142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[14:45]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þá ágætu umræðu sem farið hefur fram hér um þetta mikilvæga mál, frumvarp um breyting á lögum um veiðigjöld, sem er mikið prinsippmál og þarfnast þess vegna eðlilegra nokkurrar umræðu í þinginu.

Fram kom við umræðuna í gærkvöldi að nú sé staðan orðin sú að hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson og stjórnarmeirihlutinn hér í þinginu treysta sér ekki til að leggja fram fjárlög á haustdögum þann 10. september næstkomandi, eins og gert er ráð fyrir í þingskapalögum. Það séu uppi óskir um að fresta því að Alþingi komi saman í haust vegna þess að stjórnarmeirihlutinn getur ekki lagt fram fjárlagafrumvarp. Það bendir til þess að nokkuð sé til í því sem menn hafa haft áhyggjur af við umfjöllun þessa máls og raunar nokkurra annarra á þessu stutta sumarþingi að hér sé verið að taka ákvarðanir um að gefa eftir tekjur ríkissjóðs sem er í þröngri stöðu og er að koma úr mikilvægu uppbyggingarstarfi eftir efnahagslegt hrun landsins, um að falla frá umtalsverðum tekjum og stofna til ýmissa útgjalda án þess að stjórnarmeirihlutinn hafi nokkra hugmynd um hvað hann ætli að láta koma í staðinn. Eftir að hafa meira af kappi en forsjá farið fram með þessi mál í því að gefa eftir við 5 þúsund efnuðustu fjölskyldurnar í landinu þá eignarskatta sem þær fjölskyldur hafa þurft að standa skil á meðan við erum inni í gjaldeyrishöftum og með því að gefa núna þessari 10 milljarða eftir til útgerðarinnar og ýmsum öðrum ákvörðunum þá sé stjórnarmeirihlutinn búinn að skapa sér vanda af þeirri stærðargráðu að hann hafi satt að segja ekki hugmynd um hvernig hann ætli að leysa hann vegna þess að peningarnir vaxa ekki á trjánum. Þeir falla ekki af himnum ofan, sérstaklega ekki á tímum alþjóðlegra erfiðleika á fjármálamörkuðum.

30 milljarða gat hefur verið nefnt af einum af ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Það blasir við núna eftir að þessar ákvarðanir hafa verið teknar, til viðbótar við þá stöðu sem fyrir var, að þess fjár verður að afla, það er ósköp einfalt, því að ekki er hægt að halda áfram að reka ríkissjóð með halla og safna skuldum á komandi kynslóðir því að skuldabyrði ríkissjóðs er við þolmörk. Þess vegna verður annaðhvort að skatta einhverja aðra en útgerðina til að afla þeirra tekna sem hér er verið að leggja til að falla frá og þar er nú ekki um sérlega auðugan garð að gresja. Það er þá fyrst og fremst spurningin um hvort stjórnarmeirihlutinn ætlar að ráðast í frekari skattlagningu á almenning í landinu. Hins vegar er hægt að skera niður til þess að mæta þessu en það yrði sannarlega mjög tilfinnanlegur niðurskurður að skera niður á jafnskömmum tíma og hér um ræðir, á þessum tveimur árum, um 10 milljarða kr. í velferðarþjónustu á Íslandi. Það er algerlega óhjákvæmilegt að sá niðurskurður mundi bitna á grunnþjónustu, mikilvægri þjónustu. Það kemur mér satt að segja ekkert á óvart þó að hæstv. fjármálaráðherra, sem er því miður nú ekki við þessa umræðu, sé í nokkrum vandræðum með þessar fyrirætlanir og sjái ekki á þessu augnabliki þegar þó er verið að ætlast til þess að þessi gjafabréf séu samþykkt til útgerðarinnar, með hvaða hætti eigi að loka dæminu og sé þess vegna farinn að biðja um frest á því að leggja fram fjárlög.

