142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[21:21]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það væri nú gaman að fara yfir sögu lagasetningar um fjármál stjórnmálaflokka og hvernig á því stóð að Íslendingar settu slík lög eiginlega síðastir allra vestrænna lýðræðisþjóða. Það var vegna þess að það var flokkur sem stóð alltaf á móti því. Við fengum svo kannski aðeins að sjá framan í það, í aðdraganda kosninganna 2009, hvers vegna mönnum var það tregt í Sjálfstæðisflokknum að setja lög sem skyldu upplýsa um og setja takmörk á framlög fyrirtækja til slíkra hreyfinga, þegar ofurstyrkirnir frægu komust á dagskrá. Það er ekkert að því. Menn eiga að hafa uppburði í sér til að ræða það, að sjálfsögðu ekki á persónulegum nótum eða af einhverri rætni. Auðvitað þarf að gæta hagsmunatengsla og að þau blandist ekki um of inn í stjórnmálin.

Ætli það sé ekki einn af meginlærdómum rannsóknarskýrslu Alþingis, þau skaðlegu tengsl og hvernig þræðirnir krossuðust í gamla helmingaskiptasamfélaginu á Íslandi þar sem viðskiptalíf og pólitík rann á köflum saman í eitt. Við þyrftum kannski að fara til Tyrklands og læra af þeim vísa manni Kemal Atatürk sem lagði grunn að nútíma Tyrklandi. Og hvernig gerði hann það? Meðal annars með því að í því landi skyldi aldrei blanda saman trúmálum og stjórnmálum. Við þurfum kannski ekki eins að hafa áhyggjur af því hér, en kannski ættum við að hafa það stjórnmál og viðskipti og læra það af hruninu að blanda því aldrei aftur saman.

Varðandi það að almenningur sé ekki nógu vel að sér um þessi mál og þess vegna sé hann auðplataður, sem mér fannst liggja í loftinu í máli hv. þingmanns, ginnkeyptur fyrir því að skrifa undir undirskriftalista eða eitthvað því um líkt, er ég algjörlega ósammála því. Ég held að að uppistöðu til sé almenningur á Íslandi sér vel meðvitaður um mikilvægi sjávarútvegsins nátengdur honum. Öll erum við meira og minna annaðhvort sjómenn eða bændur að ætterni og uppruna, ekki langt aftur, og almenningur er með vissa hluti algerlega á hreinu. Það sýna allar mælingar og allar umræður, öll greinaskrif. Yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar vill að gengið sé frá því í eitt skipti fyrir öll að fiskimiðin séu sameign okkar, tilheyri okkur öllum sameiginlega. Það er þjóðin með á hreinu að þannig eigi það að vera. Hin sjónarmiðin eru sem betur fer í svo grenjandi minni hluta að það þarf varla að tala um þau, þótt auðvitað sé einn og einn einkaréttarsinni enn að reyna að malda í móinn.

Þjóðin er held ég líka með það á hreinu að á þeim tímum sem mikill umframgróði myndast, mikil renta í greininni, sem sprettur af því að tilteknir aðilar fá aðgang að henni, að þessari takmörkuðu verðmætu auðlind, eigi hún tilkall til þess að fá í sinn hlut að minnsta kosti drjúgan hlut þeirrar rentu. Ég held að þjóðin sé líka með ýmsa fleiri hluti á hreinu, þeir sem fylgst hafa með umræðum um þjóðmál og sjávarútvegsmál síðastliðin 20 til 30 ár. Ætli það sé nú ekki í þjóðarvitundinni nokkuð sterkt að það sé ekki gott fyrirkomulag að einstaklingar hagnist um milljarða króna á því að komast í þá aðstöðu að mega sækja fisk úr sjónum og geti, ef svo ber undir, labbað út úr greininni með þá milljarða? Þeir hagnast gríðarlega persónulega á því einu að þeir eru handhafar aðgöngumiðans að auðlindinni. Það eru ekki sjómennirnir á skipunum þeirra, það er ekki fiskverkafólkið í landi og það eru ekki byggðarlögin sem njóta þess þegar slíkur gróði er tekinn út úr greininni, nei, heldur eru það einstaklingarnir sem eru prókúruhafar á fyrirtækjunum. Þetta veit þjóðin. Þetta hefur hún horft upp á og henni finnst þetta ekki réttlátt.

Ég held að það séu líka býsna djúp ör víða í þjóðarsálinni vegna þess að menn hafa heyrt fréttirnar frá Raufarhöfn, fréttirnar frá Hrísey, fréttirnar frá Breiðdalsvík, fréttirnar frá Flateyri, fréttirnar frá Þingeyri og þannig mætti áfram telja og listinn er langur. Þau eru víða sárin á landsbyggðinni sem þetta kerfi hefur leitt af sér þó að ég sé ekki að segja með því að allt hefði getað haldist óbreytt að öllu leyti í skipulagi sjávarútvegsins frá því sem var fyrir 20 eða 30 árum, það er ég ekki að segja. En það má kannski eitthvað á milli vera hvernig þetta kerfi hefur skipt örlögum með íbúum mismunandi sjávarbyggða. Menn tala mikið um forsendubrest í sambandi við húsnæðislán núna á Íslandi, en gæti það hafa verið forsendubrestur á Raufarhöfn þegar kvótinn fór í burtu á einni nóttu og íbúðarhúsin urðu verðlaus með öllu? Með öllu. Þá var ekki spurt um skuldirnar sem á þeim hvíldu. Nei, það var spurningin hvort þú gætir fengið einhvern til að taka við lyklinum að stóru einbýlishúsi og ekki væri verra ef hann vildi borga milljón fyrir það. Það var svona um það bil þannig sem fólk var sett með sínar eignir á staðnum.

