142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[20:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta hefur að mörgu leyti verið áhugaverð umræða sem hefur átt sér stað um hið svokallaða veiðigjaldafrumvarp. Að mörgu leyti hefur umræðan þó verið dæmigerð fyrir umræðu um sjávarútvegsmál almennt, sem að mínu viti er kannski það alvarlegasta við vandamál sjávarútvegsins og okkar þegar kemur að þeim mikla málaflokki, það er hvernig við þurfum að haga umræðunni, hversu ómálefnaleg hún er og hvernig vísvitandi, eða af þekkingarleysi, rangfærslum er haldið fram. Ég kom inn á í ræðu minni um málið þegar það var rætt við 1. umr. að við alþingismenn yrðum að breyta svolítið um umræðuhefð og nálgun okkar á að reyna að ná almennri sátt um þennan mikilvæga málaflokk. Ég held mig enn við það. Ég held að það sé fátt mikilvægara en að við sameinumst um það.

Okkur getur greint á um ýmis atriði málefnalega og margar ágætar röksemdafærslur hafa farið fram í þessari umræðu þar sem menn greinir hreinlega á um hvernig skuli haldið á málum. En að við skulum þurfa að sitja undir því, þingmenn, að vera vændir um að vera að gæta hagsmuna einhverra sérstakra aðila, að verið sé að tortryggja nefndarstörf hv. atvinnuveganefndar, verið að gefa í skyn að ekki séu haldnir opnir fundir vegna þess að menn hafi eitthvað að fela og séu handbendi einhverra sem eiga aflaheimildir í landinu, við skulum reyna að koma okkur út úr því fari í umræðunni.

Við skulum reyna að taka þetta málefnalega vegna þess að það hlýtur að vera sameiginlegt markmið okkar allra á þessu kjörtímabili að leiða þennan ágreining í jörð. Þetta eru flókin mál. Þau eru það í eðli sínu. Það er ekki hægt að ætlast til þess að almenningur í landinu sé til dæmis mjög vel inni í öllum þeim fjölmörgu þáttum sem koma að sjávarútvegsmálum. Best er kannski að vitna í því sambandi til þess ágæta fólks, þeirra hv. þingmanna, sem hafa verið að taka sæti á Alþingi í fyrsta skipti á þessu vori og sitja í hv. atvinnuveganefnd. Þar er fólk sem hefur ekki verið sérstaklega inni í sjávarútvegi, en er samt búið að sitja núna um 18 fundi sem nefndin hefur haldið um þetta mál og önnur og það á fullt í fangi með að átta sig á heildarmyndinni og segir sjálft að það sé engan veginn búið að ná landi í því að ná utan um þennan stóra málaflokk. Hvernig á þá almenningur að geta áttað sig á þessu á meðan fjölmiðlar fjalla um það eins og raun ber vitni þar sem aðalumræðuefnið í málinu núna, alla vega hjá ákveðnum fréttastofum, hefur verið undirskriftasöfnun og skoðanakönnun?

Ég áréttaði þetta við einn fréttamanninn sem hringdi í mig einmitt út af þeim atriðum. Ég sagði við hann: Geturðu nefnt mér eina frétt sem þú hefur flutt um málið efnislega, um hvað það fjallar, til að skýra það út fyrir þjóðinni? Nei, hann taldi þó að fréttastofan hefði gert það í byrjun í einhverri útfærslu. En dag eftir dag, fréttatíma eftir fréttatíma, var fyrsta frétt sú að undirskriftasöfnun væri í gangi. Um hvað fjallaði sú undirskriftasöfnun og hvernig getum við farið eftir henni, þeirri beiðni til Alþingis um að samþykkja ekki þessar breytingar á lögunum? Hvað vill fólk að við samþykkjum? Óbreytt lög? Eða hærra veiðigjald? Það kemur ekkert fram. Svo á forsetinn mögulega að taka þetta til umfjöllunar og einhverjir vilja að hann sendi það í þjóðaratkvæðagreiðslu. Og hvað þá? Samkvæmt lögum verður að halda þjóðaratkvæðagreiðslu innan ákveðins tíma, það eru ákveðin tímamörk á því. Það verður væntanlega komið fram á haust þegar við gætum raunhæft séð sett hana í gang, alla vega vel á seinni part sumars. Hvað ef þessi lög yrðu felld úr gildi? Þá er álagning sérstaks veiðigjalds út úr myndinni. Er það það sem þjóðin vill? Nei, alveg örugglega ekki og ekkert okkar.

