142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[17:50]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek til máls í annað sinn enda hefur margt komið fram í þessari góðu umræðu í gær og í dag og ekki vanþörf á vegna þess að það eru margar hliðar á þessu máli, ekki bara fjárhagslegar fyrir ríkissjóð heldur snýst þetta líka um að auðlindarenta og sú hugmyndafræði verði almennilega innleidd hér á landi. Ég tel að sú leið sem fyrri ríkisstjórn fór, þ.e. að innleiða raunverulega auðlindarentu inn í okkar samfélag, ég hef alltaf talið að það væri líka leið til sátta um auðlindanýtingu okkar Íslendinga.

Við byggjum meira og minna allt okkar atvinnulíf á auðlindanýtingu, hvort sem litið er til orkugeirans eða ferðaþjónustunnar sem byggir starfsemi sína meira og minna á íslenskri náttúru þannig að líta má á íslensku náttúruna sem auðlind þeirrar atvinnugreinar. Svo erum við með sjávarútveginn sem hefur verið okkar, hvað skulum við segja, undirstöðuatvinnugrein um töluvert langan tíma, áratugi og aldir. Þess vegna skiptir verulega miklu máli að það sé svo að greinar sem nýta og byggja afkomu sína að svona miklu leyti til og öllu leyti til á auðlindum þjóðarinnar greiði auðlindarentu.

Fjórða atvinnugreinin sem er til í íslenskri löggjöf, þótt hún sé ekki endilega orðin að veruleika hér á landi, er síðan við leit, rannsóknir og vinnslu á olíu og gasi. Við áttum ekki í neinum vandræðum með það í þessum sal að ná saman um auðlindarentu inn í framtíðina á ófundna olíu. Hvers vegna var það? Hins vegar stöndum við hér og tökumst mjög hart á um auðlindarentu í sjávarútvegi, sem er atvinnugrein sem er stór hér á landi. Hvers vegna er það? Það er vegna þess að það eru engir hagsmunaaðilar komnir til að verja stöðu sína í olíu- og gasvinnslu. Menn náðu ágætisniðurstöðu í þeim málum, í löggjöfinni hér, og ágætissamstaða var um það í þinginu hvernig ætti að sækja auðlindarentuna út úr því, án þess þó að ég ætli að gefa mér það hér og nú að þarna muni finnast olía. Engu að síður erum við tilbúin ef svo verður til þess að sækja þangað myndarlega auðlindarentu og sanngjarna og hóflega.

Þessar deilur sem hafa staðið áratugum saman snúast ekki um, eins og hv. þingmaður sem talaði á undan mér sagði, neina vonsku í garð sjávarútvegsins. Þetta snýst ekkert um að menn vilji knésetja einhverja atvinnugrein eða orkugeirann ef því er að skipta, því að sambærileg umræða hefur farið fram gagnvart orkugeiranum. Þetta snýst ekki um það. Þetta snýst um að við sem byggjum landið finnum fyrir því að þau fyrirtæki sem nýta sameiginlegar auðlindir og eru með sérleyfi til að nýta sameiginlegar auðlindir, það er ekki eins og hver sem er komist í þetta til þess að afla sér viðurværis, greiði eðlilegt gjald fyrir afnot af þeim auðlindum. Við erum ekki að gera neinar stórkostlegar kröfur, við erum bara að óska eftir því að þessir aðilar greiði brot af umframarði sínum þegar búið er að draga frá allan rekstrarkostnað, fjármagn sem þarf til eðlilegra áframhaldandi fjárfestinga og eðlilegan arð. Við erum að tala um hluta, auðlindarentan er það sem eftir stendur þegar allt framangreint hefur verið dregið frá, sem hvert einasta fyrirtæki á Íslandi gerir í raun og veru.

Það sem eftir stendur er það sem er sannanlega til komið vegna sérleyfanna á nýtingu á auðlindum þjóðarinnar. Það er hlutdeild í því sem við erum að tala um þegar við tölum um auðlindarentu. Við erum ekki að tala um að fara og reyna að taka fé sem ella færi til þess að greiða laun sjómanna eða starfsmanna, við erum ekki að tala um það. Við erum að tala um umframarðinn.

Ég tel að ekki verði sátt um atvinnugreinina eða stöðugleiki í hennar umhverfi fyrr en menn hafa náð saman um þessi mál hér. Þess vegna er þetta mál sem ríkisstjórnin ákveður að leggja fram sem eitt af sínum allra fyrstu málum til þess að reka fleyg, enn og aftur, í málið þannig að deilurnar eiga eftir að harðna að nýju.

