142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[17:42]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir sköruglega ræðu. Á sínum tíma var ég sömu skoðunar og a.m.k. ýmsir hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að bylta ætti fiskveiðistjórnarkerfinu með nokkuð róttækum hætti. Ég, eins og margir, var þeirrar skoðunar að til þess að unnt væri að þjóðin nyti með réttum hætti afgjalds af eign sinni í hafinu en að sama skapi líka jafnræðis varðandi aðgang að miðunum þá ætti að fara fyrningarleið. Ég taldi það bestu leiðina.

Mér gekk hins vegar, eins og mörgum öðrum, erfiðlega að finna hina réttu leið til þess að fyrna aflaheimildir án þess að það slægi stoðir undan útgerðinni að mestum hluta hennar. Ég féllst hins vegar á það þegar menn voru hér á síðasta kjörtímabili að ræða þann möguleika að útgerðirnar fengju tiltölulega langa nýtingarsamninga, að sú leið yrði farin, en þá aðeins gegn því að veiðigjaldið yrði hækkað allríflega. Það var það gjald sem útgerðin á þeim tíma var reiðubúin til þess að láta af höndum, mjög nálægt því sem raunin varð síðan.

Nú blasir það við að þessi ríkisstjórn ætlar að taka þetta til baka. Þá er það mín skoðun að verið sé að slíta í sundur frið og það sé í reynd verið að hrinda mönnum eins og mér, sem vildu fara þessa samningaleið, aftur til baka. Ef við viljum ná fram réttlæti er engin leið nema taka aftur upp baráttu fyrir fyrningarleiðinni. Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann hvort hún geti komist að sömu niðurstöðu og (Forseti hringir.) ég er að komast að undir þessari umræðu.