skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.
Virðulegi forseti. Sumir hlutir breytast alla vega aldrei og síðasta ræða hv. þingmanns er gott dæmi um það. Ég held ég hafi hlustað á ræðu hv. þingmanns fyrir tíu árum, ég held hún sé nokkurn veginn alveg eins. Ég var að vonast til þess — og fannst ræður þeirra sem hér töluðu á undan gefa tilefni til að ætla það — að við værum kannski komin á þann stað að við mundum fara málefnalega yfir staðreyndir málsins og draga ályktanir út frá því. En ef umræðan verður svona erum við komin í skotgrafirnar strax. (Gripið fram í.) — Ég fagna frammíköllum, ég var farinn að sakna þess að það væri ekki komið. (Gripið fram í.) Það voru liðnar 40 sekúndur, virðulegi forseti, og hv. þingmaður var ekki búinn að kalla fram í. Það er gott að það er komið strax núna.
Það er mjög gott að fá þessa yfirgripsmiklu skýrslu í þessu máli. Í henni er mjög mikið af upplýsingum. Hún er mjög hörð. Þetta er svört skýrsla. Ég held að í þessu máli gætum við lært það númer eitt að við eigum að viðhafa gagnrýna hugsun, því að fram til þessa hafa ræðurnar um húsnæðismál og Íbúðalánasjóð verið nákvæmlega eins og ræða hv. þingmanns hér á undan. Mikil gífuryrði og ef einhver vogar sér að tala um Íbúðalánasjóð þá er sko mönnum að mæta, þá er hnefinn á lofti. Svo eru menn bara handbendi, ég veit ekki hverra.
Þessi ræða hv. þingmanns sparaði mér nokkrar mínútur því að ég ætlaði að reyna að fara yfir það hvernig umræðan hefur verið fram til þessa, en hún hefur verið nákvæmlega eins og ræða hv. þm. Ögmundar Jónassonar. Það er kannski stærsta ástæðan fyrir því að við erum í þessum gríðarlega vanda.
Ég vil trúa því að það sé sama í hvaða flokki við erum þá höfum við það að markmiði að Íslendingar geti búið í góðu húsnæði. Er það ekki grunnurinn? Að þeir hafi aðgang að lánsfé eða aðgang að leiguhúsnæði. Er það ekki grunnurinn sem allir eru sammála um? Er það síðan ekki næsta verkefni að við byggjum kerfi sem gerir að verkum að fólk geti eignast sitt húsnæði eða leigt eftir því sem það vill? Er það ekki grunnurinn? Og er það ekki líka þannig að við viljum ekki búa til kerfi þar sem áhættan er slík að hún lendi öll á skattgreiðendum ef illa fer? Erum við ekki sammála um þetta?
Virðulegi forseti. Við höfum ekki nálgast hlutina þannig. Þegar við höfum rætt þessa ríkisstofnun hafa menn sett sig í algjöra varðstöðu. Það er stærsta ástæðan fyrir því að við erum komin þangað sem við erum komin. Það er stærsta einstaka ástæðan. Það er stærsta einstaka ástæðan fyrir því að þessir gríðarlegu fjármunir hafa tapast. Það er stærsta einstaka ástæðan fyrir því að skuldbindingin lendir á fólkinu í landinu.
Það er líka sérstakt mál að skoða — og ég er ansi hræddur um að það eigi ekki bara við um Íbúðalánasjóð — hvers vegna ekki hefur verið brugðist betur við en raun ber vitni þegar viðvörunarljósin hafa blikkað hvað eftir annað, eins og kemur fram í þessari skýrslu, bæði innan stofnunarinnar og með skilaboðum utan að. Það er í raun algjörlega ótrúlegt. Við breytum því ekki sem á undan er gengið en ég er ansi hræddur um að ástandið sé ekki bara svona þarna. Og við megum ekki láta þetta gerast aftur.
Ég held ég hafi fyrst tekið þátt í deilum um þetta árið 1995 við fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra og mín skoðun er sú að við séum með húsnæðiskerfi sem er ekki skynsamlega uppbyggt. Það hvetur fólk til að skuldsetja sig. Það er hvatinn. Annars vegar með því háa lánshlutfalli sem tónninn er gefinn um í lögum um Íbúðalánasjóð og sömuleiðis varðandi vaxtabæturnar.
Þegar við skoðuðum þetta á sínum tíma árið 1995 — og við höfum tekið vaxtabótaframlögin og sömuleiðis framlög til þáverandi Húsnæðisstofnunar — var þetta samsvarandi því að við gætum styrkt hverja fjölskyldu, sem var að kaupa sína fyrstu íbúð, um 2,8 milljónir, á verðlagi þess árs. Ég tel að við eigum að styðja fólk til að eignast húsnæði en ég tel að við eigum að gera það með öðrum og markvissari hætti þannig að við lendum ekki í þeirri stöðu sem við erum í núna.
Þegar við tölum um félagslega þáttinn erum við annars vegar að tala um fólk sem er með lægri laun og sömuleiðis um svæði úti á landi sem stofnanir eru ekki tilbúnar til að lána á. Þetta er ekki séríslenskt mál. Þetta er eitthvað sem fólk glímir við í öllum þjóðfélögum. En almenna reglan er sú að menn hafa mætt slíkum aðstæðum sérstaklega. Það er það sem við eigum að gera og hefðum átt að gera.
