skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.
Hæstv. forseti. Við ræðum hér viðamikla rannsóknarskýrslu um Íbúðalánasjóð og hefur þegar margt ágætt verið sagt í þessari umræðu. Ég tek undir með hæstv. félagsmálaráðherra að við þurfum sameiginlega að leggjast yfir það hvernig við viljum skipuleggja þessi mál, þennan mikilvæga málaflokk, íbúðalánin, á komandi árum. Það er rétt. En nú erum við að fjalla um það sem liðið er. Þá dugar ekki að tala eins almennt, fara eins almennum orðum um málið, og hér var gert. Nú er talað um stjórnmálamenn almennt. Talað er um að framkvæmdarvaldið hafi brugðist. Talað er um að stofnanir stjórnsýslunnar hafi brugðist. Þessi skýrsla fjallar um það hvaða stjórnmálamenn, hvaða stjórnmálaflokkar og hvaða stofnanir brugðust. Um það eigum við að ræða. Það þýðir ekki að reyna að drepa þessari rammpólitísku umræðu á dreif með almennu orðfæri af þessu tagi.
Það sem gerðist var að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn brugðust í veigamiklum efnum á því árabili sem rannsóknarskýrslan tekur til. Þetta er staðreynd. Framsóknarflokkurinn fór með þessi mál, en Sjálfstæðisflokkurinn kom einnig að þeim aftur og ítrekað og með skipulegum hætti í gegnum fjármálaráðuneytið. Þessir flokkar og stjórnmálamenn verða að axla sína ábyrgð. Við þurfum að horfa gagnrýnið á það hver hún var.
Það kemur vissulega fram í þessari skýrslu að mjög alvarlegar brotalamir voru í stjórnsýslunni og í eftirlitskerfinu, en pólitíkin hafði einnig komið þar að málum. Með lagabreytingunni 1998, sem gerð var á húsnæðiskerfinu, var pólitískt áhrifavald Alþingis skert með því að koma í veg fyrir að fulltrúar Alþingis ættu aðild að Íbúðalánasjóði, heldur yrði það einvörðungu gegnum flokkspólitíska stýringu. Það er sú flokkspólitíska stýring sem hefur síðan ráðið ferðinni í þessum efnum.
Síðan er það hitt, og þar er ég ekki á einu máli með skýrsluhöfundum, að mér finnst skorta á að málin séu sett í rétt sögulegt samhengi. Á þeim árum sem rannsóknarskýrslan tekur til voru mikil átök í þjóðfélaginu um hvert ætti að beina þessum málum. Fjármálakerfið og bankarnir vildu ná Íbúðalánasjóði til sín. Félagsleg öfl höfðu hins vegar barist fyrir því í langan tíma að auka aðgengi að ódýrara fjármagni fyrir fólk sem var að byggja eða kaupa íbúð. Þess vegna fagnaði ég því á sínum tíma þegar talað var um 90% lán og fannst slæmt að þau urðu aldrei að veruleika. Það er alrangt að tala um 90% lán nema á örfáum íbúðum sem fólk var að kaupa; litlar íbúðir í fyrsta skipti. Þetta var miklu lægra. Þetta kom aldrei til framkvæmda sem slíkt. Það var nefnilega rangt. Það gerðist ekki. Mér fannst það vera fagnaðarefni, enda er það búið að vera keppikefli allra félagslegra afla að reyna að ná vöxtum niður á íbúðalánum og íbúðarhúsnæði umfram það sem verið hefur í landinu.
Mér finnst skýrsluhöfundar ganga of langt í því að taka upp hanskann fyrir fjármálakerfið sem reyndi að koma Íbúðalánasjóði út af fjármálamarkaði með því að kæra til ESA. Þegar ESA-álitið lá fyrir, eða álit frá Brussel, þegar búið var að gefast upp við að koma Íbúðalánasjóði út af lánamarkaði, hóf Búnaðarbankinn að lána sín 90% lán. Þá byrjar hringekja sem hefði aldrei átt að snúast með þeim hætti sem varð. En þegar talað er um markaðssókn Íbúðalánasjóðs vil ég heldur tala um markaðsvörn vegna þess að það var verið að reyna að færa sig yfir í þessar lendur.
Fjármálakerfið — þegar talað er um að bankarnir hefðu vilja og getu til að fara inn á þennan markað, erum við að tala um stofnanir sem voru í þann veginn að gerast gerspilltar og urðu þess síðan valdandi að setja þessa þjóð og efnahagskerfið á hliðina. Þessir aðilar eru ekki án ábyrgðar og ekki heldur hinir sem léku á þetta kerfi.
