142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[21:11]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir að mér fannst þetta svolítið sérstök lokaorð hv. formanns atvinnuveganefndar um þessa umræðu. Ég gat ekki annað en tekið til mín þá gagnrýni sem hann setti fram þegar hann talaði um að hér væri verið að reyna að slá pólitískar keilur og annað því um líkt, það væri verið að saka þingmenn um að þeir væru ófærir um að fjalla um málefni í nefndum, væna menn um að ganga erinda einhverra.

Ég stend við það sem ég sagði hér í ræðu þegar ég talaði meðal annars um opna fundi sem hann nefndi líka. Ég geri mér alveg grein fyrir því að það gilda reglur um opna fundi, en í þessu máli hefði ég hins vegar talið að einhverjir af þeim fundum sem haldnir voru hefðu þurft að vera opnir almenningi. Ég tel að það hefði verið æskilegt í ljósi þess hvernig umræðan úti í samfélaginu er. Hv. þingmanni virðist svo umhugað um að skýra út fyrir fólki hvað í raun og veru er um að vera, um hvað málið snýst. Það virðist ekki hafa tekist að koma því til skila til almennings í landinu. Hvernig eigum við að túlka þessa undirskriftasöfnun, umræðuna á samfélagsmiðlunum og annað því um líkt?

Ég fagna hins vegar þegar þingmaðurinn talar um breytta umræðuhefð og ræðutaktík. Ekki fyrir svo löngu, og eiginlega fyrir bara allt of stuttu, man ég þegar hv. formaður atvinnuveganefndar kallaði mig og samflokksmenn mína kommúnista með látum úr pontu. Það þótti í lagi. Það er að sjálfsögðu til hins betra ef hv. þingmaður ætlar að leggja sitt (Forseti hringir.) af mörkum til að umræðuhefðin batni. Til er ég.