Ég held að almennt sé það ágæt regla fyrir stjórnarmeirihluta þegar hann tekur ákvarðanir um umtalsverðar fjárhæðir í opinberum rekstri að gerð sé grein fyrir því hvaðan féð eigi að koma um leið og menn taka þær ákvarðanir, annars er mjög fljótt í óefni komið. Það er ekki þannig að veiðigjöld annars vegar og auðlegðarskatturinn hins vegar séu skattar sem leiði til þess með því að þeir lækki til sérstakra umsvifa í efnahagslífinu að heitið geti eða þá að það hvetji umfram annað til sérstakra nýfjárfestinga í atvinnulífi og leiði þannig til aukinnar verðmætasköpunar og geti þar með skilað meiri skatttekjum eins og þó eru dæmi um. Auðvitað er hægt að grípa til ráðstafana í skattamálum sem geta haft slík áhrif að nokkru marki en því er ekki að heilsa. Ef vilji manna stæði til þess að örva efnahagslífið með skattalegum ráðstöfunum eru um það bil allar aðrar skattalegar ráðstafanir í bókinni betri en þessar tvær til að örva efnahagslífið, fjölga störfum, auka veltuna í samfélaginu og verðmætasköpunina. Allt ber þetta því að sama brunni, að hér sé fyrst og fremst á ferðinni sérhagsmunapólitík fyrir þá aðila sem hafa sterk ítök í stjórnarmeirihlutanum og njóta þess að vera fremstir í forgangsröðuninni þegar úthluta á fjármunum og að vera þeir hópar sem hægt er að úthluta til miklum fjármunum alveg vandræðalaust á meðan ýmsar ástæður eru taldar fyrir því að ekki er með sama hætti hægt að efna loforð við aðra hópa í samfélaginu.

Það er auðvitað bara pólitík. Pólitík er bara spurningin um forgangsröðun. Ekki síst er hún spurningin um forgangsröðun á opinberu fé, á endurdreifingu teknanna í samfélaginu. Þetta er alveg skýr forgangsröðun. Það eru einfaldlega 5.000 efnuðustu heimilin í landinu sem eru í fyrsta forgangi og í öðrum forgangi koma síðan útgerðarmennirnir með þetta 10 milljarða gjafabréf. Það þarf ekki að koma neinum á óvart að það er í mínum huga vond forgangsröðun af því að ég held að ríkissjóður þurfi sannarlega á þessum tekjum að halda og að allt þetta fjármagn sé betur komið hjá öðrum hópum í samfélaginu, hjá öðrum heimilum en þeim sem eiga kvótann í landinu en sem verið er að gera hér. Miklu skynsamlegra væri horfa á málið út frá efnahagspólitík, atvinnusköpun og öðrum hlutum og grípa til annarra ráðstafana en hér er gert.

Þetta er vond ákvörðun, vond pólitík af mörgum öðrum ástæðum, ekki bara af því að þetta er forgangsröðun í þágu forréttindahópanna í samfélaginu, grímulaus sérhagsmunagæsla og forréttindapólitík. Ein er sú að það að koma á hinu sérstaka veiðigjaldi á síðasta kjörtímabili var að mínu viti býsna farsælt skref. Hvers vegna segi ég það? Ég segi það vegna þess að allt of lengi höfum við Íslendingar blandað saman ólíkum sjónarmiðum um fiskveiðistjórnarkerfið sem slíkt og hins vegar þeirri eðlilegu sanngirniskröfu að almenningur njóti tekna af auðlindinni sem við eigum saman og að komandi kynslóðum Íslendinga, börnum okkar og barnabörnum sé líka tryggður hlutur í arðinum af þessari auðlind sem við eigum saman. Allt of lengi blönduðust þessar tvær óskyldu umræður saman og ósættið vegna þess að almenningur naut ekki arðs af auðlindinni varð til þess að uppi voru ýmsar hugmyndir um breytingar á sjálfu fiskveiðistjórnarkerfinu sem ég held að hefðu ekki verið skynsamlegar.

Það er einfaldlega þannig að fiskveiðistjórnarkerfið hefur skilað okkur umtalsverðum efnahagslegum árangri, kannski ekki síst á 10. áratugnum, aukinni framleiðni, hagræðingu, betri arðsemi og hefur leitt til þess að í þessari grunnatvinnugrein okkar er meira til skiptanna. Það tókst að aðskilja annars vegar umræðuna um fiskveiðistjórnarkerfið, sem enn er í meginatriðum hið sama, og hins vegar að hefja töku arðs, auðlindarentu úr greininni, sem er alger forsenda fyrir því að það geti verið sæmilegur friður um þessa grundvallaratvinnugrein okkar Íslendinga. Það er mikilvægt að sæmilega breið sátt geti tekist um greinina og að þar geti menn búið við fyrirsjáanleika og öryggi í rekstrarumhverfinu til nokkuð langrar framtíðar, sem er sannarlega mikilvægt fyrir atvinnugreinina.

