142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[22:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni verður tíðrætt um þann mikla hagnað sem orðið hefur í sjávarútvegi og það hvað fólki sveið að sjá menn fara með milljarða út úr greininni. Af hverju var þetta og að hverju var stefnt þegar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og félagar hans hér á þingi samþykktu framsalið á sínum tíma? Það var talið að það væri helsti hagræðingarhvatinn í kerfinu að fara þá leið. Þetta er alveg hárrétt sem hv. þingmaður segir, virðulegi forseti, það er þetta sem fólki sveið. En hverjir eru það sem keyptu? Hv. þingmaður kom nefnilega inn á það líka. Auðvitað var það orðin algjör geggjun hvert gjaldið á aflaheimildum var komið. Því miður. Ég er algjörlega sammála því. Þetta var farið alveg úr böndunum.

Eftir á að hyggja hefði maður viljað segja að það hefði verið skynsamlegt að grípa inn í þetta með einhvers konar skattlagningu á þau fyrirtæki sem voru að selja sig út úr greininni þegar þetta var komið í þessar verðhæðir. Það hefði verið ákveðin sanngirni í því. Þá hefði hluti af því söluverðmæti orðið eftir hjá þjóðinni. Það hefði örugglega verið til þess fallið að skapa meiri sátt, en við spólum ekki til baka í þessu og við refsum ekki þeim sem keyptu og þeim sem hagræddu.

Það var líka þannig að í þessari miklu hagræðingu var stofnaður sérstakur úreldingarsjóður. Það var skattlagt sérstaklega í greininni til þess að borga fyrir þessa hagræðingu. Evrópusambandið er að setja tugi ef ekki hundruð milljarða í að borga fyrir skip sem er verið að úrelda þar með litlum árangri. Hér var það greinin sjálf sem greiddi fyrir þessa hagræðingu að eyða skipaflotanum, minnka skipaflotann og fækka skipum.

Þetta hljómar svolítið eins og sagan um litlu gulu hænuna. Það voru ekki margir tilbúnir á þessum tíma, þegar viðvarandi tap var á sjávarútvegi og þessir erfiðleikar voru, að baka brauðið, en það eru margir tilbúnir að borða það í dag. Ég held að það sé mikilvægt að við höfum þetta í huga. Ég er ekki að segja þar með að ekki sé eðlilegt að í góðri afkomu og á góðum árum sé borgað ríflegt veiðigjald og þjóðin fái sinn skerf af því, en það verður að vera þannig að greinin nái að dafna, að greinin nái að vaxa áfram, að greinin nái að þróa sig og efla sig. Þetta má ekki vera það íþyngjandi fyrir fyrirtæki sem þar eru.

Eiginfjárstaðan er að verða ágæt. Þess vegna, ef við höfum skattlagninguna tiltölulega hóflega, sanngjarna, sjáum við fjárfestingarþörfina sem er orðin uppbyggð. Það var talið að hún næmi allt að 60 milljörðum, uppsöfnuð fjárfestingarþörf. Það yrði alveg glæsilegt fyrir þjóðarbúið ef sú fjárfesting færi af stað. Við skulum bara vona að við náum víðtækari sátt með nýju frumvarpi á hausti komanda um fiskveiðistjórnarmálin hér almennt og að það verði til að efla þessa grein enn frekar.

Þá er komið inn á þetta með að hagnaðurinn hjá Brimi og Fisk og hvað þetta heitir — að við séum að lækka veiðigjöldin á þessi fyrirtæki. Ég kom inn á það áðan. Já, já, vissulega erum við að gera það, en við erum fyrst og fremst að jafna álagið á gjaldtöku á þessi fyrirtæki samanborið við stóru uppsjávarfyrirtækin sem einhverra hluta vegna sátu ekki við sama borð, sættu ekki sömu álögum hjá fyrri ríkisstjórn. Það eru stærstu fyrirtækin í sjávarútvegi á Íslandi. Við erum að hækka álögur á þau. Við erum að færa álögurnar á stærri fyrirtækin í bolfiski til jafns við þau þannig að menn sitji við sama borð. Það voru jafnaðarmenn sem fóru hina leiðina. Einhver sagði hér í gær að þeir vildu jöfnuð í öllum málum. Þetta hlýtur þá að vera í þeim anda. Það hlýtur í framtíðinni að vera markmið okkar að greinin sitji almennt við sama borð hvað svona skattlagningu varðar, að ekki sé verið að mismuna fyrirtækjum þar.

Það er alveg rétt að ef heildin er tekin, af því að afslátturinn mun koma meira inn á bolfisksfyrirtækin, mun afslátturinn verða til þess að veiðigjaldið þar mun lækka. Ég hef ekki reiknað þetta út eða séð þessar tölur. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefnir 3 kr., en það eru ekki stöndugu fyrirtækin í þeirri grein sem njóta þess, það eru fyrirtæki sem við viljum verja, fyrirtæki sem fóru illa út úr hruninu, eru núna í fjárhagslegri endurskipulagningu á síðasta ári og þessu ári og kannski fram á næsta ár. Það verður ekki fyrr en þá sem við sjáum í raun og veru hver staða þeirra fyrirtækja er. Þá eigum við auðvitað að færa gjaldtökuna á þau til jafns við alla aðra í greininni. En við höfum öll sameinast um að verja hagsmuni þeirra á meðan þau ganga í gegnum þá endurskipulagningu sem er þörf og verður að gera sig.