Það vantar alveg að menn komi sér upp úr þessu fari. Ég frábið mér að umræðan verði eins og hún hefur verið hjá sumum hv. þingmönnum, eins og raun ber vitni, þar sem verið er að reyna að sá fræjum tortryggni gagnvart okkur sem störfum í hv. atvinnuveganefnd. Það getur ekki verið að við viljum hafa það þannig.

Ég fékk beiðni sem formaður nefndarinnar um að halda alla fundi nefndarinnar opna. Ég benti viðkomandi hv. þingmanni á að um það giltu ákveðnar reglur. Hvernig væri það ef við færum að halda alla fundi, nefndarfundi, opna? Er það það sem hv. þingmenn vilja? Nei, alveg örugglega ekki. Þetta er allt sett fram í einhverri sýndarmennsku, allt til að reyna að slá einhverjar pólitískar keilur.

Svo hefur verið komið fram með það að ákveðnir hv. þingmenn í nefndinni hafi svo mikilla hagsmuna að gæta að þeir séu ófærir um að fjalla um málið. Hvert erum við komin ef við ætlum að fara að meta hæfi þingmanna í hverju einasta máli til að fjalla um það? Hvernig mun því til dæmis komið við þegar fjallað er um skuldamál heimila? Verður þá ekki að fara að leggja á borðið allar upplýsingar um skuldamál okkar þingmanna, ekki bara eignatengsl og slíkt sem við gerum grein fyrir núna og tengsl okkar við möguleg fyrirtæki eða hvað við eigum eða félagasamtök? Menn verða aðeins að hugsa áður en þeir varpa.

Það lá alveg fyrir þegar þessi ríkisstjórn tók til starfa í hvaða vegferð hún færi í veiðigjaldamálum. Það lá alveg fyrir í stefnuskrá beggja þessara flokka og fór ekki dult í umræðunni fyrir kosningar að við ætluðum okkur að lækka veiðigjöld vegna þess að við teljum þau hafa verið of há, a.m.k. á flestöll fyrirtæki í greininni.

Það blasir við hverjum sem vill skoða þetta faglega að það var vitlaust gefið. Af hverju var það? Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi það fyrr í umræðunni í dag að þessu hefði verið breytt í meðförum þingsins, þ.e. að það hefði verið lækkað á uppsjávarfyrirtækin. Af hverju var það gert? Af hverju var það gert þegar það mátti blasa við? Afleiðingarnar eru auðvitað augljósar þegar við skoðum það sem er áhugaverður listi þótt í sjálfu sér sé það enginn mælikvarði að skoða álagið eftir kjördæmum í landinu, hvernig skatthlutfall af EBIDTU kom niður eftir kjördæmum í landinu.

Þannig var til dæmis gamla skatthlutfallið í Norðvesturkjördæmi um 27%, en færi niður í 16,7 samkvæmt þessu frumvarpi. Það var í Norðausturkjördæmi 16,5 á móti tæpum 27, færi þar niður í 14,6. Í Suðvesturkjördæmi var það 27,5%, fer niður í 15,8. Í Suðurkjördæmi var það 19,6 og fer niður í 16,7. Í Reykjavík var það 24,1% og fer niður í 17,3. Við erum sem sagt með um 15–17% álag eftir þetta sem áður var um 16%–27%.

Hlýtur það ekki að vera markmið okkar þingmanna að hvar sem menn eru í sveit settir og í hvaða útgerðarhólfum sem þeir eru ríki einhver jöfnuður í álagningu? Það var augljóslega vitlaust gefið. Við teygjum okkur í það að reyna að jafna þetta álag.

