142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[21:46]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst þetta ekki vera neitt svar hjá hv. þingmanni um hvernig á að mæta þessu mikla tekjutapi ríkissjóðs. Það hafa ekki verið veiðigjöld sem neinu nemur undanfarin ár og ekki hefur það ýtt undir fjárfestingar í greininni. Það hefur ekki verið fjárfest mikið í sjávarútvegi undanfarin 10–15 ár eins og flotinn sýnir. Hver er skýringin á því? Hvert skyldi það fjármagn sem hefur komið inn í greinina hafa farið? Skyldi það hafa farið í óskyldan rekstur, áhættufjárfestingar í hlutabréfum og annan óskyldan rekstur? Skyldi það vera? Mér þætti gaman að heyra viðhorf hv. þingmanns til þess, út af hverju það er.

Gæti hv. þingmaður hugsað sér til að upplýsa fáfróða alþýðuna um sjávarútvegsmál að beita sér fyrir því að fara um landið og halda opna fundi um málin og ræða þau, auðlindarentuna og hvernig hún er byggð upp, hvernig sjávarútvegurinn hagnast í dag og hvernig það getur verið sveiflukennt og auðlindarentan eigi að fylgja því? Hv. formaður atvinnuveganefndar var ekki tilbúinn til að hafa opna fundi sem ég held að hefðu getað upplýst umræðuna meira. Ég spyr hv. þingmann hvort hann telji rétt að hagsmunatengsl flokkanna varðandi sjávarútveginn fari til Ríkisendurskoðunar og fari inn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, hvort það sé eitthvað sem þarf að skoða betur?