142. löggjafarþing — 20. fundur,  3. júlí 2013.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

[14:16]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegur forseti. Eftir bankahrunið 2008 var mikið talað um skort á eftirliti og skeytingarleysi sem ákveðna grunnþætti í sjálfu hruninu. Talað var um Fjármálaeftirlitið, Seðlabankann, stjórnvöld og fleiri stofnanir sem áttu að sjá til þess að þessir hlutir væru í lagi. Nú hefur komið í ljós að skortur á eftirliti og skeytingarleysi hefur verið víðar. Aftur dúkka upp nokkurn veginn þessir sömu aðilar ásamt fleirum þegar leitað er að þeim sem bera ábyrgð á slæmri stöðu Íbúðalánasjóðs. Stjórnvöld, Alþingi, Fjármálaeftirlitið, stjórn Íbúðalánasjóðs og starfsmenn, (ÖS: Og kosningaloforð.) — það er enginn undanskilinn.

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð er svört. Hún er áminning um það hvað gerist þegar eftirlitskerfið bregst, stjórn bregst, starfsmenn bregðast og síðast en ekki síst þegar stjórnmálamenn bregðast. (Gripið fram í: Hver stýrði þessu?) Þannig er það og síðan geta menn farið í endalausa samkvæmisleiki þar sem reynt er að finna þann sem ber meiri ábyrgð en næsti maður.

Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar er sjónum sérstaklega beint að því sem kallað er „viss vegferð stjórnvalda með sjóðinn árið 2004“. Sú vissa vegferð fólst í breyttum útlánum og fjármögnun þeirra. Húsnæðislánakerfið var lagt niður og íbúðabréfakerfi tekið upp með beinum peningalánum. Hámarkslánsfjárhæð lána var hækkuð og veðhlutfall lána Íbúðalánasjóðs hækkaði í allt að 90%. Skýrsluhöfundar benda á að þetta hafi verið í samræmi við kosningaloforð Framsóknarflokksins, loforð sem síðan fór í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Farið var að veita almenn 90% lán í desember 2004, en nokkrum mánuðum áður hafði viðbótarlánakerfi sjóðsins verið aflagt. Þegar hér var komið sögu höfðu bankarnir ruðst inn á markaðinn og boðið 100% lán án hámarkslánsfjárhæðar, á meðan Íbúðalánasjóður var með hámark á sínum lánum. Skyndilega voru lán Íbúðalánasjóðs ekki eins freistandi og fyrr og stórfelldar uppgreiðslur hófust þegar fólk vildi greiða lánin upp og færa sig yfir í bankana. Samtals tapaði Íbúðalánasjóður 54 milljörðum vegna uppgreiðslu lána og 103 milljörðum vegna svokallaðrar uppgreiðsluáhættu. Er það þá kosningaloforð Framsóknarflokksins sem var skaðvaldurinn, eða voru það fjármálastofnanir sem dældu peningum út án þess að taka eðlileg veð? Hvort kemur á undan, hænan eða eggið?

Sumir hafa viljað kenna kosningaloforði Framsóknarflokksins um 90% lánshlutfall um hvernig fór á sínum tíma. Fulltrúi rannsóknarnefndar Alþingis sagði hins vegar skýrt á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun að orsökin lægi annars staðar. Við skulum ekki gleyma því að íbúðaverð tók stökk þegar bankarnir fóru að veita 100% íbúðalán. Hafði verðið hækkað umtalsvert þegar Íbúðalánasjóður hóf að veita sín almennu 90% lán. Þessi 90% lán Íbúðalánasjóðs höfðu engin áhrif á íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu þar sem sjóðurinn veitti aðeins nokkra tugi slíkra lána þar. Þegar bankarnir komu inn á markaðinn náðu þeir hins vegar strax 80–90% markaðshlutdeild í íbúðalánum á nánast engum tíma.

Mér leikur líka forvitni á að vita af hverju Samfylkingin tók ekki á málefnum Íbúðalánasjóðs þar sem flokkurinn sá um málaflokkinn í heil sex ár. (Gripið fram í.) — Jóhanna Sigurðardóttir var félagsmálaráðherra 2007–2009, Ásta R. Jóhannesdóttir var félags- og tryggingamálaráðherra 2009, síðan sáu Árni Páll Árnason og Guðbjartur Hannesson um þennan málaflokk frá 2009–2013. Er ekki rétt að þetta fólk svari fyrir aðgerðaleysi sitt? Var það kannski bara almennt áhugaleysi og sinnuleysi? (Gripið fram í: Af hverju var ekki …? ) Hér áðan var sagt að ýmislegt hefði verið gert, en þetta ýmislegt var greinilega ekki nóg.