Þetta er auðvitað ákveðinn plástursaðgerð sem er í gangi hér. Það átta sig allir á því. Það fylgja því þær upplýsingar og þær yfirlýsingar okkar að á komandi hausti munum við leggja fram ný frumvörp um fiskveiðistjórnarkerfið. Það verkefni sem síðasta ríkisstjórn með öllum sínum stóru fyrirheitum hafði fjögur ár til að framkvæma. Fjögur ár. Og hverju skyldi hafa verið um að kenna að ekki tókst betur til en raun ber vitni? Það er nefnilega þannig, að mínu mati, að hjá fjölmörgum þingmönnum fyrrverandi ríkisstjórnarflokka voru mjög óraunhæfar hugmyndir á ferðinni. Það sýndi sig náttúrlega best í þeim umsögnum og þeirri umræðu sem varð um þær tillögur sem komu fram hér um fiskveiðistjórnarmálin. Menn komust ekkert áfram með þetta. Ástæðan var fyrst og fremst sú að það var svo mikill ágreiningur innan þessara flokka, milli þeirra og innan þeirra, það hafði ekkert með það að gera þótt við stæðum í lappirnar í stjórnarandstöðunni á þeim tíma. Auðvitað sáum við vitleysuna og vorum ekki tilbúin til að taka þátt í henni, en fyrst og fremst var það ágreiningurinn innan dyra hjá þeim.

Það var að mörgu leyti mjög fróðlegt að hlusta í gærkvöldi á ræðu hv. þm., formanns Samfylkingarinnar, Árna Páls Árnasonar, hvernig hann fór yfir það hvernig hann vildi sjá fiskveiðistjórnarkerfið í framtíðinni: Með opnu framsali, láta markaðinn ráða verði, veiðigjöldin ættu að taka mið af markaðsvirði aflaheimilda. Það var ekki minnst einu orði á einhverja fyrningarleið þótt hún hafi komið aðeins til umræðu í dag hjá fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra, Össuri Skarphéðinssyni, sem vildi fara að bursta rykið af þeirri leið. Þá var hann algerlega ósamstiga formanni sínum frá því í ræðu hans í gærkvöldi. Það er dæmigert, dæmigert fyrir það hvernig hefur verið haldið á þessum málum.

Ég sagði við hv. þm. Árna Pál Árnason í dag að það hefði verið gaman að hlusta á þessu ræðu hans og spurði hann hvort hann teldi ekki að við værum alveg á réttri leið í þessu frumvarpi, að lækka veiðigjöldin, vegna þess að hann taldi að markaðurinn, að verð á aflaheimildum á markaði, ætti að ráða ferð. Er það ekki þannig í dag að það eru allar aflaheimildir á markaði? Það er allt til sölu. Menn mega selja og menn mega kaupa aflaheimildir. Hvernig hefur verðþróunin verið á þeim markaði? Þær hafa aldrei verið lægri, alla vega í fjöldamörg ár, en þær eru í dag, fóru í þorskinum niður í um 1.400 kr. fyrir kílóið fyrr í vetur, það hefur aðeins lyft sér aftur núna, voru á sama tíma í fyrra 1.800– 2.000 kr. Er þá ekki einmitt ástæða til þess að lækka gjöldin ef markaðurinn á að endurspegla þetta?

Minni hlutinn í hv. atvinnuveganefnd hefur lagt fram breytingartillögu við þetta mál sem hér hefur verið rætt um að sé mikilvæg og í raun mjög góð bót á þessu máli. Þetta hefur svo sem verið skoðað og stenst ekki skoðun frekar en svo margt annað sem hefur verið sett fram. Því hefur verið haldið fram í þessari umræðu að ekkert sé einfaldara en að smella fingrum og veiðigjaldsnefndin fái þau gögn sem hún þarf að vinna með og hægt sé að klára málið. Samt sem áður vitum við að strax við setningu laganna í júní 2012 gerði Hagstofan athugasemdir við málið, það miklar að gerðar voru breytingar á lögunum hér áður en þau voru afgreidd í þinginu þar sem sett voru inn ákvæði um að þær skyldur sem var verið að leggja á herðar Hagstofunni yrðu ekki umfram þau lög sem um hana gilda. Þeir töldu sem sagt að frumvarpið eins og það lá fyrir gengi það langt að brotin yrðu lög sem gilda um Hagstofuna og brotnir yrðu þeir samningar og þau lög sem við höfum undirgengist á alþjóðavettvangi varðandi Hagstofuna. Þessu var því breytt strax í júní 2012 við setningu laganna.

