142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[23:07]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna frá innstu hjartans rótum þessari yfirlýsingu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar varðandi ríkisstjórnarmyndunina 1991 og tek mjög gott og gilt það sem hann segir í því efni og dreg það að sjálfsögðu ekki í efa. Að því er varðar hvort verið er að líta of þröngu sjónarhorni á þetta mál séð frá mínum flokki tel ég það alls ekki vera. Ég tel reyndar, og get verið sammála þingmanninum í því, að það sé sjálfsagt ekki það sem vakir einkum og sér í lagi fyrir Sjálfstæðisflokknum að hv. fyrrverandi þingmaður, Kolbrún Halldórsdóttir, er formaður Bandalags íslenskra listamanna. Ég held að þetta sé aðeins djúpstæðara en svo hjá Sjálfstæðisflokknum. Ég vakti máls á því sem hv. þm. Brynjar Níelsson skrifaði í grein sinni vegna þess að mér fannst það vera ómakleg aðför að þeim hv. fyrrverandi þingmanni og vildi gera athugasemd við það. Ég hvatti hv. þm. Brynjar Níelsson til þess að biðjast afsökunar á þeim ummælum sínum og ég vona að hann geri það í ræðu í þessu máli.