Þess vegna var það framför að í staðinn fyrir að greiða það klink sem hér var haft að málamyndagjaldi á árunum upp úr síðustu aldamótum hefur greinin nú í ár sannarlega lagt umtalsvert til til samneyslunnar. Sem betur fer er gjaldinu þannig hagað að greinin gerir það þegar vel árar. Þegar illa árar lækka gjöldin eða hverfa því sem næst.

Það er líka ákaflega mikilvægt því að það er brýnt að afkoma í sjávarútvegi sé góð, að þar sé hagnaður sem getur verið undirstaða frekari fjárfestinga og aukinnar framsóknar í þessari mikilvægu atvinnugrein okkar. En þegar framlegðin er eins og hún er á árinu í ár, kannski hátt í 100 þúsund millj. kr., eða sem nemur um milljón kr. á hvert heimili í landinu, er það ósköp eðlileg sanngirniskrafa að einhver hluti af því renni í sameiginlega sjóði. Ekki á það síst við núna eftir þau miklu efnahagslegu áföll sem við Íslendingar urðum fyrir og þær miklu og þungu byrðar sem allur almenningur í landinu þarf að bera og hefur þurft að bera síðan bæði í skuldum og sköttum og skertri þjónustu, þegar horft er á þær álögur sem allt almennt atvinnulíf í landinu hefur þurft að taka á sig sem hefur þó búið við miklu lakari afkomu nú undanfarin ár en sjávarútvegurinn nokkurn tíma. Sá hluti sem gert er ráð fyrir að greinin skili í auðlindagjaldi er aðeins pínulítill hluti af þessari gríðarlega miklu framlegð — ætli það séu ekki um 13 milljarðar á ársgrundvelli.

Þá er spurningin: Er það sanngjarnt? Er það eðlileg gjaldtaka? Og um það á umræðan hér auðvitað að snúast. Svarið við því er býsna augljóst: Já, það er sanngjarnt. Allir, sem stendur það til boða, hafa þegið að veiða fisk við Íslandsstrendur upp á það að greiða þetta auðlindagjald. Hér er lagt til að gjaldið fyrir það að veiða kíló af þorski lækki úr 35 kr. á kílóið niður í 17. Allir sem eitthvað þekkja til mála vita að hvaða útgerðarmaður sem er á Íslandi mundi, af einhverjum öðrum aðila en ríkinu, vera á hvaða degi vikunnar sem vera skal tilbúinn til að leigja til sín aflaheimildir á 35 kr. fyrir kílóið.

Það er þannig algerlega augljóst og þarf ekki mikla stærðfræðikunnáttu til eða nána þekkingu á þessu umhverfi að átta sig á því að það gjald sem hér er verið að lækka er býsna sanngjarnt fyrir, það er sannarlega ekki ýkja íþyngjandi fyrir. Þó hafa verið færð nokkur rök fyrir því að gjaldið geti lagst þungt á einstaka útgerðarflokka, á smærri útgerðir eða útgerðir sem sækja tilteknar tegundir, og þá kannski heldur of létt á einhverja aðra útgerðarflokka. Það geta verið málefnaleg sjónarmið að baki slíku og er ekkert sjálfsagðara en hafa gjald sem þetta í stöðugri endurskoðun og gera á því tilfærslur og breytingar. Það er ekkert tilefni til að lækka auðlindagjald af sjávarútvegi á Íslandi einmitt á því ári þegar ríkissjóður þarf sannarlega á tekjunum að halda og þegar hagnaðurinn í íslenskum sjávarútvegi er meiri en hann hefur nokkru sinni verið í Íslandssögunni. Það hefur aldrei verið annar eins hagnaður í íslenskum sjávarútvegi og nú. Við það bætist að hér við umræðuna, og það sýnir nú hvað umræðan í þingsal getur verið gagnleg, upplýsti sá ágæti hv. þm. Haraldur Benediktsson okkur um að það sé ekki bara þannig að afkoma í greininni núna sé svona gríðarlega góð heldur sé það líka þannig að matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna, FAO, spái því, og það megi sjá á vef þeirra, að á næstu átta árum verði 15–18% raunhækkun á fiskverði í heiminum, sem bendir til þess að horfurnar fyrir greinina séu jafnvel enn glæsilegri en afkoman í ár. Hvers vegna er óskynsamlegt að lækka gjaldið? Jú, það er vegna þess að ríkissjóður þarf á tekjunum að halda. Við þurfum að fara í Landspítalann og skólana okkar til að halda sköttum á almenningi í skefjum. Í öðru lagi vegna þess að gjaldið eins og það hefur verið undanfarið er bara ósköp sanngjarnt. En í þriðja lagi vegna þess að með því að lækka gjaldið skapa stjórnarflokkarnir á ný þær hörðu deilur sem einkenndu alla stjórnmálaumræðu um sjávarútveg ár eftir ár, allt frá því að kvótakerfið var innleitt. Þeir rífa upp þá tilraun til sáttar sem gerð hefur verið, taka eðlilegan og sanngjarnan hlut almennings í arðinum af sinni eigin auðlind og lækka hann óhóflega án þess að fyrir því sé nokkur haldbær rökstuðningur. Þar með rífa þeir upp sáttina um sjávarútveginn og þar með er öll umræðan komin af stað aftur, líka um fiskveiðistjórnarkerfið, sem ég hefði haldið að skipti okkur sem þjóð miklu máli að halda frið um.

