142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[23:23]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður segir, sem er örugglega rétt hjá honum, að hann þekki ekki sögu Sjálfstæðisflokksins langt aftur í tímann. Ef hann skortir einhverjar upplýsingar um hana er honum algjörlega velkomið að koma til mín. Ég þekki hana. En hv. þingmaður þarf ekkert að þekkja söguna mjög langt aftur í tímann. Einn af þeim mönnum sem hann hefur borið virðingu fyrir og dáð sem hugmyndaríkan einstakling innan vébanda Sjálfstæðisflokksins skrifaði grein upp úr áramótum sem birtist á vefmiðli. Þar var það einfaldlega sagt blákalt að Sjálfstæðisflokkurinn væri sennilega á leið í ríkisstjórn og hann þyrfti að skoða hverjum ætti að koma fyrir og út úr ríkisgeiranum. Sá ágæti maður er reyndasti fjölmiðlamaður Sjálfstæðisflokksins, Styrmir Gunnarsson. Hann skrifaði þetta svona. Þetta er viðhorfið.

Frú forseti. Mér þykir allt benda til þess að ég þurfi að taka ræðu hér um muninn á Íþróttasambandinu og Bandalagi íslenskra listamanna.