142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[17:44]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna.

Ég get alveg tekið undir með honum að við lögðum auðvitað heilmikla vinnu á síðasta kjörtímabili í ný fiskveiðistjórnarlög sem við vildum reyna að koma hér í gegn. Bylting á kerfum er alltaf erfið og þegar um slíkar fjárfestingar er að ræða eða veðsetningar eins og eru í þessu kerfi, er það vissulega rétt og ég tek undir það með þingmanninum að það hefði getað sett útgerðir á hliðina eins og upphaflega var áætlað að gera þetta. Langur tími í fyrningarleiðinni er möguleiki og það frumvarp sem fram kom á lokadögum þingsins var vissulega samkomulagsleið. Ekki er gengið eins langt og allir mundu vilja en það er nú einhvern veginn þannig að við þurfum að mætast á miðri leið.

Ég tek undir það að veiðigjaldið var hækkað m.a. til þess að mæta þessu sjónarmiði. Við töluðum um allt frá tíu árum og upp í — ég man ekki hvað það voru mörg ár, 50 eða 60 ár, þannig að það var langt á milli í fyrningarleiðinni hvað það varðaði, en niðurstaðan varð, minnir mig, að það voru 30 ár sem sett voru inn.

Það þarf að ríkja jafnræði í þessu kerfi, við viljum það öll. Það er enginn sem vill sjávarútveginum eitthvað illt. Við hljótum að vilja búa til kerfi sem gerir auðlindina nýtanlega en sjálfbæra, ég held að það sé niðurstaða málsins. Og auðvitað þarf það að vera þannig að fyrirtækin geti staðið undir þeim skuldbindingum sem þau hafa jú nú þegar komið sér í, en það verður líka að vera á (Forseti hringir.) þeirri forsendu að það sé eingöngu vegna sjávarútvegsmála.