Þá strax hafa menn í ráðuneytinu og víðar auðvitað gert sér grein fyrir því að málið var kannski flóknara en það sýndist. Þetta hefur síðan verið allan síðasta vetur til umræðu og úrlausnar í ráðuneytinu. Það endaði með því að settur var á laggirnar svokallaður tæknihópur þegar komið var fram í mars. Sá tæknihópur, sem var skipaður fulltrúum frá ráðuneytinu, Hagstofunni, Fiskistofu og ríkisskattstjóra, fór yfir þetta mál en náði ekki að leysa það þannig að þáverandi hæstv. atvinnuvegaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, gæti bara komið með lausn á þessu inn í þingið svo að veiðigjaldsnefndin fengi þau gögn sem hún þurfti til þess að sinna skyldum sínum samkvæmt lögum. Það gekk ekki.

Nú er talað um að núverandi stjórnvöld sem eru að koma að málinu eftir þetta eigi bara að smella fingrum og gera þetta og lögð er fram breytingartillaga sem gengur ekki upp. 1. liður í breytingartillögu minni hlutans gengur ekki upp. Hagstofa Íslands er tölfræðistofnun en ekki skattstofa og það er grundvallaratriði, það verða stjórnvöld að virða segir í bréfi sem ég hef í höndum, með leyfi virðulegs forseta:

„Lögin um Hagstofu Íslands gera ekki ráð fyrir því að hún taki þátt í álagningu skatta enda ekki um tölfræðigerð að ræða. Hagstofan telur því að þátttaka í álagningu veiðigjalds stríði gegn þeim lögum sem um starfsemina gilda, gegn lögum sem gilda um evrópska hagsýslugerð, gegn verklagsreglum um evrópska hagsýslugerð og samþykktum Sameinuðu þjóðanna um opinbera hagsýslugerð.“

Þetta er staðan og það vita hv. þingmenn úr atvinnuveganefnd vegna þess að það kom skýrt og greinilega fram hjá fulltrúum Hagstofunnar þegar þeir mættu til okkar. Við værum að brjóta alþjóðasamninga og alþjóðalög sem við höfum undirgengist. Málið er flóknara en það sýnist, enda hefði verið búið að leysa það ef það væri svona einfalt.

Við höfum í meðförum nefndarinnar reynt, og það er auðvitað það sem kemur upphaflega frá ráðuneytinu og frá hæstv. ráðherra, atvinnuvegaráðherra, að nálgast það að sníða þá vankanta sem eru augljóslega á núgildandi lögum. Við erum að plástra málið til eins árs, reyna að laga það til þannig að hér megi vera meiri sátt um málið heldur en verið hefur, að það komi jafnar niður á útgerðarformum. Það er augljóst að við erum að ná miklu meiri jöfnuði í þessari álagningu milli uppsjávar- og bolfisksfyrirtækja.

Það hafa verið nefndar leiðir, að það mætti gera þetta með öðrum hætti, t.d. með því að hækka enn frekar gólfið, afsláttargólfið. Það er alltaf spurning hversu langt á að ganga í þeim efnum, hversu langt á að ganga í að hafa ákveðið frítekjumark. Á ekki að vera einhver hvati hjá fyrirtækjum til þess að efla starfsemi sína, stækka, hagræða? Út á það hefur þetta gengið hjá okkur í öll þessi ár, að menn hafi náð ákveðinni hagræðingu. Við erum nýbúin í nokkuð víðtækri sátt í atvinnuveganefnd og í þinginu að afgreiða lög um stækkun á þeim bátum sem eru í krókaaflamarkskerfinu af því að við teljum að það muni styðja við það útgerðarform, þeir nái að þróa sig, haldast í samkeppninni við önnur útgerðarform, útgerðirnar nái að eflast byggðunum til heilla.

Þessu er nákvæmlega eins farið. Ef við hækkum gólfið svona mikið förum við að draga úr, taka frá ákveðinn hvata til þess að byggja sig upp, ganga lengra sem ég held að sé mjög mikilvægt. Ef við höldum honum ekki lifandi fer þessu að hnigna hjá okkur.

Þá hefur verið bent á að stóru fyrirtækin í bolfisksveiðum hagnist mikið á þessu, þau séu að fá svo stóran tékka í þessu. Staðreyndin er sú að það er bara verið að jafna álögurnar á þau í samanburði við stóru fyrirtækin, stærstu útgerðarfyrirtæki landsins sem hæstv. ríkisstjórn ákvað að hygla, fyrrverandi ríkisstjórn, sem meirihlutaflokkarnir á síðasta kjörtímabili ákváðu að hygla alveg sérstaklega, hvort sem það var óviljandi eða viljandi. Ég ætla ekki að dæma um það.