Við erum með versta kerfi sem mögulegt er. Við erum með ríkisstofnun sem er að lána til fólks og fyrirtækja. Þegar útlánin ganga ekki upp, eins og komið hefur á daginn, vegna þess að allt kerfið gengur út á að fasteignir haldi endalaust áfram að hækka, er reikningurinn sendur á skattgreiðendur. Það er margoft búið að vara við þessu. Þegar menn bentu á þessar augljósu staðreyndir, og sáu þó ekki fyrir þennan svakalega skell, fengu menn ræðu eins og ræðuna frá hv. þm. Ögmundi Jónassyni. Það er ekki gott, virðulegi forseti. Ég vil trúa því að hv. þingmaður, eins og aðrir, vilji vel en við verðum að taka umræðuna á dýptina. Við verðum að fara yfir það hvað fór miður og hvernig við getum búið til kerfi sem nær þeim markmiðum sem við erum sammála um.
Hér ætla menn, og finnst það bara gott, að taka einn flokk, jafnvel tvo, fyrir af því að allt það sem miður fór á umræddu árabili, væntanlega á síðasta kjörtímabili líka, er Sjálfstæðisflokknum að kenna, ekki bara hér á Íslandi heldur í öllum öðrum löndum líka. Og við þurfum að vanda okkur og taka aðeins betur á, sérstaklega í alþjóðamálum. Ég hef miklar áhyggjur af bankakreppunni í Evrópu og ég vil fara yfir það með formanni Sjálfstæðisflokksins við gott tækifæri hvað við ætlum að gera í því.
En hér var umræða í þinginu þegar þessar breytingar áttu sér stað. Menn nefna réttilega að Framsóknarflokkurinn gerði það að skilyrði fyrir því að fara í ríkisstjórn að þetta mál næði fram að ganga. Hvað gerðist í þingsalnum? Hvað gerðist í nefndinni? Hvað gerðist í opinberri umræðu? Framsóknarflokkurinn var húðskammaður. Hverjir skömmuðu Framsóknarflokkinn? Það voru hv. þingmenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, fyrir það að ganga ekki lengra. Ég held að menn þurfi nú kannski aðeins að líta í eigin barm ef menn á annað borð eru að leita að pólitískri ábyrgð.
Hv. þm. Ögmundur Jónasson flutti þá eldræðu eins og venjulega og lagði það sérstaklega til að lánshlutfallið yrði hækkað, þ.e. að allt of skammt væri gengið í því að bjóða 90% lán. Það er staðreynd sem liggur fyrir og ekkert orðskrúð í þessum stóli mun breyta þeirri staðreynd.
Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sagði þá, með leyfi forseta:
„Ég held að staðan sé raunverulega sú að hæstv. ráðherra“ — þ.e. hæstv. ráðherra félagsmála, Árni Magnússon — „hafi verið píndur af Sjálfstæðisflokknum til að ganga ekki lengra varðandi þá breytingu sem hér er að ganga í gegn um hækkun á lánshlutfalli.“
Allir þingmenn stjórnarandstöðunnar þá tóku undir þetta. Ég held að það megi gagnrýna okkur sjálfstæðismenn en það sem við áttum að gera var að standa fastar á okkar skoðun í þessu. Það er það sem við hefðum átt að gera.
Umræðan, og ég vona að við verðum aldrei á þeim stað aftur, var þannig — ég var nú bara að fletta þessu og ég hvet fólk til að fletta þessari umræðu, það er hægt að gera það á netinu, skoða hvað menn sögðu á þessum tíma. Ég var sérstaklega skammaður í þessari umræðu og talið að ég væri að boða bankakreppu. Ég var ekki að því. Ég ætla ekki að halda því fram að ég hafi séð bankakreppuna fyrir, ég gerði það ekki. En eins og öllum sem þetta mál skoðuðu áttaði ég mig á því að ákveðin hætta var þarna á ferðinni. Ég benti á það að í öllum þeim löndum sem við berum okkur saman við halda fasteignir ekki endalaust áfram að hækka. Ég var skammaður blóðugum skömmum fyrir þetta af hv. þingmanni Samfylkingarinnar. Það væri augljóst að ég væri að slá varnagla við þetta mál sem er og verður ekki einungis skellt á Framsóknarflokkinn.
Virðulegi forseti. Við höfum mikið verið að ræða það hvað gerðist á þessum árum 2004, 2005 og 2006. En spurningin er þessi: Lærðum við eitthvað eftir því sem lengra leið á? Hefur enginn áhyggjur af því að útlánamet var sett í júní 2008 hjá Íbúðalánasjóði? Ég veit ekki hvort það hefur verið reiknað sérstaklega hvað varð af þeim fjármunum en ég er hræddur um að það tap sé ansi stórt.