Það er vegna þess að hugmyndin um að auðlindarenta sé greidd af nytjastofnum sjávar er réttlætismál. Við finnum öll til þess að eðlilegt sé að menn geri það, greiði hluta af umframarði. Þetta snýst því ekkert um neina vonsku og það sem er í núgildandi lögum, ákvæðin þar um hversu hátt gjaldið á að vera verða að teljast vægast sagt mjög hófleg. Það hefur komið fram í fjölda umsagna þeirra sem hafa sent atvinnuveganefnd umsögn, m.a. frá einum helsta sérfræðingi okkar hér á landi í þeim málum, Stefáni B. Gunnlaugssyni, að sú upphæð sem menn ætla með þessu frumvarpi að setja á bolfiskinn þýði í raun og veru að menn muni ekki vera að greiða neitt gjald. Menn eru nánast að þurrka út veiðigjaldið á bolfisk. Teljum við það rétt? Er það sú leið sem við ætlum að fara?

Við segjum nei, allir stjórnarandstöðuflokkarnir á Alþingi eins og heyrst hefur í þessari umræðu. Nei segja líka 15% þeirra kosningarbæru manna sem hafa skrifað undir áskorun á Alþingi um að draga þetta frumvarp til baka, þ.e. þann hluta þess sem snýr að því að lækka veiðigjaldið. Þess vegna skil ég ekki hvers vegna menn keyra málið svona hart fram, það á að keyra það óbreytt í gegnum þingið hér og nú. Það kemur út úr nefnd algjörlega óbreytt þrátt fyrir að þeir sem eiga að framkvæma það hafi sagt að þeir þurfi enn breytingar á lögunum eins og þau eru núna til þess að geta gert þetta. Engu má breyta, það var ekki hlustað á neinn umsagnaraðila, það á bara að keyra lækkunina áfram undir því yfirskini að menn séu að gera einhverja formbreytingu sem er bara alls ekki rétt, enda kemur það fram í umsögn fjárlagaskrifstofu að um er að ræða hvorki meira né minna en lækkun á gjaldinu upp á 6,5 milljarða á ársgrundvelli. Þetta er forgangsröðun ríkisstjórnarinnar sem nú hefur tekið við.

Þegar við vorum í kosningabaráttunni gekk helst upp úr þessum flokkum að nú þyrfti engar nefndir, bara efndir og vaða átti beint í að koma til móts við skuldug heimili á Íslandi, það átti að vera fyrsta verkefnið, forgangsverkefni, eldri borgarar, öryrkjar, að mæta þeim.

Virðulegi forseti. Hvað gerist í raun og veru eftir kosningar? Þá er það orðið svo tæknilega flókið að það þarf fjöldann allan af nefndum og menn þurfa excel-skjölin sem talað hefur verið um og voru tilbúin fyrir kosningar en þau er hvergi að sjá. Nú eru nefndir úti um allt sem eiga að taka málefni fjölskyldnanna og heimilanna og skuldugra heimila í sínar hendur. En menn geta trukkað í gegn hér á mettíma lækkun á veiðigjaldi þar sem menn eru að afsala sér, afsala þjóðinni tekjum upp á 6,5 milljarða á ársgrundvelli. Þá er ekki spurt hvort það sé lagatæknilega flókið eða hvort rétt og vel sé staðið að málum. Það þarf engar nefndir í það, nei. Þetta er aðalatriði. Hér koma efndirnar, lækkun á veiðigjaldinu. Það er þar sem við sjáum forgangsröðina hjá þessari ríkisstjórn.

Ég er mjög ósátt við það vegna þess að ég taldi og hef talið að veiðigjaldaleiðin sé sú braut sem við eigum að fara inn á til þess að tryggja réttláta skiptingu auðlindarentunnar, vegna þess að fram að þessu hefur öll auðlindarentan farið til fyrirtækjanna sjálfra. Það er eðlilegt og það er eðlilegt meira og minna úti um allan heim og sýnt hefur verið fram á það í þeim umsögnum sem liggja fyrir í málinu að hlutur ríkisins, þ.e. sameiginlegra sjóða, sé stærri en hlutur fyrirtækjanna í auðlindarentunni.

Við erum ekki einu sinni að tala um það hér, við erum ekki einu sinni að biðja um það, stjórnarandstaðan, við erum einungis að tala um hóflegan hluta af auðlindarentunni, en samt á að lækka það, sem þýðir að við erum að fara aftur inn í sýndarmennsku þegar kemur að veiðigjöldum. Menn segja glaðbeittir: Jú, jú, hér eru veiðigjöld og við innleiddum þau, eins og ég hef heyrt þingmenn Sjálfstæðisflokksins segja. En í raun og sann eru þau til á pappír en tölurnar sýna okkur ekkert, þ.e. sýna okkur að þetta er eingöngu sýndarmennska.

