142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[18:17]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svar mitt er já. Þessi ríkisstjórn, ég kom aðeins inn á það í ræðu minni, er að opinbera sig sem mjög hrein hægri stjórn. Það er allt í lagi, svona er lýðræðið og 51% þjóðarinnar kaus þessa flokka. Þeir hafa svo sem aldrei sýnt okkur neitt annað þegar þeir hafa starfað saman en að þeir séu hægri flokkar í samstarfi.

Það sést mjög vel á þeim málum sem hafa komið hingað inn. Tökum sem dæmi málið um almannatryggingar, þar er þetta algjörlega skýrt. Ég óskaði eftir því í nefndinni að fá að sjá nákvæmlega í töflu hver áhrifin yrðu á ólíka tekjuhópa og þar er þetta algjörlega skýrt, það eru bara þeir allra hæstu sem fá eitthvað og jafnvel eru nýir hópar sem hafa áður haft of háar tekjur til að vera inni í almannatryggingakerfinu að koma inn í það. Þetta sýnir það algjörlega skýrt. Ég er ekkert að segja að það fólk sé endilega ofsælt af tekjum sínum, en það er engu að síður þannig að það eru stórir hópar þarna úti, og miklu stærri hópar, sem hafa miklu, miklu minna.

Rökin fyrir því af hálfu hægri stjórnarinnar eru þau að horfa þurfi til þeirra hópa fyrst sem hæstar hafa tekjurnar vegna þess að vinstri stjórnin varði lægstu tekjurnar og þá sem eru með örorku. Gott og vel, en þetta er forgangsröðin og hún er alveg grímulaus. Það sjáum við líka í þessu máli. Þeim finnst sjálfsagt að segja við þá hópa sem eru með lánsveð: Nei, af því að fyrri ríkisstjórn var ekki búin að fjármagna hvernig ætti að koma til móts við ykkur þá getur þetta ekki orðið. En svo koma veiðigjöldin hins vegar og þá er ekkert spurt um neinn verðmiða.

Virðulegi forseti. Ég ætla líka að nefna eitt hér sem ég hef pínulitlar áhyggjur af og það er, út af fyrra andsvari mínu: Ég hef áhyggjur af því að þessi ríkisstjórn ætli að grípa til þess í nafni einföldunar á skattkerfinu að fara að hækka 7% þrepið sem þýðir hækkun á matarskattinum svokallaða. Ég hef áhyggjur af því að menn ætli að fara þá leið þegar kemur að (Forseti hringir.) skattinum þannig að vaskurinn verði hækkaður á matvæli hér á landi. Ég vona þó að svo verði ekki.