfinu, skera þurfi niður vítt og breitt um land varðandi samgöngur, menntamál og í öllum þeim póstum sem við viljum sjá að haldi áfram að byggjast upp eftir það áfall sem þjóðin varð fyrir af völdum frjálshyggju og markaðsafla fyrir rúmum fimm árum.

Nei, nú getur útgerðarelítan ekki meir, hún vill nýta umframarðinn sinn í eitthvað annað. Hvað er eitthvað annað? Ég var spurð að því um daginn, þegar ég var í ræðustól, hvað umframarður væri. Það virðist vera erfitt fyrir suma að skilgreina umframarð. Mér var sagt, eftir þá ræðu, af manni sem fylgst hafði með umræðunni að umframarðurinn væri til dæmis í verslunarhöllum hér í Reykjavík, Kringlunni, Smáralindinni. Þar hafa útgerðarmenn í gegnum árin verið að fjárfesta sínum umframarði í greininni. Þeir hafa ekki endilega verið að leggja það í sín samfélög eða hjálpa sveitarsjóði við að malbika götur eða eitthvað slíkt. Nei, þeir fóru margir í áhættufjárfestingar, í hlutabréfakaup í bönkum, fóru með fjármagnið utan í áhættufjárfestingar þar eða í verslunarmiðstöðvar hérna, tískuvöruverslanir og ýmislegt fleira.

Umframarðurinn — og menn hafa verið að tala um þetta sem landsbyggðarskatt — hvert hefur hann verið að renna undanfarin ár? Við sem byggjum landsbyggðina höfum séð á eftir því fjármagni hingað á höfuðborgarsvæðið og þurfti ekki veiðigjöld til. Ég held að menn þurfi nú aðeins að finna kjarnann í sjálfum sér og hugsa um þessi mál af réttlæti og sanngirni, burt séð frá pólitískum línum. Ég held að Íslendingar vilji í hjarta sínu að þeir sem afla vel og þéna vel og hafa tekjur af auðlindum þjóðarinnar greiði til sinna samfélaga. Greiði eftir álagningu en ekki eftir geðþótta hvers og eins, ekki eftir því hvort menn vilji gefa eitthvað rétt áður en skattaárið lokast til að fá afslátt á tekjuskatti eða eitthvað því um líkt. Svoleiðis góðsemi er mér ekki að skapi.

Og út af hverju ættum við ekki að treysta ríkissjóði fyrir því að deila þeim fjármunum sem veiðigjaldið skilar út til samfélagsins? Erum við þá að segja að við treystum yfir höfuð ekki ríkissjóði eða þeim stjórnvöldum hverju sinni sem eru við völd fyrir því að fara með skattfé almennings? Við vitum að það er mismunandi hvernig þingið er samsett hverju sinni og hvar áherslur liggja varðandi uppbyggingu í fjárlögum. En það er fólkið í landinu sem kýs fulltrúa hér inn á þing, það er fulltrúalýðræði, og það er fólkið sem á endanum ræður því hvaða flokka það kýs og hvernig stjórnmálamenn það fær inn á þing og í hvað þeir lofa að nýta skattfé almennings. Er það til að byggja upp gott samfélag eða er það til að lækka skatta á þá ríku og efnameiri eða til að bæta kjör þeirra sem verr eru settir? Þessu þarf fólk að spyrja sig að fyrir hverjar kosningar því að það er það sem ræður því að lokum, með þessu fulltrúalýðræði, hvernig fjármunum ríkisins er varið, hvort sem um er að ræða veiðigjöld eða aðrar tekjur. Þegar upp er staðið þá berum við sjálf ábyrgð á því hvernig skatttekjum ríkisins er varið og hvert þær renna.

Á síðasta kjörtímabili var sett í gang fjárfestingaráætlun ríkisins og veiðigjaldið átti að rísa undir framkvæmdum, jarðgöngum, samgöngubótum og uppbyggingu ferðamannastaða. Það átti að fara í nýsköpun, í rannsókna- og tæknisjóði svo að eitthvað sé nefnt. Það var líka gott að fá þetta fram því að þessi mýta að allar skatttekjur, sérstaklega ef talað er um eitthvað sem tekið er af þeim sem eru vel settir, renni til höfuðborgarinnar. Það er ekki sjálfgefið en það er heldur ekkert slæmt við það að hingað renni fjármagn til uppbyggingar stofnana, náttúrufræðistofnana eða eitthvað því um líkt, í eitthvað sem við öll sem þjóð eigum saman. Við eigum þessa höfuðborg saman. Þetta er borgin okkar, höfuðborgin okkar. Mér leiðist óskaplega þegar farið er í þær skotgrafir að etja saman landsbyggð og höfuðborg. Út af hverju er það? Hverjum gagnast það? Hvað eru menn að sækja með því að etja saman landsbyggð og höfuðborg? Stundum held ég að það sé til þess að spila á lægstu hvatir manna. Auðvitað eigum við öll að gera réttláta kröfu fyrir okkar samfélög hvar sem þau eru á landinu, það er bara eðlilegt, en við eigum ekki alltaf að stilla fólki upp sem andstæðingum í öllum málum.