Virðulegi forseti. Ég kom inn á það áðan að mér finnst undarlegt hver forgangsröðun ríkisstjórnarinnar er sem birtist í þessu máli þegar kemur til dæmis að umfjöllun um ríkisfjármálin. Nýlega kemur hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fram og segir að ekki sé hægt að koma til móts við skuldug heimili með lánsveð út frá samkomulagi sem fráfarandi ríkisstjórn gerði við skuldug heimili vegna þess að ekki sé búið að fjármagna það samkomulag. Heyr á endemi. Það var einfaldlega þannig að samkomulagið gæti verið upp á 2–3 milljarða sem ríkið fengi að láni til þriggja ára frá lífeyrissjóðunum á hagstæðum kjörum og gæti þannig greitt til baka.

Virðulegi forseti. Það mál er pínulítil hneta í stórri skál miðað við upphæðirnar hérna. En það er ekki hægt, það er ófjármagnað. Hvað er þetta? Eru 3,5 milljarðarnir hér fjármagnaðir sem menn ætla að afsala sér bara svona, [Þingmaður smellir fingrum.] keyra og trukka í gegnum þingið? Nei, þeir eru það ekki. Það getur því ekki annað verið, og það er ekkert skrýtið þó að við drögum það fram, að ríkisstjórnin sé hér að sýna sitt rétta andlit. Það skiptir engu máli hvað þetta kostar, en það skiptir öllu máli hvað sá hópur, hver kostnaðurinn er við að koma til móts við þau skuldugu heimili sem hafa hingað til setið eftir og ekki fengið eina einustu krónu í niðurfærslu, þá spyrja menn um verðmiðann. En þetta skiptir engu máli, við ætlum bara að gera það, af því að í þeirra huga er réttlæti að lækka veiðigjaldið. Það er þar sem skilur á milli okkar í Samfylkingunni og þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr.

Virðulegi forseti. Við höfum rætt þessi mál, auðlindarentumálin hafa verið til umfjöllunar aftur og aftur. Það hafa verið skipaðar þó nokkuð oft — og það er eðlilegt að þjóð eins og við Íslendingar séum með alvörustefnumörkun og okkar heildstæðu sýn á nýtingu auðlinda okkar. Það er eðlilegt og við eigum að gera það en við höfum ekki náð því hingað til. Á síðasta kjörtímabili settum við því mikla vinnu í að marka stefnu, heildstæða stefnu í auðlindamálum, lögðum af stað í þann leiðangur og ég vona að ný ríkisstjórn beri gæfu til að halda þeirri vinnu áfram af því að það er ekki áhlaupsverk, það er langtímaverkefni.

Ég vil nefna skýrslu sem var skilað til forsætisráðherra af auðlindastefnunefnd í september 2012 og hvet þingmenn og aðra áhugasama til að kynna sér skýrsluna, hún er á vef forsætisráðuneytisins. Þar er meðal annars fjallað um nytjastofna sjávar og mig langar að fara aðeins yfir það sem er sagt þar vegna þess að þar er komið inn á þær deilur sem hafa verið lengi um nýtingu sjávarstofnanna.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Allt frá því ríkið takmarkaði nýtingu þessarar auðlindar við handhafa sérleyfa til að nýta tiltekið hlutfall leyfilegs hámarksafla úr hverri tegund, hefur fyrirkomulagið verið afar umdeilt […] Deilurnar hafa ekki snúist mikið um aðgangstakmarkanirnar sem slíkar (kvótann), enda nokkuð almenn sátt um að tryggja verði að sjávarútvegurinn sé sjálfbær með tilliti til umgengni um nytjastofna. Fyrirkomulagið hefur einnig tryggt nokkuð vel tækifæri greinarinnar til hagræðingar og ásættanlegrar arðsemi, enda þarf sjávarútvegur að vera sjálfbær með tilliti til efnahagslegra forsendna. En þegar kemur að hinni samfélagslegu vídd sjálfbærrar þróunar hafa frá upphafi staðið deilur sem einkum snúast um tvennt:

Í fyrsta lagi hefur því verið haldið fram að handhafar upphaflegra sérleyfa séu í allt annarri og betri stöðu en þeir sem á eftir koma.

