142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[21:05]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki af neinu yfirlæti sem ég talaði um ákveðið þekkingarleysi og hvernig ég gagnrýndi fjölmiðla. Þetta eru bara staðreyndir. Það er ekkert öðruvísi. Ég er ekkert að líta niður til almennings eða gera lítið úr skoðunum fólks. Ég hef sagt það ítrekað í viðtölum, vegna þeirra undirskriftasafnana sem eru í gangi, að þetta séu sterk skilaboð. Við sáum ástæðu til þess að kalla á fund nefndarinnar þá sem standa að þessari undirskriftasöfnun, ekki eins og sumir hv. þingmenn héldu til að setja á þá einhvern þrýsting, heldur til þess að upplýsa og vera upplýst, ekkert öðruvísi. Ég vona að hv. þingmenn, meðal annars þingmenn Vinstri grænna, geti vitnað um það hvernig sú umræða var.

Það er aftur á móti gagnrýnisvert að í svona stóru máli skuli ekki vera meiri efnisleg umræða þar sem skipst er á skoðunum og upplýst er um hvað málin snúast, að aðalumræðan í fjölmiðlum skuli snúast um skoðanakannanir og undirskriftasöfnun en ekkert um efni máls. Það er gagnrýnisvert og verður úr að bæta, það er ekkert öðruvísi.

Ég er ekkert að veitast að fræðimönnum. Var ég að veitast að Stefáni Gunnlaugssyni? Var ég að veitast að Jóni Steinssyni? Bíddu, það er hægt að snúa út úr öllu og hafa umræðuhefðina á þessum nótum í þessu mikilvæga máli. Það er það sem allt of margir hv. þingmenn kjósa. Ég var fyrst og fremst að fara yfir það sem þeir hafa sagt. Ég var að vitna í orð þeirra og ég var að gagnrýna sumt af því sem þeir (Forseti hringir.) segja eins og það þegar Jón Steinsson segir að leikandi létt sé hægt að hafa 50 milljarða út úr íslenskum (Forseti hringir.) sjávarútvegi. Ég sagðist vera sammála honum, en hann bara gleymir að segja hvernig hann ætli að gera það.