Hvers vegna er þessi sterka krafa um að hafa arð af auðlindinni sinni? Það er einfaldlega þannig að það er munurinn á því að vera þróað lýðræðisríki eða bananalýðveldi hvort þjóðin hefur arð af auðlindum sínum eða hvort hún lætur litla hópa eignarmanna ræna sig þeim arði. Fyrir land eins og Ísland sem er ríkt að auðlindum er það gríðarlega mikilvægt að við á löggjafarsamkomunni tryggjum að ekki bara ríkissjóður í dag heldur börnin okkar og barnabörnin um alla framtíð njóti arðsins af auðlindinni, ekki bara af fiskinum í sjónum heldur líka af olíunni, líka af vatnsréttindunum, líka af jarðhitanum o.s.frv. Ef það hendir okkur að missa úr höndunum þessar auðlindir til einkaaðila, alþjóðlegra aðila þá getur auðvitað farið svo yfir lengri tíma að hér sitji almenningur og horfi á aðra hagnýta sér auðlindir landsins án þess að það komi þessu samfélagi sérlega til góða. Það er gildra sem margar þjóðir hafa fallið í, einkum þær sem lent hafa í fjárhagserfiðleikum og það er nokkuð sem við Íslendingar þurfum sérstaklega að varast. Í auðlindalöggjöf í þinginu var unnið stórmerkilegt starf snemma á síðustu öld, t.d. við setningu vatnalaganna sem alþingismenn þess tíma vönduðu sig sérstaklega við og tóku mörg ár í smíðum. Þau dugðu í hátt í heila öld til að leysa úr hinum flóknustu álitaefnum, m.a. um efni og þróun í tækni og öðrum slíkum hlutum sem enginn gat séð fyrir í kringum árið 1920. Þar var sú grundvallarhugsun að skilja til að mynda ekki réttindin frá vatnsbakkanum þannig að bóndinn mundi ekki horfa á menn hagnýta sér veiðiréttinn í ánni án þess að hafa af því nokkrar tekjur sjálfur vegna þess að einhvern tíma á leiðinni fyrir einhver skammtímasjónarmið höfðu þau verið skilin frá jörðinni sjálfri. Það eru þessi langtímasjónarmið um auðlindir okkar sem við þurfum að standa vörð um sem alþingismenn.

Hér hefur stundum verið reynt að draga í dilka landsbyggð og höfuðborg. Það er leikur sem oft er leikinn þegar reyna á að hylja reyk sérhagsmunagæslu. Ég hlýt að minna þar á í fyrsta lagi að héðan frá Reykjavík er nú býsna mikið gert út og býsna mikill hluti af auðlindagjaldinu greiddur, en einnig eru ýmsar aðrar útgerðir staðsettar hér. Fyrst og síðast er gjaldið á þá sem eru handhafar kvótans og ég hygg að býsna margir af þeim búi bara hér uppi í Þingholtunum eða úti í Vesturbæ í fremur veglegum húsum, ef ég veit rétt. Það er þess vegna býsna mikil einföldun að halda því fram að þetta sé sérstakur landsbyggðarskattur því að mikið af þeirri atvinnu- og fjárfestingarstarfsemi sem hefur þá minna úr að spila eftir að það gjald er til komið er náttúrlega bara staðsett hér í Reykjavík, í 101 í aðalatriðum, hvort sem það er úti á Granda eða uppi á horninu á Öldugötu og Bræðraborgarstíg.