Í öðru lagi og tengt fyrra atriðinu er sú staða að ekki hefur með virkum hætti verið reynt að meta eða finna skilaleið fyrir þá auðlindarentu eða umframarð sem sérleyfi til nýtingar skapa handhöfum. Virkur eftirmarkaður hefur verið með sérleyfi til nýtingar sjávarútvegsauðlindarinnar og verð þeirra verið langt umfram það veiðigjald sem innheimt hefur verið af hálfu ríkisins við úthlutun. Slíkt skapar aðstæður þar sem handhafar sérleyfanna, en ekki eigandi auðlindarinnar, geta ráðstafað auðlindaarðinum eða innheimt hann með framsali sérleyfa á eftirmarkaði. Slík fénýting eða dæmi um innheimtu einkaaðila á auðlindarentu vegna sérleyfa til nýtingar hefur verið mörgum þyrnir í augum.“

Þarna er rammað mjög vel inn það sem um er að ræða og í kjarnann um hvað deilurnar snúast. Það er nefnilega þannig að við hér á hinu háa Alþingi eigum líka að horfa til hinnar samfélagslegu víddar. Það er skylda okkar og það er þarna sem fólki svíður, það er undan því. Til að koma til móts við þau sjónarmið setja menn veiðigjald á umframarðinn, ekkert annað, ekki reksturinn, enginn aukaskattur, það er ekkert um það að ræða hér, og þó að andstæðingar veiðigjaldsins tali þannig er það beinlínis rangt hjá þeim. Þetta snýst ekki um það og er ekki það sem vakir fyrir þeirri sem hér stendur eða öðrum þeim sem hafa stutt veiðigjald, alls ekki, vegna þess að við viljum sterkan sjávarútveg. Við viljum hafa áfram öflugan atvinnuveg eins og sjávarútveginn, en sjávarútvegurinn, eins og orkugeirinn og hugsanlega einhvern tíma olíu- og gasgeirinn, á að greiða eðlilega auðlindarentu, það er krafan. Hún er ekkert flókin, mér finnst hún heldur ekkert frekjuleg, bara eðlileg.

Virðulegi forseti. Í ágætri grein sem Gauti B. Eggertsson skrifaði og er að finna á Eyjunni fjallar hann einmitt um þetta og segir að honum sýnist að oft sé miðað við í svokölluðu, eins og hann kallar það, „production sharing agreements“ að 80% þeirrar rentu sem ég hef verið að tala um, og þá er hann að tala um annars staðar en hér á landi, þ.e. erlendis, þar sem um þetta er að ræða, gangi til ríkisins og 20% til fyrirtækisins sem fær réttinn. Hann segir að oftast sé um olíu að ræða. Í íslensku löggjöfinni virðist þetta heldur hóflegra, „því að mér sýnist að þar sé gert ráð fyrir að útgerðin fái í kringum 40 prósent í sinn hlut“.

Annar fræðimaður sem skilaði okkur umsögn, Jón Steinsson, fer ágætlega yfir það í umsögn sinni að verði þetta frumvarp að lögum, þ.e. miðað við hans mat, geri frumvarpið ráð fyrir að útgerðin greiði einungis tæplega 18% af auðlindaarðinum í sjávarútvegi í veiðigjald en haldi sjálf eftir ríflega 82% arðsins. Þarna erum við ekki að tala um eðlilegan arð eins og hjá öllum öðrum fyrirtækjum, við erum að tala um arðinn sem eftir stendur þegar búið er að taka annan arð, almennan arð frá og allan rekstrarkostnað, alla eðlilega fjárfestingarfjármuni o.s.frv.

Virðulegi forseti. Ég er ósátt við það hvernig menn eru núna og þessi ríkisstjórn ákveður — ég held að þetta hljóti að vera einhvers konar fljótfærni, að hugurinn og sigurvíman eftir kosningaúrslitin hafi kannski borið þá fullgeyst inn í þetta mál. Það var ákveðið að fara helst í þau mál sem voru hvað stærstu breytingarmálin sem fráfarandi ríkisstjórn skildi eftir sig og menn ætla að fara í að þurrka þau sem mest út til þess að núlla stöðuna, koma gamla jafnvæginu á, jafnvæginu þar sem helmingaskiptaflokkarnir, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur, höfðu þetta allt í hendi sér, skiptu milli sín samfélaginu. Menn eru að flýta sér svo mikið þangað aftur að þeir gleyma að samfélagið sjálft hér á Íslandi kallar eftir þessari auðlindarentu algjörlega óháð pólitík. Það sést á því hversu margir styðja að veiðileyfagjaldið standi óhaggað.