142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[18:13]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Staðan er einfaldlega þessi: Ríkissjóður og ríkisfjármálin eru í járnum. Það gekk gríðarlega vel á síðasta kjörtímabili að minnka gatið, rétta hallann, en því verki er ekki lokið og má segja, miðað við það sem við stóðum frammi fyrir fyrir fjórum árum, að nú vanti herslumuninn upp á. Það þýðir að menn þurfa að fara mjög varlega og það má ekki „gambla“ með nokkurn einasta hlut. Það er það sem menn eru að gera hér, menn taka ofboðslega áhættu hvað varðar ríkissjóð og ekki bara í þessu máli. Hér erum við með 3,5 milljarða á þessu ári. Síðan erum við með hálfan milljarð í virðisaukaskatti á ferðaþjónustu sem hefur verið lækkaður. Svo erum við líka með útgjaldafrumvörp af hálfu ríkisstjórnarinnar sem hafa verið að koma inn. Mér telst því til að við séum komin upp í 6–7 milljarða að minnsta kosti sem taka á út, bara á þessu þingi, í beinhörðum peningum á þessu ári, þar sem ekki koma tekjur á móti.

Það eru töluverðir peningar. Það hefur náttúrlega áhrif síðan inn á næsta ár vegna þess að menn afsala sér þarna tekjum fram í tímann. Hvaða leiðir fara menn þá? Þeir ætla að fara greinilega þá leið sem boðuð hefur verið hér og eins og boðuð hefur verið, að fara í 1,5% flatan niðurskurð. Það er það sem mér heyrist menn ætla að gera.

En hvað þýðir 1,5% flatur niðurskurður? Það þýðir að farið verður í stofnanir, í velferðarþjónustu, í heilbrigðiskerfi, í menntakerfi, sem nú þegar eru skornar algerlega inn að beini og þola ekki meir. Það getur því skilið eftir sig skaða hjá þessum stofnunum, í velferðarkerfinu og menntakerfinu, sem verður erfitt að laga. Ég hef áhyggjur af því vegna þess að þeir hafa ekki sýnt vilja til þess að hafa „kalt höfuð“ til að forgangsraða innan samfélags okkar.