Hins vegar er þetta auðvitað ekki eina auðlindin sem við eigum saman. Ég hef margítrekað í umræðunni lagt á það ríka áherslu að við þurfum með sama hætti að búa um hin. Við höfum sem betur fer gert það varðandi olíuna með þeirri lagasetningu sem við beittum okkur fyrir á síðasta kjörtímabili, en við eigum líka að gera það með orkuauðlindir. Með því að gera það er hægt að mæta þeim sjónarmiðum, að svo miklu leyti sem þau eru yfir höfuð gild, að þetta leggist meira á landsbyggðina en höfuðborgina þó að gjaldið leggist auðvitað á bæði höfuðborg og landsbyggð. Það er auðvitað þannig að orkuauðlindirnar eru mikið til nýttar hér á suðvesturhorninu og til starfsemi sem er á suðvesturhorninu og auðvitað mundi auðlindagjald í orkuiðnaðinum leggjast þyngra á suðvesturhornið en á hinar dreifðu byggðir. Það gæti þá komið til móts við þau sanngirnissjónarmið sem ég held að hljóti að búa að baki því að það að taka auðlindagjöld megi ekki skekkja stöðu landsbyggðarinnar gagnvart höfuðborginni. Ég held að við eigum að vinda okkur í það verkefni á þessu kjörtímabili að tryggja að í sameiginlega sjóði renni eðlileg auðlindagjöld af bæði jarðhitanum og vatnsaflinu því að þetta eru líka mikilvægar auðlindir og þetta eru líka auðlindir sem við eigum saman. Þetta eru auðlindir sem skiptir máli að við tryggjum réttarstöðuna um til langrar framtíðar og tryggjum komandi kynslóðum arð til langrar framtíðar. Það færi auðvitað best á því að við gerðum það með því að gera þær nauðsynlegu breytingar sem gera þarf á stjórnarskrá lýðveldisins til að það sé sem best tryggt í löggjöf, eins vel og við getum yfir höfuð tryggt það, að auðlindirnar séu eign almennings og að almenningur eigi að njóta arðs af þeim. Það sé fest í stjórnarskrá og þá staðfest í þjóðaratkvæðagreiðslu ef stjórnarmeirihlutinn lætur það frumvarp til laga um breytingar á stjórnarskrá ná fram að ganga sem formenn stjórnarandstöðuflokkanna þriggja fluttu á síðasta þingi og samþykkt var fyrir alþingiskosningarnar eins og menn þekkja.

Ég held að það sé eitt af brýnustu verkefnum íslenskra stjórnmála. Ég tel að verið sé að spilla því verkefni með því órökstudda og þarflausa gjafabréfi til útgerðarinnar sem verið er að henda inn í alla þessa umræðu og alla þessa vinnu. Verkefnið á svo miklu fremur að vera það að koma t.d. á fót auðlindasjóði með svipuðum hætti og Norðmenn hafa komið sínum auðlindamálum fyrir, þar sem tryggt væri að í rynni arðurinn af vatnsaflinu, í jarðhitanum, auðlindarentan í sjávarútveginum og þær tekjur af sama eðli sem við megum vænta að hafa af olíuvinnslu í einhverri framtíð. Einnig mundu fara þangað tekjur af öðrum þeim auðlindum sem hagnýta má með þeim hætti að í sé umframarður eða auðlindarenta eða sérstök gæði sem sú atvinnustarfsemi sem hana nýtir hefur frá samfélaginu og eðlilegt er að komi gjald fyrir.