Í þessu máli eru landsbyggð og höfuðborg ekki andstæðingar heldur samherjar — já, já, minnst á samherja — en landsbyggð og höfuðborg eiga sameiginlega hagsmuni af því að fá veiðigjöld, fá þær tekjur sem gert var ráð fyrir í öllum áætlunum, í þeim veiðigjöldum sem samþykkt voru síðastliðið sumar, til að byggja upp gott samfélag í öllu landinu. Það verðum við að gera. Við verðum að standa saman. Þess vegna var það líka mjög gott að af stað fór réttlætisbylgja og undirskriftalistar í þessu máli. Eins og ég skil það þá eru það hátt í 34–35 þúsund manns, 34 þúsund held ég að hafi verið síðasta talan, sem mótmæla lækkun veiðigjalda. Verða menn ekki að hlusta á þær raddir? Ætla menn að loka eyrunum fyrir þeim röddum og hugsa: Það er svo langt til næstu kosninga að þetta verður orðið fyrnt og við komumst vel upp með þetta?

Nei, ég held að menn ættu aðeins að staldra við því að þetta hefur afleiðingar og fólk lætur ekki bjóða sér vinnubrögð af þessu tagi. Almenningur hefur þurft að herða sultarólina vegna hrunsins allt þetta kjörtímabil en það fyrsta sem ríkisstjórninni dettur í hug að gera er að ganga fram með þessum hætti, vegna loforða sem gefin höfðu verið stórútgerðum í landinu, um að veiðigjöldin skyldu lækkuð og það ekkert smávegis. Þetta eru engir smápeningar. Menn fara ekki fram af neinni hógværð í þessum málum. Nei, menn taka bara allan pakkann og gera þetta grímulaust. Svo eru menn hissa á því að fólk sé að tala um hagsmunatengsl, bæði úti í þjóðfélaginu og líka hér á þingi. Menn eru óttaslegnir vegna hugsanlegra hagsmunatengsla þegar þau eru orðin svo alvarleg að þau geta haft áhrif á afkomu ríkissjóðs til eða frá.

Það hefur komið fram, í greiningu hjá fræðimanni í háskólanum, að útgerðirnar hafa verið að borga þeim flokkum sem nú eru við völd háar fjárhæðir fyrir kosningar. Þetta er grafalvarlegt mál sem mér finnst að Ríkisendurskoðun eigi að fara ofan í saumana á. Þetta er hættulegt lýðræðinu og okkur sjálfum, sjálfstæði okkar hér á þingi. Það er hættulegt sjálfstæði okkar sem þingmanna að vera undir þeirri miklu pressu að stór fyrirtæki geti beitt þessum mikla þrýstingi til að verja sérhagsmuni sína.

Ég held að það sé enn ferskt í minni fólks þegar Austurvöllur fylltist af sjómönnum. Og út af hverju? Það var línan hjá útgerðarfélögum: Sjómenn, farið þið út á Austurvöll, standið með okkur í kjarabaráttunni og mótmælið veiðigjöldum. Og menn voru reknir hingað í réttirnar, þorðu ekki öðru. Hvað hefði gerst ef menn hefðu látið heyra í sér? Ég hef heyrt að mönnum hafi blöskrað en menn höfðu ekki í margt að hverfa ef þeir hefðu misst pláss sín um borð. Er þetta í lagi? Nei, þetta er ekki í lagi. Svona þjóðfélag vill maður ekki sjá, þjóðfélag þar sem menn eru beittir óbeinum þvingunum og þeim beitt fyrir vagninn til að verja sérhagsmuni, þjóðfélag þar sem menn vilja ekki greiða til samfélagsins eðlilega auðlindarentu af nýtingu náttúruauðlindar allra landsmanna.

Ég vona að menn taki til greina þann stóra og ríka vilja sem kemur fram hjá því fólki sem hefur skrifað undir mótmæli við þessum breytingum og lækkunum. Ég vona að ríkisstjórnin sjái að sér og að henni verði ljóst að ef hún ætlar að byggja upp gott samfélag þarf hún á þessum tekjum að halda.