Það er bara staðan. Það er verið að rétta hlut þeirra. Við erum með öðrum orðum að auka álögur á stærstu fyrirtækin í landinu og við erum að draga úr álögum á lítil og meðalstór fyrirtæki víðast hvar, sem eru oftast burðarásar í sínum samfélögum.

Ég hef fengið mikið af gagnrýni undanfarna daga frá fulltrúum þeirra sveitarfélaga þar sem uppsjávarfyrirtækin eru hvað sterkust, Vestmannaeyjum og fyrir austan. Það hefur verið bent á að verið sé að taka mikið fjármagn út úr þessum sveitarfélögum. Vissulega er skattheimtan þannig, hvernig sem henni er hagað, að hún tekur fjármagn til ríkisins frá fólkinu sem og fyrirtækjunum sem starfa þar og fólkinu sem býr í þessum sveitarfélögum.

Ég er alveg viss um að mörg sveitarfélög víða á landinu væru tilbúin til að taka við atvinnustarfseminni sem er á þessum stöðum þótt það þyrfti að greiða þessi gjöld og fá allt annað sem fylgir. Það verður auðvitað þannig að þar sem sjávarútvegur er öflugastur, þar sem stærstu fyrirtækin starfa þar verður hæsta hlutfallið greitt. Þannig er það í þessu eins og það liggur fyrir hjá okkur núna að ef við tökum uppsjávarfyrirtækin í Vestmannaeyjum, Hornafirði og í Fjarðabyggð og leggjum við það Samherja og Granda erum við sennilega að tala um fyrirtæki sem greiða upp undir 75% af öllu veiðileyfagjaldi í landinu. Hvað eru þetta, 10 fyrirtæki?

Hvað segir það okkur? Það segir okkur það sem hefur verið nokkuð vitnað til í þessari umræðu og var gert að fyrstu frétt í Ríkisútvarpinu held ég, fjölmiðli allra landsmanna, að Jón Steinsson hagfræðingur, starfandi í Bandaríkjunum, hélt því fram að við gætum hækkað veiðileyfagjaldið í 50 milljarða af sjávarútveginum, það væri ekkert mál og við gætum notað það til þess að lækka aðra skatta á aðrar greinar og á almenning í landinu til að auka umsvif. Ég er Jóni sammála.

Ég held að við getum hækkað veiðileyfagjaldið og hirt út úr sjávarútveginum í formi aukinnar skattheimtu viðbótarskatt, upp undir 50 milljarða, 40–50 milljarða. En þá verðum við líka bara með 12 sjávarútvegsfyrirtæki í landinu. Það er ekkert flókið. Þá verðum við með þessar stóru hagkvæmu einingar og hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar eru stöðugt að væna okkur um að vera að draga taum þeirra og gagnrýna okkur síðan mest núna, þessi fyrirtæki. Þetta væri hægt með því að fara þá leið. Er það það sem við viljum? Nei, við höfum nefnilega, og megum ekki gleyma því í þessari umræðu, náð þeim árangri að vera með í senn kerfi sem tekur mikið tillit til fjölbreytni í útgerðarformum, öflugt smábátaútgerðarkerfi sem hefur verið að eflast mikið, gerði það kannski sérstaklega í stjórnartíð framsóknarmanna og sjálfstæðismanna þar sem var fært mikið magn af aflaheimildum frá stóru fyrirtækjunum, stórútgerðunum yfir í þetta smábátakerfi. Við höfum kerfi sem tekur mjög tillit til félagslegra þátta, byggðasjónarmiða, mjög mikið. Við erum öll sammála um að við viljum hafa þann þátt öflugan.

Ekkert okkar vill fara leið Jóns Steinssonar. En það hentar kannski einhverjum í pólitískri umræðu og slíku að slá um sig með svona tölum án þess að það fylgi því hvað um er að ræða. Því verðum við að fara að breyta, virðulegi forseti. Við verðum að fara að breyta því.

Í nefndarstörfunum reyndum við að mæta kröfum minnihlutamanna um það sem þeir óskuðu eftir, bæði í heimsóknum og skýrslugerð sem og öðru, sem var vissulega breyting frá þeirri meðhöndlun sem við fengum hjá hv. sömu þingmönnum í þeirri nefnd núna á vordögum þegar var verið að fjalla um fiskveiðistjórnarfrumvarpið þar. Mér fannst þetta sjálfsagt og það er eðlilegt. Þetta er málefni sem við eigum að reyna að gefa okkur tíma til að vinna að, en við erum auðvitað í ákveðinni tímaþröng á sumarþingi. Það ber að viðurkenna. Það er bara þannig. Þess vegna verðum við auðvitað að reyna að hraða vinnu.

