142. löggjafarþing — 19. fundur,  3. júlí 2013.

Seðlabanki Íslands.

20. mál
[00:25]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég þakka framsögumanni nefndarálitsins sem gerði skilmerkilega grein fyrir álitinu. Það er ánægjuefni að frumvarpið er afgreitt hér í breiðri sátt. Það helst áfram góð samstaða um ýmsar mikilvægar aðgerðir sem snúa að því að undirbúa lagaverkið og ýmsar ráðstafanir sem þarf að gera til að halda áfram vinnu við afnám gjaldeyrishafta og treysta fjármálastöðugleika í sessi. Við erum auðvitað ekki komin á endastöð í þeim efnum eins og hér kemur reyndar fram í nefndarálitinu.

Það eru nokkur atriði sem ég vil bara árétta. Sumpart get ég vísað til ræðu minnar við 1. umr. málsins en eftir umfjöllun nefndarinnar og niðurstöður hennar vil ég í fyrsta lagi árétta að ég legg þann skilning í að breytingarnar sem varða 4. gr. laga um Seðlabankann, þar sem því er bætt inn að á sviði viðfangsefna sem hann skuli sinna, og samrýmast hlutverki hans sem Seðlabanka, sé að stuðla að fjármálastöðugleika. Við höfum rætt það áður hvort hér sé um efnisbreytingu að ræða eða eingöngu áréttingu á þeim skilningi sem menn hafa lagt áður í 4. gr. Ég hallast nú að því að í raun sé eðlilegra að líta svo á en hef að sjálfsögðu ekkert á móti því, nema síður sé, að þetta sé tekið fram með skýrum hætti til að árétta að þetta er auðvitað mikilvægt. En um leið þýðir þetta ekki breytingu á þeim áformum sem í vinnslu eru varðandi það að skoða heildstætt regluverkið um fjármálastöðugleika, undirbúa frumvarp um fjármálastöðugleika eða sérstaka lagasetningu, regnhlífalagasetningu, um það mál og að stefnt sé að því að fjármálastöðugleikaráð komi fram innan tíðar.

Ég fagna þar af leiðandi sérstaklega áherslum í nefndaráliti að þessu leyti og vísa til þess sem þar stendur. Ég vísa sömuleiðis til orðaskipta sem urðu hér milli mín og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra og svara hans við spurningum frá mér um þessi mál sem ég var prýðilega sáttur við og lít svo á að við getum vænst þess að í haust sjáum við afrakstur af þessu starfi og fáum til umfjöllunar frumvarp í þessum efnum. Þetta eru gríðarlega mikilvæg mál, kannski þau stærstu sem fram undan eru og enn bíða úrlausnar að hluta til varðandi úrvinnslu á afleiðingum hrunsins á íslenskt efnahagslíf.

Að lokum vil ég láta það koma fram að ég treysti því sömuleiðis, enda hef ég ekki ástæðu til að ætla annað, að sú þverpólitíska nefnd sem er að störfum samkvæmt erindisbréfi og var skipuð af þáverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, heyrir nú væntanlega undir fjármála- og efnahagsráðherra, starfi áfram. Ég tel ákaflega mikilvægt að stjórnmálaflokkarnir eigi áfram með sér slíkan upplýsinga- og samstarfsvettvang, geti leitað ráðgjafar og þar séu á ferðinni aðilar sem geti fylgst með og verið vel heima í því hvernig verkefnum vindur fram í góðu samstarfi við Seðlabankann, fjármála- og efnahagsráðuneytið, viðkomandi þingnefndir o.s.frv. Það kann að vera að ástæða sé til að huga að samsetningu þeirrar nefndar nú í ljósi þess nýja landslags sem við sjáum hér á þinginu og að ekki eiga allir núverandi þingflokkar fulltrúar í þessari nefnd. Það er auðvitað úrlausnarefni sem mun þá væntanlega ekki vefjast fyrir hæstv. ráðherra að vinna.

Ég er eindreginn stuðningsmaður þessa frumvarps og ekki nokkrar skrúplur á mér gagnvart því að styrkja stöðu Seðlabankans í þessum efnum með þeim hætti sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Ég tek það fram að ég geri það líka í trausti þess að þær áherslur sem ég hef komið hér á framfæri verði teknar til greina.