142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[17:03]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég get nú verið hv. þingmanni sammála um það. Sömuleiðis þótti mér það áréttað í alveg prýðilega málefnalegri ræðu sem hv. þm. Haraldur Benediktsson flutti í gær eða fyrradag þar sem hann lagði fyrir þingið upplýsingar sem hann hafði aflað sér frá FAO sem bentu til þess að á næstu átta árum mundu afurðir eins og sjávarafurðir, fiskfang, hækka í verði kannski um 15–20%. Þannig að miðað við það að bullandi afkoma er nú í ár hjá útgerðinni allri að heita má og meiri en nokkru sinni fyrr og mjög líklegt er að sú góða staða haldi áfram enn um sinn, er auðvitað algjörlega fráleitt að fara þá leið að lækka veiðigjaldið.

Með tilliti til þess að menn eru að reyna að ná saman hefði ég talið að það væri algjörlega upplagt, eins og hér hefur verið reifað af stjórnarandstöðunni, að taka hluta úr frumvarpi hæstv. ríkisstjórnar, einkum þann hluta sem lýtur að hækkun veiðigjalds á uppsjávarútgerðirnar, en halda áfram hinu sérstaka veiðigjaldi eins og það var lagt upp af fyrrverandi ríkisstjórn, þó með þeim breytingum að hækka frímarkið til þess að vernda litlar og meðalstórar útgerðir. Eins og ég hef skilið það mál þá sýnist mér að miðað við þær tillögur sem reifaðar hafa verið af minni hlutanum sé það nánast ljóst að hálft fjórða hundrað útgerða, sem allar falla í flokkinn litlar og meðalstórar útgerðir, mundu njóta þeirra breytinga.

Ég tel því að það sé vel sett undir þá leka sem framkvæmdin sýndi að var á hinu fyrra frumvarpi sem við samþykktum og gerðum að lögum. Þegar upp er staðið held ég að ekki sé mjög langt á milli okkar, mín og hv. þingmanns. Getur hv. þingmaður upplýst mig um hvað veiðigjaldið yrði ef þeirri tölu yrði haldið sem nú er í frumvarpi ríkisstjórnarinnar og síðan þeirri tölu sem minni hlutinn leggur til? Gæti það ekki verið 17–18 milljarðar? Ég tel að það sé það sanngjarnasta sem er að finna (Forseti hringir.) í þessari stöðu.