142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[22:07]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Því var fagnað hér sérstaklega í kvöld þegar hv. þm. Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, mætti til fundarins til að taka þátt í umræðum, menn héldu nú kannski til þess að svara helst spurningum sem hefðu komið fram í máli þeirra sem tekið hafa þátt í umræðunum. Þess í stað valdi hann að fara í langa ræðu, hefur lengri tíma sem framsögumaður nefndarálits, til að fjalla um málið og ekki síst til að veitast svolítið að andstæðingum sínum í stjórnmálum í þeirri umræðu sem átt hefur sér stað í þessu máli.

Það er stundum sagt að þegar komið er að lokum þinghalds hverju sinni — við vitum að það styttist í það — sé ekki góður svipur á því að stjórnarþingmenn sérstaklega séu að lengja þinghaldið mikið með miklum ræðum, og sumir mundu nú kalla það málþóf. Píratar höfðu upplýst það sérstaklega hér opinberlega að þeir ætluðu að stunda málþóf þangað til þeir vissu með vissu að forseti lýðveldisins yrði kominn til landsins. Nú lítur út fyrir það, herra forseti, að formaður atvinnuveganefndar ætli að viðhafa hér málþóf þar til hann er viss um að forseti lýðveldisins sé farinn úr landi. [Hlátur í þingsal.]