Varðandi fjölmiðlana verður fróðlegt að fylgjast með því hvort þetta heldur áfram hjá hæstv. ríkisstjórn og baklandi hennar hér á þingi. Ég ætla að segja það alveg hreint og umbúðalaust, virðulegur forseti, mér finnst glitta í tilhneigingar til þess að nú eigi að temja fjölmiðlana aftur. Nú eigi að tala þannig til þeirra, skrifa þannig greinar í Morgunblaðið, svona til stuðnings leiðurunum, að fjölmiðlarnir hrökklist í sjálfsritskoðun, þeir fáu sem enn þá þora að hafa einhverjar sjálfstæðar meiningar í þessum efnum. Er eitthvað að því fréttamati fjölmiðla að þeim þyki það athyglisvert að upp undir 35 þúsund manns hafi skrifað undir áskorun til Alþingis og í framhaldinu til forsetans ef svo ber undir? Eru það ekki fréttir? Má ekki flytja þær? Til hvers gera fjölmiðlar skoðanakannanir um afstöðu til stærri mála? Er það ekki til þess að birta þær — hv. þm. Jón Gunnarsson, herra forseti? Halda menn að fjölmiðlar kaupi skoðanakannanir til að birta þær ekki? Nei, það er vegna þess að þeir telja það fréttnæmt hver viðhorf eru til mála af þessu tagi. Það er þeirra hlutverk.

Hv. þingmaður telur að þetta sé allt saman á misskilningi byggt, meðal annars undirskriftasöfnunin, vegna þess að þetta frumvarp verði að fara í gegn því að annars verði engin veiðigjöld. Þetta var nú einn sónninn sem hér var rekinn upp. Gott og vel ef menn telja að leggja þurfi veiðigjöldin á með bráðabirgðaákvæðum í krónutölum á þorskígildiskíló á þessu ári, en það er ótengt því hver upphæð veiðigjaldanna er, bara einfaldlega með öllu. Þannig að það eru ekki rök fyrir þessari efnislegu niðurstöðu málsins, alls ekki.

Varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu er það nú þannig, eins og ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður viti, að þó svo forseti synji lögum staðfestingar öðlast þau engu að síður gildi. Þannig að þetta yrðu gildandi lög um veiðigjöld einhvern tímann fram á vetur, fram að þjóðaratkvæðagreiðslunni sem yrði einhvern tímann. Færi svo að þau stæðust ekki, þjóðin vildi þau ekki, bregðast menn ósköp einfaldlega við því. Það þýðir ekki að ekki verði hægt að leggja veiðigjald á á næsta fiskveiðiári. Það yrði kannski eitthvað seinna sem niðurstaða yrði komin í það. Það er algerlega á hreinu. (Gripið fram í: En þú hefur … til þess.) — Að sjálfsögðu geturðu gert það. Þú getur gert það til dæmis á landaðan afla frá og með því að þú setur þau lög eða hvernig sem þú vilt. Það er nú ekki þannig að hægt sé að nota þá hótun að þar með verði engin veiðigjöld. (Gripið fram í.) Það er betra að hv. þingmaður snúi út úr í ræðum frekar en að reyna að gera það í frammíköllum ef ég leyfi mér að hafa skoðun á því, virðulegur forseti.

Svo koma inn á milli þessar dásamlegu setningar hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni, um nauðsyn þess að ná sátt, inn í ræðurnar, þar sem talað er um þekkingarleysi og rangfærslur, ómögulega fjölmiðla, fræðimenn sem séu úti í mýri og þjóðina sem sé ekki mjög vel að sér í þessum efnum, mikilvægi þess að ná sátt. Gæti verið að það þurfi tvo til? Gæti það hugsast að það þurfi tvo til til að ná sátt í þessu máli, þ.e. að sjávarútvegurinn og þeir sem tala máli hans með þeim hætti sem hv. þm. Jón Gunnarsson iðulega gerir þurfi líka aðeins að líta í eigin barm? Á sáttin að felast í því að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar láti af skoðunum sínum í þessum efnum og sérhagsmunagæslumenn, sérstaklega stórútgerðanna í landinu, sem búnar eru að koma sér best fyrir í þessu kerfi, nái sínu fram? Á sáttin að felast í því?

Gæti ekki verið að þeir sem hafa í allt of miklum mæli af mikilli hörku gætt hagsmuna sinna í kerfinu, og hafa komið sér þar best fyrir, þurfi að átta sig á því að þrátt fyrir að þeir geri margt vel og reki myndarleg fyrirtæki eru þeir ekki ríki í ríkinu? Það er almannaviljinn og það er lýðræðið í landinu sem á að leiða svona mál til lykta en ekki peningar, ekki hræðsluáróður, ekki tugmilljóna eða hundruð milljóna auglýsingaherferðir; aðferðir af því tagi sem voru prófaðar hér vorið og sumarið 2012 þegar átti að brjóta Alþingi á bak aftur með því að binda flotann eiga ekki að ráða niðurstöðum (Forseti hringir.) mála af þessu tagi. Sáttin mun aldrei byggja á slíkum aðferðum.