142. löggjafarþing — 20. fundur,  3. júlí 2013.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

[13:12]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð og þakka nefndarmönnum fyrir vel unnin störf. Skýrslan er sannarlega svört og sýnir að rík ástæða var að fara fram á þessa rannsókn á sínum tíma. Alþingi og ríkisstjórn þurfa nú að taka skýrsluna til umræðu og nýta sér hana við stefnumótun í húsnæðismálum almennt og sérstaklega í málefnum Íbúðalánasjóðs. Velferðarnefnd mun að loknum sumarleyfum taka skýrsluna til umræðu og boða höfundana á sinn fund.

Í skýrslunni er eftirlit með starfsemi Íbúðalánasjóðs gagnrýnt harðlega, m.a. það rof sem skapaðist við eftirlit sem koma á frá Alþingi. Við því þarf Alþingi að bregðast enda mikilvægt að þingmenn sinni eftirlitshlutverki sínu af skilningi og alvöru og hafi til þess þau tæki sem nauðsynleg eru.

Haustið 2010 var ég 1. flutningsmaður tillögu um rannsókn á Íbúðalánasjóði. Ástæða þess að ég flutti þá tillögu var hörð gagnrýni á sjóðinn í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um hrun íslensku bankanna og áhyggjur mínar af stöðu sjóðsins. Þegar ríkissjóður þurfti síðan að leggja Íbúðalánasjóði til 33 milljarða í desember 2010 var ljóst í mínum huga að rannsókn á starfsemi sjóðsins væri óhjákvæmileg. Ég gerði það að skilyrði fyrir stuðningi mínum við aukin framlög ríkissjóðs til sjóðsins að þessi rannsókn færi fram enda nauðsynlegt að upplýsa Alþingi og almenning í landinu um ástæðu þess að svo illa var komið fyrir sjóðnum.

Í þriðja lagi var ljóst árið 2010 að endurskoða þyrfti starfsemi Íbúðalánasjóðs. Rannsóknarstefnumörkun á starfsemi sjóðsins var af minni hálfu hugsuð sem mikilvægur liður í þeirri vinnu. Umræða um sjóðinn hefur um langt árabil verið í ákveðnum hjólförum þar sem stjórnmálaflokkar skiptu sér í lið með og á móti sjóðnum. Uppbyggileg umræða um hlutverk sjóðsins og stefnu í húsnæðismálum leið fyrir þau átök og eiga þar allir stjórnmálaflokkar hlut að máli.

Á meðan deilt var um tilvist sjóðsins breyttist hann í eins konar íbúðarbanka ríkisins og fjárfestingarsjóð með ríkisábyrgð. Markaðshlutdeild og umsvif urðu mikilvægari en félagslegt hlutverk sjóðsins. Nú er öllum ljóst að endurskoða þarf starfsemi Íbúðalánasjóðs og að einhverju leyti stendur endurskoðun yfir nú og hefur hluti af því ferli þegar verið festur í lög. Vonandi mun þessi viðamikla skýrsla verða til þess að endurskoðun sjóðsins nú verði vandaðri en þegar sjóðnum var breytt 2004. Skapa þarf sátt um sjóðinn og skilgreina markmið hans. Stærstu mistökin í sögu Íbúðalánasjóðs var pólitísk einstefna þar sem mikilvægara var að efna vanhugsuð kosningaloforð en að skapa sátt um sjóðinn og hlusta á faglega gagnrýni. Nauðsynlegt er að finna Íbúðalánasjóði skýrt hlutverk innan heildarstefnu ríkisins í húsnæðismálum.

Starfsemi Íbúðalánasjóðs er ekki markmið í sjálfu sér heldur þarf starfsemi hans að mótast af þeim markmiðum sem stjórnvöld vilja ná í húsnæðismálum hverju sinni. Á því hefur orðið mikill misbrestur. Til að skilja þá stöðu sem Íbúðalánasjóður er í nú er mikilvægt að hverfa aftur til kosninganna 2003. Í þeirri kosningabaráttu lofaði Framsóknarflokkurinn landsmönnum bæði skattalækkunum og 90% lánum þrátt fyrir efnahagsþenslu. Þær fyrirætlanir féllu síðan saman við tillögur fjármálaráðherra um að breyta fjármögnun sjóðsins til að laða að erlent fjármagn og lækka þannig vexti. Í kjölfarið var lögum um Íbúðalánasjóð breytt. Í stað húsbréfa voru íbúðabréf innleidd en þau voru óinnkallanleg á meðan lán sjóðsins voru uppgreiðanleg án uppgreiðsluálags, þvert á varnaðarorð sérfræðinga og eftirlitsstofnana. Veðhlutfallið var hækkað og vextir lækkuðu. Áhætta af rekstri sjóðsins jókst að sama skapi gríðarlega. Skuldabréfaskiptin eru að mati skýrsluhöfunda ein þau verstu mistök sem sjóðurinn hefur gert. Breytingarnar 2004 eru í skýrslunni túlkaðar sem markaðssókn Íbúðalánasjóðs og eru það orð að sönnu. Þetta var markaðssókn með ríkisábyrgð, markaðssókn með heildartapi sem numið gæti 270 milljörðum kr. Sá kosningavíxill fellur á kjósendur.