Ég er þakklátur nefndarmönnum í atvinnuveganefnd fyrir það hvað þeir hafa tekið vel í að leggja á sig mikla vinnu og mæta á fundi utan reglulegs fundartíma nefndarinnar. Það hefur ekki verið skortur á því hjá nefndarmönnum að mæta þótt það sé í hádegishléum eða fyrr á morgnana eða vera eitthvað lengur fram eftir ef þurft hefur á að halda.

Við fengum skýrslu frá Stefáni B. Gunnlaugssyni sem áður hefur fjallað um þetta mál. Hann vann ásamt Daða Má Kristóferssyni mikla skýrslu fyrir okkur á síðasta kjörtímabili um þessi fiskveiðistjórnarmál sem þeir gagnrýndu mjög á þeim tíma. Það var ekki alveg samræmi í umfjölluninni núna hjá Stefáni miðað við það sem kom fram í skýrslu þeirra. Ég spurði hann að því á fundi nefndarinnar hverju sætti. Hann sagði að þá hefðu þeir verið tveir en hann væri einn núna og gerði hann lítið úr því. Grundvallaratriðið, ef við tökum það saman í örfáar línur eða örfá orð sem hann hafði um þetta að segja þá telur hann að við séum komin ansi langt í álagningu á uppsjávarfiskinn. Þótt hann segi vissulega að þau muni ráða við þetta vegna góðrar stöðu akkúrat núna telur hann að við séum komin fullhátt þar. Hann telur að við getum lagt meira á bolfisksfyrirtækin. Hann heldur því fram að við séum að lækka veiðigjöldin of mikið. Það má vel vera að það þurfi að skoða eitthvað betur, en aðalatriðið var að hann sagði: Þetta er miklu betra mál en það sem við höfum unnið með áður. Það var niðurstaða hans. Ef þetta er afgreitt óbreytt er verið að afgreiða miklu betri niðurstöðu, miklu betri lausn en þau lög sem gilda um þetta mál.

Það er auðvitað mjög mikilvægt. Okkur getur greint á um einstök atriði og ég hef fengið ábendingar og gagnrýni á skýrslu Stefáns. Það ber að virða það við hann að hann hafði ekki mikinn tíma og hafði síðan í framhaldinu kannski ekki tíma til þess að svara þeim ábendingum eða þeirri umræðu sem einhverjir vildu hafa í framhaldinu því að hann var hreinlega kominn í frí. Það ber auðvitað að virða þegar fólk er í svona störfum að það er ekki alltaf tilbúið til þess að raska tíma sínum eins og það hefur skipulagt hann. Ég hef ekkert við það að athuga.

Aðalatriðið fyrir mig í þeirri skýrslu er að það getur vel verið að það megi laga á þessu einhverja agnúa hér og þar, eitthvað sem menn greinir á um, einhverjar mismunandi skoðanir á málum, en grundvallarniðurstaðan er sú er að við erum með miklu betra mál í höndunum samkvæmt niðurstöðu hans og reyndar frá fleirum sem höfðu áður fjallað um þessi mál og hafa gefið okkur umsagnir sínar.

Virðulegi forseti. Nefndin mun taka þetta mál til umfjöllunar milli 2. og 3. umr. og ég útiloka ekkert að í ljósi umræðunnar og þeirra ábendinga sem nefndinni hafa verið að berast verði mögulega gerðar einhverjar breytingar á málinu. Ég held að það sé þó ekki þess eðlis að það megi vænta einhverra stórkostlegra breytinga. Ég held að við höfum, eins og segir í nefndarálitinu, hitt nokkuð naglann á höfuðið í þessari útfærslu. Hún er betri en það sem við höfum. Hún er jafnari. Hún er að deilast með jafnari hætti á fyrirtækin í landinu. Hún er hugsuð til skamms tíma. Öll þessi vinna og vinnan sem við fórum í á síðasta kjörtímabili verður okkur gott veganesti (Forseti hringir.) í sumar og haust til að undirbúa nýtt þingmál um fiskveiðistjórnarmálið.