Kannski væri þó farsælast að þróa auðlindagjaldið með þeim hætti að það réðist sem allra mest á markaði, af hlutlægum mælikvörðum sem þyrfti ekki pólitískar deilur um hér á þingi frá einu kjörtímabili til annars, frá einum meiri hluta til annars vegna þess að það sem skiptir atvinnugrein eins og sjávarútveginn svo miklu máli er að það sé festa, stöðugleiki og býsna víðtæk sátt um það fyrirkomulag sem þar er, um þær reglur sem þar eru í gildi og um þá sýn sem við höfum til framtíðar fyrir þá atvinnugrein. Sífelldar deilur, ósætti og átök um atvinnugrein þar sem skiptir á milli frá einu kjörtímabili til annars eftir því hvort vinstri menn eru í forustu eða hægri menn, er ekki gott fyrir atvinnugreinina sjálfa og við eigum ekki að búa henni þau skilyrði. Það er einfaldlega skammsýni af hálfu stjórnarmeirihlutans að byrja nýtt kjörtímabil á því að rífa upp þessi sár með því að ætla að láta það verða sitt fyrsta verk að gefa útgerðarmönnum 10 milljarða sem engin þörf er fyrir að gera en mikil þörf er fyrir að nota til mikilvægra samfélagsmála. Stjórnarmeirihlutinn ætti miklu fremur að kappkosta að ná sem víðtækastri sátt um framtíðarfyrirkomulag í sjávarútvegi, framtíðarfyrirkomulagið um þessa auðlind. Við vitum öll að það verður aldrei bærilega víðtæk sátt um það umhverfi allt nema tryggður sé eðlilegur arður til þjóðarinnar fyrir afnotin af auðlindinni. Ef hann er tryggður eru auðvitað margir tilbúnir til að ganga býsna langt til að tryggja sem best starfsskilyrði og arðsamasta starfsemi í þessari grein. En alger forsenda fyrir því að víðtæk sátt geti náðst er að almenningur fái þetta eðlilega endurgjald sem ég hygg að allir menn geti fallist á að 35 kr. fyrir hvert kíló er.

Ég held að það viti það allir í þessum sal að það er ekki mikið gjald. Trúlega væru þeir allnokkrir útgerðarmennirnir sem væru tilbúnir til að veiða ekki bara upp á 35 kr. heldur upp á umtalsvert hærri fjárhæðir fyrir hvert kíló en það, en ég held ekki að það eigi að vera rök fyrir því að hækka gjaldið upp úr öllu valdi. Ég held að það sé mikilvægt að hér á þjóðþinginu leggi menn áherslu á að það sé ábatasamt að vera í sjávarútvegi. Það á að vera ábatasamt. Það er áhættusöm atvinnugrein. Hún býr auðvitað við miklar sveiflur í gæftum, kostnaði, þróun á mörkuðum, verði og öðru slíku og það á að vera ábatasamt að stunda sjávarútveg. Það er mikilvægt að grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar búi við sterkan efnahag og góða afkomu en hún mun nú gera það þó að hún borgi 35 kr. fyrir kílóið. Hún hefur verið að gera það þó að hún hafi greitt veiðigjald núna undanfarið.

Þó kunna að vera rök fyrir því að gera þurfi einhverjar breytingar innan gjaldsins sem létta af einhverjum tilteknum flokki útgerða en þyngja á öðrum eftir atvikum. En ég vara líka við því að menn tali um sjávarútveginn og gjaldtöku í honum með þeim hætti að þar eigi að friða umhverfið eins og það er í dag, að það megi engar frekari kröfur gera um arðsemi í greininni af því að þá gætu verið einhver fyrirtæki sem ekki réðu við það. Það er óheppilegt sjónarmið þegar grundvallaratvinnuvegurinn er annars vegar vegna þess að það er mikilvægt að fyrirtæki í sjávarútvegi haldi áfram að hagræða og að þau fyrirtæki sem skila mestri framleiðni, bestum hagnaði og eru í færum til að skila bæði eigendum og þjóðinni mestri arðsemi eiga að vaxa og dafna og fyrirtæki sem ekki eru eins hagkvæm, eiga annaðhvort að sameinast öðrum fyrirtækjum eða víkja. Það er grundvöllurinn fyrir efnahagslegum framförum í hverju landi að atvinnugreinarnar haldi áfram að þróast og batna og gera auknar arðsemiskröfur og þeir sem ekki standa sig í samkeppni geta orðið undir. Þannig er það. Við ætlum ekki að hafa eins sjávarútveg eftir 20 ár og við erum með í dag, ekki sömu fyrirtækin, ekki sömu skiptinguna á milli flokka og greina. Við viljum að atvinnugreinin breytist og arðsemiskrafa af hálfu eigenda auðlindarinnar, þjóðarinnar til þeirra sem sækja sjóinn, þrýstir sannarlega á um að staðið sé þannig að rekstri að hann sé sem hagkvæmastur, að framleiðni sé sem mest, að sóun sé sem minnst og að greinin sé í færum til þess að bera sem allra mestan arð bæði til þeirra sem eiga hlutaðeigandi fyrirtæki og eins í sjóði okkar almennings.

