142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[23:10]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég varð auðvitað að koma í ræðustól vegna þess að menn beindu mjög mikið orðum að mér og kannski mest til umræðu og þess sem ég sagði þar, sem skipti að vísu engu máli í umræðunni á sínum tíma. Aðalatriðið í umræðunni er, og ég fjallaði um það í ræðu minni um þetta frumvarp fyrir nokkrum dögum, að ég tel hugmyndir um að Alþingi komi sem minnst að eða pólitíkin komi sem minnst að Ríkisútvarpinu vera í andstöðu við grundvallarreglur um ábyrgð. Hverjir bera ábyrgð á stofnunum? Það eru auðvitað eigendur og þeir sem bera ábyrgð samkvæmt stjórnarskránni. Um það var ég að fjalla. Ég lét að vísu flakka í leiðinni, í aukasetningu, af því að ræðumenn stjórnarandstöðuflokkanna voru sífellt að ýja að því að Sjálfstæðisflokkurinn væri hér að reyna að koma mönnum sínum að, að ég teldi að auðvitað væri betra að ekki væru of margir vinstri menn í RÚV. Það á svo sem við um allar stofnanir og samfélagið í heild sinni, að ekki séu of margir vinstri menn þar, ráði miklu. Þetta er bara skoðun manna okkar og það þarf ekkert að fela hana, enda sagðist hv. þm. Össur Skarphéðinsson vera á fullkomlega öndverðum meiði og þá má túlka það þannig að hann vilji helst hafa sem fæsta hægri menn. (Gripið fram í.)

Umræðan á auðvitað að snúast um hvaða fyrirkomulag á að vera á ríkisfyrirtækjum og stofnunum. Þetta snýst um það. Hér hefur öll umræðan þvælst út í það að Sjálfstæðisflokkurinn ætli að fara að setja flokksgæðinga sína inn. Hvaða ástæðu höfum við til þess að ætla það? Hvernig var þetta síðast þegar skipað var eftir gildandi lögum? Hvern tilnefndi Sjálfstæðisflokkurinn? Var það flokksgæðingur? Nei, það var fagmaður. En hverja tilnefndu stjórnarandstöðuflokkarnir, sem núna eru í stjórnarandstöðu? (Gripið fram í.) Það var Björg Eva Erlendsdóttir, ritstjóri málgagns VG sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson taldi vera nánast ótengda flokknum og hinn stjórnarandstöðuflokkurinn, Samfylkingin, var það ekki Margrét Frímannsdóttir, fyrrverandi formaður flokksins? (Gripið fram í: Nei. ) Eða einhvern tíma. (Gripið fram í: Ekki í Samfylkingunni.)Jæja forvera, og var í Samfylkingunni. Um hvað eru menn að tala hér? Um að Sjálfstæðisflokkurinn sé að koma flokksgæðingum sínum inn?

Þetta eru allt einhver öfugmæli. Það skiptir menntamálaráðherra auðvitað máli, það skiptir Alþingi máli að það veljist gott fólk til að stjórna RÚV. Fólk sem hefur þekkingu og reynslu, ekki einhverjir flokksgæðingar. Það er engu meiri trygging fyrir því að svo verði fari tilnefningar eitthvað út í bæ, ef aðrir sjá um þetta, vegna þess að auðvitað er það ráðherra og Alþingi sem á endanum bera ábyrgð á þessu, ekki Bandalag íslenskra listamanna. Það mun aldrei bera ábyrgð á einu né neinu í þessu. Þetta er grundvallaratriðið. Þess vegna vil ég sjálfur að þeir sem bera ábyrgð samkvæmt stjórnarskránni á stofnunum ríkisins ráði og skipi í stjórnir. Þetta er grundvallaratriðið en öll umræðan snýst um að hér eigi að fara að troða einhverjum flokksgæðingum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í stjórn RÚV. Það hefur aldrei staðið til og við höfum enga ástæðu til þess að ætla það, að minnsta kosti ekki miðað við síðustu skipun. Ég hefði miklu meiri áhyggjur af stjórnarandstöðuflokkunum í því.

Svo veltir maður fyrir sér: Af hverju Bandalag íslenskra listamanna? Af hverju ekki Íþróttasamband Íslands? Íþróttir eru sennilega vinsælasta efnið. Af hverju ekki Landsbjörg? Er ekki RÚV svo mikið öryggistæki? Eða Blaðamannafélagið? Ég er fullur tortryggni gagnvart þessu fyrirkomulagi. Hver var forseti og er forseti Bandalags íslenskra listamanna? Er það ekki Kolbrún Halldórsdóttir, fyrrverandi þingmaður flokksins? Af hverju erum við í Sjálfstæðisflokknum alltaf sökudólgarnir? Samsæriskenningarnar eru alltaf um okkur. Ég get alveg búið til svona samsæriskenningar.

Ég get sagt hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að ég hef ekki talið það forgangsverkefni eða sérstakt áhugamál mitt að leggja niður RÚV. Hins vegar verður að taka umræðu um stofnunina, þetta fyrirtæki eins og öll önnur sem kosta skattborgarana marga milljarða á hverju ári. Það er auðvitað ekkert sjálfgefið að 320 þús. manna þjóð eyði 4–5 milljörðum í að halda uppi ríkisútvarpi. Stór hluti af þjónustunni er það sem aðrir sinna og hafa sinnt með ágætum. Við hljótum að geta tekið umræðuna án þess að hún fari alltaf í þessar skotgrafir um að Sjálfstæðisflokkurinn sé í einhverjum pólitískum skotgröfum, Sjálfstæðisflokkurinn sé að reyna að knésetja RÚV, Sjálfstæðisflokkurinn vilji hafa yfirráð yfir RÚV. Ég hef aldrei upplifað að Sjálfstæðisflokkurinn hafi yfirráð yfir RÚV og ég hef heldur aldrei upplifað að fréttaflutningur eða dagskrárgerð sé sérstaklega til hagsbóta fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Ég hef aldrei upplifað það og hef enga ástæðu til að ætla að Sjálfstæðisflokkurinn fari að beita sér með þeim hætti hér eftir frekar en áður.

Af því að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson taldi rétt að ég bæði Kolbrúnu Halldórsdóttur afsökunar þá var ég var ekki að veitast að Kolbrúnu Halldórsdóttur í þessum pistli, ég var að veitast að stjórnarandstöðuflokkunum. (ÖS: Þú getur beðið þá afsökunar.) Nei, ég ætla ekki að gera það. Ég sé enga ástæðu til þess. Ég er bara að benda á að pólitíkin getur alveg verið jafn mikil og fagmennskan minni, eða ekki meiri, þó að einhverjir aðilar úti í bæ fari að tilnefna í stjórn RÚV. Ég hef ekkert, enga ábyrgð eða garantí fyrir því að svo verði ekki. Ég vil ítreka að það er mikilvægt í mínum huga að þeir sem eiga og bera ábyrgðina skipi í stjórnina. Ef ég ætla að fara að víkja frá því verð ég að hafa góða tryggingu fyrir því að það sé örugglega fagmennska en ekki pólitík sem ráði en ég hef enga tilfinningu fyrir því í fyrirkomulaginu sem núna er.