142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[21:44]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú meira hvernig þetta þarf að þróast í svona umræðu þegar hún er tekin af hreinskilni. Nú heitir þetta orðið að ég sé að gera mjög lítið úr almenningi og þekkingu hans á sjávarútvegi. Ég var einmitt að gagnrýna hvernig fjölmiðlaumfjöllun um málið hefur verið. Í tengslum við það er náttúrlega ekki líklegt að fólk sé almennt nægilega vel inni í þeim málum, þetta eru flókin mál, það vitum við. Ég er ekkert að gera lítið úr fólki. Ég tek skilaboð þess alvarlega. En þessi mál þurfa miklu ítarlegri og vandaðri umfjöllun í fjölmiðlum til þess að fólk fái þær upplýsingar sem það þarf að fá til þess að mynda sér skoðun. Ég tel að fjölmiðlar hafi brugðist í því í aðdraganda þessa máls og oft áður og að það sé ekki fyrir hvern sem er að taka þátt í umræðunni. Það er bara alls ekki þannig. Ég tek þátt í þessari umræðu við fjölda fólks á hverjum tíma. Þetta er til dæmis í mínu kjördæmi og á þeim fundum sem ég sæki oft þar eitt heitasta málið. Ég þarf að taka mjög gagnrýna umræðu um stefnu mína og margt sem ég stend fyrir í þeim málum við kjósendur mína og við kjósendur Sjálfstæðisflokksins, skiptast á skoðunum. Það er allt í góðu lagi. Ég tek fullt nótis af því sem fólk er að segja mér. Við skulum hætta þessum útúrsnúningum.

Varðandi það hvernig eigi að afla tekna fyrir ríkissjóð er það einfaldlega þannig að við sem myndum núverandi ríkisstjórn trúum því að með því að efla atvinnulífið, með því að draga úr álögum á atvinnulífið, (Forseti hringir.) með því að draga úr álögum á almenning náist fram öflugra atvinnulíf. (Forseti hringir.) Ég trúi því til að mynda að ef við förum þá leið að hafa veiðigjöldin (Forseti hringir.) skynsamlega há muni fjárfesting í greininni eflast og við fá það margfalt til baka sem samfélag.