Ég held að áhyggjur manna af þessu frumvarpi núna séu kannski ekki af sömu stærðargráðu og af því frumvarpi sem við væntum þess að fá í vetur því að þrátt fyrir allt er þetta tímabundið ráðstöfun, 10 milljarða gjafabréf sem gildir bara í afmarkaðan tíma. En menn boða frekari breytingar á veiðigjaldinu. Ég hef áhyggjur af því að eins og lagt er af stað í þá vegferð með þessu frumvarpi sé ástæða til að ætla að sá leiðangur um endurskoðun á veiðigjaldakerfinu til framtíðar verði ekki farinn til að auka sátt um sjávarútveginn í landinu eða efla samstöðu um þessa grundvallaratvinnugrein, heldur sé ætlunin að hafa ekkert samráð, eins og í þessu máli, að taka ekkert tillit til sjónarmiða og keyra málin áfram í fullkomnu ósætti. Það hefur kallað á umtalsverð viðbrögð hjá almenningi þegar á örfáum dögum. Ég hygg að það hafi verið 35 þúsund manns sem mótmæltu þessari vondu forgangsröðun Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í þinginu sem kölluðu eftir því að veiðigjöldin yrðu óbreytt, enda er hún hverjum manni augljós. Sjávarútvegurinn hefur aldrei grætt eins mikið á Íslandi og í dag og ef það er einhver aðili á Íslandi sem þarf ekki á skattalækkunum að halda þá eru það kvótahafarnir á Íslandi því að gróðinn í sjávarútveginum hefur aldrei verið meiri. Það er einfaldlega þannig. Og ekki verður annað séð en að það haldi bara áfram að batna og batna ár frá ári, eins og hv. þm. Haraldur Benediktsson hefur bent okkur á í þeim spám sem fyrir liggja á alþjóðlegum vettvangi um þróun í þessari grein. Það er bara eðlilegt að fólk kalli eftir því að Alþingi endurskoði þessa ákvörðun. Ég man að á síðasta kjörtímabili sömdum við í stjórnarliðinu við minni hlutann um fjárhæðina á veiðigjaldinu. Við gengum til samninga við Framsóknarflokk og Sjálfstæðisflokk um það hvað væri hóflegt að leggja á í þessu veiðigjaldi. Ég átti sjálfur þátt í þeim samningaviðræðum vegna þess að það var af ýmsum ástæðum talið nauðsynlegt að koma til móts við sjónarmið minni hlutans í þessu efni til að skapa meiri sátt um málið en þá var uppi.

Mér finnst eftirtektarvert að þessir sömu flokkar sem hafa reynsluna af því að stjórnarflokkar gengu til samninga við þá um málamiðlanir til að auka sátt og draga úr andstöðu við það frumvarp sem hafði fram komið, að nú þegar þeir mæta sterkri andstöðu bæði á þingi og hjá þjóðinni við þessum fyrirætlunum, þá örlar ekki á viðleitni. Það örlar ekki á viðleitni til að hugsa málið aftur, að endurskoða afstöðu sína, taka til athugunar hvort koma megi til móts við þessi sjónarmið, hvort miðla megi málum í því skyni að auka samstöðu í málinu. Það örlar ekki á viðleitni. Ekkert samráð er þar um og það er varla að tillögur og afgreiðsla málsins fengi efnislega umræðu í nefndinni. Það var bara rifið út.

Ég vona sannarlega að slík vinnubrögð séu ekki fyrirboði um það sem koma skal þegar kemur að heildarendurskoðun á veiðigjaldinu. Það er auðvitað alveg ljóst að ef stjórnarflokkarnir ætla bara að rífa í gegn einhverja sérhagsmunagæslusýn án tillits til annarra sjónarmiða mun það auðvitað vekja á ný þær hörðu deilur og miklu átök um íslenskan sjávarútveg sem við þekkjum frá fyrri árum og ég hélt að við vildum í lengstu lög forðast að lenda í aftur. Við þurfum að skapa víðtæka sátt um þessa grein og það að greiða 35 kr. fyrir kíló af þorski er sanngjarnt endurgjald til almennings fyrir afnot af auðlindinni.