142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[23:19]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Brynjar Níelsson hefur það þó fram yfir Framsóknarflokkinn að hann þorir að koma og skýra mál sitt. Það hefur Framsóknarflokkurinn, að minnsta kosti þeir hv. þingmenn sem stóðu að fyrri ákvörðun og hafa algjörlega skipt um skoðun, ekki lagt í. Þegar hv. þm. Brynjar Níelsson segir að engin dæmi séu um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið að hringla í starfsmönnum Ríkisútvarpsins, ef hann er að halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn hafi aldrei drepið fingri þar á menn eða reynt að koma mönnum þaðan út þá þekkir hann ekki sögu síns flokks. Það hafa þegar verið nefnd dæmi um það hér í þessum umræðum þannig að ég vísa því algjörlega á bug.

Það er akkúrat þetta viðhorf sem ég óttast sem kom algjörlega berlega og af fullkominni hreinskilni fram hjá hv. þingmanni. Hann sagði mjög skýrt að Ríkisútvarpið væri því betra sem þar væru færri vinstri menn. Hvað þýðir það ef allir þeir sem koma að skipan í stjórn Ríkisútvarpsins og þeir fulltrúar sem verða þar að lokum eru sömu skoðunar? Það þýðir einfaldlega að mjög líklegt er að reynt verði að láta þetta viðhorf hafa áhrif á starfsmannaráðningar. Þannig var það í fortíðinni og það sem við óttumst, að minnsta kosti ég sem hér stend, að geti gerst er að það taki sig upp aftur.

Síðan, án þess að ég ætli að fara að draga nafngreinda einstaklinga inn í þessa umræðu, vil ég segja að sá ágæti einstaklingur sem hv. þingmaður nefndi til sögunnar sem dæmi um einhvern sérstakan botnlanga úr VG hefur það umfram marga aðra að vera þaulreyndur fjölmiðlamaður, viðurkennd sem slíkur og ég minnist þess ekki að menn hafi nokkurn tímann borið fram neinar ásakanir um að (Forseti hringir.) pólitískar skoðanir hafi haft áhrif á störf viðkomandi. (Forseti hringir.) Frú forseti. (Forseti hringir.) Ég vil svo gjarnan koma hér á eftir til þess að svara hver munurinn sé á Íþróttasambandinu og Bandalagi íslenskra listamanna sem stjórnanda á Ríkisútvarpinu.