Ég tók þetta hér upp hvað eftir annað, spurðist fyrir um Íbúðalánasjóð, á síðasta kjörtímabili og var ekki einn um það. Hvað gerði sú ríkisstjórn eftir allt sem á undan var gengið, eftir bankahrun o.s.frv., til að draga fram stöðu Íbúðalánasjóðs, meta hana og til dæmis bara upplýsa um hana og setja hana í ríkisreikning?
Virðulegi forseti. Það er kallað hér ýmislegt en við erum ekki búin með það verkefni. Það er ekki búið. Nú er okkar verkefni annars vegar það að taka umræðuna eins og minn ágæti félagi, hv. þm. Ögmundur Jónasson, gerði hér áðan. Við getum gert það, við erum í góðri þjálfun með það, það er eitthvað sem við getum gert. Eða að við reynum að fara í gegnum þessa skýrslu og læra af henni. Ef við gerum það er ég sannfærður um að minnstar líkur eru á því að slíkt gerist aftur. (Gripið fram í.) En við verðum að horfast í augu við staðreyndir. Þó svo að sumum finnist kannski erfitt að horfast í augu við það sem þeir sögðu og gerðu og lögðu til, er það eitthvað sem er nauðsynlegt.
Ég held til dæmis að það væri afskaplega skynsamlegt að líta til þeirra landa sem við berum okkur saman við og skoða hvernig á málum er haldið þar. Þegar þessi umræða var tekin á sínum tíma, og ég hef nú oft tekið þessa umræðu, skoðuðum við það hvernig við værum í samanburði við aðrar þjóðir, sérstaklega Norðurlöndin. Engin þjóð hefur átt jafn stóran húsnæðisbanka mér vitanlega og við Íslendingar. Allar þær ræður sem hér voru fluttar miðuðu að því að styrkja þyrfti samkeppnisstöðu Íbúðalánasjóðs í samkeppni við bankana. Það getur ekki verið markmið. Það hlýtur að vera markmiðið að fólkið fái lánin á sem bestum kjörum. Það hlýtur að vera markmiðið. Tölum þá út frá því, því ef við erum með fleiri svona ríkisstofnanir þar sem eftirlitið er ónógt, þar sem menn bregðast ekki við þegar viðvörunarljósin blikka, þegar við í þessum sal búum til reglur sem gera að verkum, og setjum ríkisábyrgð á skuldbindingar, að þegar eitthvað miður fer, og það gerist nú því miður stundum, fer allur reikningurinn á skattgreiðendur þessa lands. (ÖJ: Hvernig var eftirlitið í bönkunum?) Þá erum við ekki að stíga skynsamleg skref. (ÖJ: Hvernig var eftirlitið í bönkunum?)
Virðulegi forseti. Þetta snýst ekki um það eins og hv. þingmaður kallar hér fram, hvort það hafi verið eitthvað verra annars staðar. Og af því hv. þingmaður, eins og hv. þingmenn Vinstri grænna, talar eins og hann viti allt vil ég bara minna á að þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var stofnuð sáu Vinstri grænir málið ekki betur fyrir en við hin, þeir gerðu sérstaklega grín að þeim hv. þingmanni sem þá var viðskiptaráðherra. Hann var með svo lítið og ómerkilegt ráðuneyti.
Virðulegi forseti. Við sáum þessa hluti ekki fyrir. En sem betur fer er það nú þannig að skellurinn, þessi stóri skellur, sem er einn af þeim stærri í alþjóðlega bankahruninu, sem varð hér á Íslandi, lenti að stórum hluta á þeim sem áttu þá banka, þeir fengu ekkert, og sömuleiðis þeim sem fjármögnuðu bankana, og er það bara sanngjarnt og eðlilegt. Þegar þessi banki féll, og Íbúðalánasjóður er fallinn, við áttuðum okkur alveg á því, lendir sá skellur allur á íslenskum skattgreiðendum. Það er verk Alþingis. Þannig er það bara. Og ég vil ekki trúa því að neinn hafi viljað það, ekki hér inni eða neins staðar annars staðar.
Það er ekki nóg að leggja málin þannig fram að menn vilji allt fyrir alla gera og þar af leiðandi sé hægt að réttlæta alla hluti. Ég held að við höfum öll svipuð og jafnvel sömu markmið og ég held að við eigum að nota þessa skýrslu sem grunn að því að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur, fara gaumgæfilega yfir það sem miður hefur farið og fara yfir aðra þætti í okkar kerfi til að kanna hvort svo geti raunverulega verið að þetta sé ekki einsdæmi, hvort það sé virkilega þannig að yfir vofi hætta — vonandi ekki sambærilegt áfall, sambærilegur skellur. Það skiptir ekki máli þó þeir væru minni. Mér sýnist að sérstaklega þurfi að líta til eftirlitsþátta og hvar ábyrgð liggur.
Ég vonast til þess að við berum gæfa til að vinna þetta þannig að við náum sem mestum árangri. Ég sé það á hv. þm. Ögmundi Jónassyni að hann er orðinn allur annar eftir þessa umræðu. (Gripið fram í.) Þetta verður miklu betri og upplýstari og málefnalegri umræða en við höfum tekið um húsnæðismál í gegnum árin og áratugina. Ef svo er er enginn vafi á því að við náum betri árangri.