Innkoma bankanna á íbúðalánamarkað varð ekki til þess að stjórnvöld endurskoðuðu stefnuna, drægju úr umsvifum Íbúðalánasjóðs eða kæmu einhverjum böndum á útlán bankanna. Lán bankanna leiddu til uppgreiðslu á lánum Íbúðalánasjóðs sem aftur lánaði bönkum og sparisjóðum fé til að auka enn útlán þeirra. Rekstur Íbúðalánasjóðs var því ekki aðeins kominn í ógöngur heldur var hann orðinn að efnahagsvanda. Taumlaus þensla, hækkandi fasteignaverð, hærri lán og hærri veðhlutföll auk lækkandi vaxta er bakgrunnur þess skuldavanda sem mörg íslensk heimili hafa glímt við frá hruni. Það má því segja að kosningaloforð Framsóknarflokksins 2003 og 2013 falli vel hvert að öðru. Fyrst var lofað hærri lánum, þ.e. skuldum og tíu árum síðar á að lækka þær aftur.

Við breytingarnar 2004 gleymdist að hugsa hið félagslega hlutverk Íbúðalánasjóðs til enda. Það var í samræmi við þá stefnu sem mörkuð var með stofnun Íbúðalánasjóðs með lögum frá 1998 þegar verkamannabústaðirnir, félagslega eignaíbúðakerfið var lagt af. Í stað félagslegra markmiða var stefnan sú að lána mikið og til langs tíma. Allur almenningur féll að lokum undir þessa félagslegu skilgreiningu þegar 90% lán voru innleidd sem almenn regla. Uppbygging leigumarkaðar var ómarkviss og í raun stefnulaus. Útlánatap Íbúðalánasjóðs vegna leigufélaga frá stofnun hans árið 1999 er mikið enda markmiðið oft og tíðum að leysa vandamál í byggingariðnaði fremur en að bæta hag leigjenda.

Árangurinn af viðleitni Íbúðalánasjóðs til að bæta leigumarkað á Íslandi virðist því mun minni en tilkostnaðurinn og helst koma fram í útlánatapi sjóðsins. Þá dapurlegu niðurstöðu verða stjórnvöld að taka alvarlega, ekki með því að leggja árar í bát heldur með því að setja sér skýrari markmið og vinna að uppbyggingu leigumarkaðar af meiri festu en áður.

Virkur og öruggur leigumarkaður er án efa eitt brýnasta verkefni í húsnæðismálum næstu ára og þar þurfa samfélagslega ábyrgir aðilar að leika lykilhlutverk því að markmið húsnæðisstefnunnar á að vera húsnæðisöryggi og félagsleg samheldni en ekki einhliða gróðasjónarmið fjármálastofnana og verktaka.

Virðulegi forseti. Ég lagði ekki til rannsókn á Íbúðalánasjóði í þeim tilgangi að koma höggi á einstaklinga eða stjórnmálaflokka. Það verður þó vart komist hjá því að velta fyrir sér ábyrgð á ógöngum Íbúðalánasjóðs. Í skýrslunni er ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sögð samábyrg fyrir þeim breytingum sem gerðar voru árið 2004. Það er í samræmi við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um hrun bankanna. Þar viðurkenndi fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, Geir H. Haarde, að þessar breytingar hefðu verið mistök, en án þeirra hefði ríkisstjórn þessara flokka ekki verið mynduð. Núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson, hefur einnig viðurkennt að þetta hafi verið mistök.

Framsóknarflokkurinn hefur átt erfiðara með að viðurkenna að góður árangur flokksins í kosningunum 2003 hafi verið á mistökum byggður. Íbúðalánasjóður var um langt árabil tengdur Framsóknarflokknum. Viðskipti Íbúðalánasjóðs og Kaupfélags Skagfirðinga líta ekki vel út, svo mikið er víst.

Verkefnið nú er að horfa fram á veginn og læra af þeirri skýrslu sem hér liggur fyrir. Einn mikilvægasti lærdómurinn sem ég dreg af skýrslunni er að starfsemi Íbúðalánasjóðs verði að tengjast almennri stefnumótun í húsnæðismálum og þeim markmiðum sem stjórnvöld vilja ná til að tryggja húsnæðisöryggi og velsæld. Það er einnig mikilvægt að sátt sé um starf sjóðsins og breytingar gerðar með samráði stjórnar og stjórnarandstöðu. Þannig rækjum við best hlutverk okkar sem alþingismenn.