142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[16:14]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kom nú líka fram hjá hagstofustjóra, og það er rétt hjá hv. þingmanni, að bréfaskipti áttu sér stað í maímánuði síðastliðnum. Að hans sögn voru það fyrstu bréfin sem Hagstofan fékk um þetta mál, ári síðar en Hagstofan kom með athugasemdir í umsögn um frumvarpið á sínum tíma.

Hv. þingmaður hefur líka talað um þann mikla mun sem er réttilega á sérstöku veiðigjaldi milli bolfisksútgerðar og uppsjávarfyrirtækja. Sá meðaltalsgrunnur sem er verið að vinna með í frumvarpinu er kannski erfiður út af fyrir sig, sem betur fer er þetta því bráðabirgðaráðstöfun til eins árs þannig að hægt er að bregðast við.

Það sagði í ágætri ræðu hv. þingmanns við 1. umr. um þetta mál, með leyfi forseta:

„Hitt kemur líka til sögunnar, sem ætti nú ekki að þurfa vinstri manninn til að benda sumum hér í þingsal á, samkeppnissinnuðum þingmönnum, að þá færa menn þunga greiðslnanna á best reknu fyrirtækin og hlífa lakast rekna hlutanum ef þeir láta afkomu hvers og eins fyrirtækis vera andlagið að fullu og öllu leyti. Þá bera best reknu fyrirtækin með mestu framlegðina, mesta hagnaðinn, þungann af gjöldunum og hinum er hlíft. Og hvaða áhrif hefur það til lengdar á atvinnugrein af þessu tagi, er það það sem við viljum?“

Þetta þykir mér furðulegasti sósíalismi sem ég hef nokkurn tímann heyrt vegna þess að ef tveir aðilar hafa mismunandi tekjur hlýtur væntanlega sá að greiða hærra sem hefur það betur, ekki satt? Það er einmitt mergurinn málsins með þessu frumvarpi að meiri hluti nefndarinnar leggur til og reynir að koma því þannig til að þeir sem geti borið byrðarnar geri það, hinum sé hlíft, en þetta er bráðabirgðaráðstöfun. Að ári liðnu kemur fram nýtt frumvarp, eða núna í haust, og þá geta menn væntanlega lagt grunn að farsælla kerfi til framtíðar og vonandi góðri sátt.