Það er rétt, sem hæstv. ráðherra sagði, að fimmtungur útlána úr Íbúðalánasjóði gekk til lögaðila, margra, góðra og gegnra fyrirtækja og aðila sem sinntu félagslegu hlutverki. En þarna voru líka óprúttnir aðilar á ferð sem tóku lánin sem verktakar, stofnuðu síðan leigufélög, seldu sjálfum sér og áttu þau einnig — þau fóru síðan á hausinn og fimmtungur þessara lána var til lögaðila úr Íbúðalánasjóði, en 40% tapsins skrifast á þessa aðila.
Í þessari skýrslu finnst mér horft fram hjá tíðaranda sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks átti illu heilli drjúgan hluta í að skapa á þessum árum í landinu, tíðaranda græðgi, svika og svindls. Það gagnrýni ég. En hitt tek ég undir að menn hefðu átt að sýna miklu meiri aðgætni. Það er nokkuð sem við eigum eftir að fara miklu nánar í þegar hringekjan, sem ég vék að áðan, byrjaði að snúast, en hún gekk út á það að fólk fékk heimild til að endurgreiða lánin úr Íbúðalánasjóði þegar bankarnir voru komnir af stað við að undirbjóða þann sjóð, en Íbúðalánasjóður gat ekki á sama tíma losað sig við sínar lánveitingar. Íbúðalánasjóður fer síðan að afla lánsfjár hér og erlendis og heldur áfram slíkum lántökum langt eftir að þörfin hættir að vera fyrir hendi. Maður skilur ekki hvernig stendur á því að sú sjálfsstýring er ekki tekin úr sambandi. Þar skortir ábyrgð og þar skortir eftirlit.
Alla þessa þætti eigum við eftir að gaumgæfa miklu betur og þurfum að gera í sameiningu. Það dugar ekki að drepa þessum málum á dreif með því að tala um alla stjórnmálamenn, alla stjórnmálaflokka, framkvæmdarvaldið, við brugðumst öll. Við gerðum það ekki. Það er alrangt. Hér stóðu menn í pontu mánuðum saman, árum saman, og deildu um þessi mál.
Þótt við höfum mörg fagnað því þegar komið var með 90% lán — ég gerði það og var að vonast til að þau yrðu að veruleika sem þau aldrei urðu, aldrei nokkurn tímann. Ég fagnaði því líka þegar hillti undir að lægri vextir kæmu á húsnæðislán. Mér fannst það gott. En það var fjármálakerfið, gerspillt kerfi, sem gróf undan þessum tilraunum. Það er þessu sem skýrsluhöfundar horfa fram hjá, þykir mér.
Núna, þegar ég heyri Sjálfstæðisflokkinn og fulltrúa hans þenja sig á síðum blaðanna, í Morgunblaðinu í morgun eða í gær, um að nú þurfi að fullkomna verkið að einkavæða íbúðalánakerfið, segi ég: Nei, þá umræðu eigum við eftir að taka.
Það urðu ekki þessi kaflaskil sem skýrsluhöfundar tala um 1999 sem menn vilja vera láta. Staðreyndin er sú að hinn félagslegi þáttur íbúðalánakerfisins var stórveiktur á 10. áratugnum. Vextir á verkamannabústaðalánum voru 1%, en í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks var farið með þá vexti upp í 3% og upp í 3,5%. Þannig er hinn félagslegi þáttur veiktur.
Það er félagslegur þráður og taug í Íbúðalánasjóði, því eins og hæstv. ráðherra benti á voru bankarnir á þessum tíma hættir að lána til erfiðra staða, staða þar sem fasteignamarkaðurinn átti í erfiðleikum. Þar kom til kasta Íbúðalánasjóðs og hann sinnti sínu félagslega hlutverki þar. Það sem menn hafa síðan alltaf verið að reyna að gera er að þrengja hlutverk Íbúðalánasjóðs þannig að hann sinni bara erfiðum svæðum sem kallað er eða tekjulægsta fólkinu. En við hin höfum mörg viljað að hann þjónaði landsmönnum öllum. Hvers vegna? Vegna þess að lánsfjármagn sem Íbúðalánasjóður kemur til með að afla ræðst af þeirri áhættu sem hann stendur frammi fyrir. Ef búið er að gera hann sjálfbæran eins og ætlunin var, með lagabreytingunni á sínum tíma, og hann á bara að sinna áhættulánveitingum verður fjármagnið til hans dýrara. Ef hins vegar landsmenn allir sameinast um þennan sjóð eru allar forsendur til að veita lánsfjármagn almennt til íbúðalána á lægri vöxtum en ella.
Hæstv. forseti. Ég vara við þeim merkjasendingum sem við heyrum frá fjármálakerfinu og helstu postulum þess í Sjálfstæðisflokki. Ég á eftir að hlusta betur eftir röddum úr Framsóknarflokknum hvað þetta snertir. En ef ríkisstjórnin ætlar að fara að grafa enn frekar undan því félagslega í okkar húsnæðiskerfi, þá segi ég: Það verður okkur að mæta.