142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[18:15]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að hv. þm. Katrín Júlíusdóttir hafi rétt fyrir sér hvað þetta snertir. Það er alla vega alveg ljóst, eins og hún rakti í svari sínu, að bara með ráðstöfun á þessu sumarþingi er verið að búa til viðbótargat í rekstri ríkissjóðs upp á 6–7 milljarða og þá væntanlega enn þá meira á næsta ári. Er ekki alveg ljóst þó að við séum einungis að tala um þetta ár og næsta að ef þetta stendur, þær ráðstafanir sem er verið að grípa til hafa þær auðvitað áframhaldandi áhrif inn í framtíðina þannig að uppreiknað yfir einhvern tíma, t.d. eitt kjörtímabil eða lengri tíma, er um umtalsverðar fjárhæðir að tefla? Mér finnst að ríkisstjórnin hafi alls ekki svarað því í gögnum málsins, ekki kostnaðarmatinu, hvernig á að mæta áhrifunum af þessu frumvarpi alveg sérstaklega.

Ég mundi líka vilja spyrja þingmanninn hvernig hún lítur á þá forgangsröðun sem birtist hér, að koma inn með mál eins og þetta sem við erum með til umfjöllunar og fleiri þar sem verið er að létta byrðum af tilteknum hópum samfélagsins. Deilir hún þeirri sýn að það sé dæmigerð hægristjórnarpólitík að færa til fjármuni í samfélaginu til þeirra sem eru þrátt fyrir allt aflögufærir og geta lagt inn í samneysluna og frá hinum sem eru lakar settir? Þetta birtist mér þannig í hverju málinu á fætur öðru, að það sé nákvæmlega það sem er verið að gera og sé (Forseti hringir.) þess vegna mjög skýr og dæmigerð hægristjórnarpólitík.