142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[23:36]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki mikinn húmor fyrir því að farið sé rangt með staðreyndir eins og hv. þingmaður gerir í pistlinum sem ég vitnaði til áðan, sem er fjórar málsgreinar og þar af þrjár sem snúast um pólitíska skipan í stjórn Ríkisútvarpsins. Það er mjög jákvætt að hv. þingmaður hafi leiðrétt misskilning sinn við Kolbrúnu Halldórsdóttur en mér fyndist eðlilegt að hv. þingmaður leiðrétti misskilning sinn á opinberum vettvangi, til að mynda með því að breyta pistlinum sínum, en það er gott að hann hafi gert það nú þegar í þingræðu.

Svo vil ég líka segja, og nota þá tækifærið, að mér finnst mjög merkilegt að sá skilningur sé uppi hjá hv. þingmanni að um Ríkisútvarpið, sem er almannaútvarp okkar, gildi endilega sömu reglur og viðmiðun og almennt gerist um ríkisstofnanir í ljósi þess að það er almannafjölmiðill og mjög mikilvægt með öllum lögum og reglum að sjálfstæði hans sé óháð hinu pólitíska valdi, þótt hv. þingmaður telji raunar að sjálfstæðismenn skipi ekki (Forseti hringir.) sína flokksmenn eins og honum þykir væntanlega ný skipan stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna sanna.