Ekki má heldur gleyma því að það var ákveðinn stuðningur við 90% hugmyndina árið 2004 frá nokkrum núverandi stjórnarandstöðuþingmönnum. Þegar beðið var eftir niðurstöðu frá Eftirlitsstofnun EFTA á sínum tíma, um hvort yfirleitt væri í lagi að veita 90% lán, kom fram tillaga frá þingmönnum Samfylkingarinnar, fyrrverandi forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, formanni þingflokks Samfylkingarinnar, Helga Hjörvar, og varaformanni flokksins, Katrínu Júlíusdóttur, þar sem þau hvöttu til þess að þegar í stað yrði boðið upp á slík lán, 90% lán, þó að niðurstaða Eftirlitsstofnunar EFTA lægi ekki fyrir.

Helgi Hjörvar, sem hér kemur upp á eftir væntanlega, hafði þetta að segja um 90% lánin árið 2004, með leyfi forseta:

„En ég held að það sé mikilvægt vegna fasteignamarkaðarins og væntinga í samfélaginu að ráðherrann staðfesti að það sé fyrirætlun ríkisstjórnarinnar, að því gefnu að eftirlitsstofnunin fallist á málið, að hér verði í boði á þessu kjörtímabili 90% lán, að hámarki 18 millj. kr., til íbúðakaupa þannig að markaðurinn og þeir sem eru í íbúðakaupahugleiðingum geti gengið út frá því sem vísu að gefi ESA grænt ljós verði þetta þær heimildir sem tiltækar verði íbúðakaupendum í síðasta lagi vorið 2007.“

Þetta var árgerð 2004 af Helga Hjörvar. Ég veit ekki hvað árgerð 2013 segir.

Að þessu sögðu er það alveg á hreinu að Framsóknarflokkurinn skorast ekki undan ábyrgð þegar kemur að stöðu Íbúðalánasjóðs. Teknar voru margar afdrifaríkar ákvarðanir þegar flokkurinn stóð á vaktinni, ákvarðanir sem voru dýrkeyptar. En það er nauðsynlegt að fjalla um málið af sanngirni, en ekki með innantómum upphrópunum.

Í þessari umræðu hefur verið farið yfir margt af því sem fór aflaga og það eru gríðarlegar upphæðir sem hafa tapast. Rannsóknarnefndin segir að sinnuleysi stofnana stjórnsýslunnar og vanþekking innan sjóðsins, auk pólitískra áhrifa og hagsmunatengsla, hafi verið dýrkeypt. Bókfært tap Íbúðalánasjóðs sé 100 milljarðar kr. frá stofnun sjóðsins til ársins 2012 miðað við verðlag þessa árs. Óbókfært tap nemi allt að 170 milljörðum kr. að núvirði. Heildartap Íbúðalánasjóðs gæti því numið allt að 270 milljörðum kr. Þetta eru gríðarlegar upphæðir. Hvað fór úrskeiðis?

Íbúðalánasjóður ákvað í desember 2004 að ávaxta umframfé sitt með lánssamningum við banka og sparisjóði. Þetta voru 95 milljarðar kr. á árinu 2005. Þetta þýddi einfaldlega að bankarnir gátu lánað enn meira fé en áður, sem leiddi síðan til þess að enn meiri uppgreiðsla varð hjá Íbúðalánasjóði.

Rannsóknarnefnd Alþingis segir að flest bendi til þess að þessar lánveitingar til banka og sparisjóða hafi verð ólögmætar. Það er því athyglisvert að ungur og upprennandi lögmaður, Árni Páll Árnason, skilaði á sínum tíma lögfræðiáliti þar sem hann sá ekkert athugavert við þessa samninga. Þessi sami Árni Páll Árnason hafði unnið mikið fyrir sjóðinn missirin á undan, (Forseti hringir.) ekki síst í tengslum við umdeild skuldabréfaviðskipti sem kostuðu sjóðinn (Forseti hringir.) meira en 20 milljarða kr.

(Forseti (KLM): Má ég minna hv. þingmann á að honum ber að ávarpa þingmann á tilskilinn hátt.)

Tek það til mín.

Rannsóknarnefndin sagði líka að ekki hefði verið hlustað á Ríkisábyrgðasjóð sem ítrekað varaði við stöðu Íbúðalánasjóðs, að starfsemi Íbúðalánasjóðs hafi ekki bara náð til lánveitinga til húsnæðiskaupa og undir formerkjum áhættustýringar var sjóðurinn rekinn sem fjárfestingarbanki, fjármagnaður með útgáfu verðtryggðra skuldabréfa, að stjórn Íbúðalánasjóðs hafi ekki sinnt hlutverki sínu og stjórnarmenn hefðu ekki haft þekkingu á verkefninu. Og að Íbúðalánasjóður hafi lánað byggingasamvinnufélögum, sjálfseignarstofnunum, byggingaverktökum og öðrum fyrirtækjum og stofnunum, 122 milljarða kr. á árunum 1999–2012. Það er fimmtungur af heildarlánveitingum sjóðsins á þeim tíma. Kröfur um veð voru litlar og háar upphæðir töpuðust.

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis er mikið og ítarlegt plagg. Skoða verður rækilega hvað fór úrskeiðis. Síðan verður að byggja nýtt húsnæðiskerfi til framtíðar. Við verðum að horfa til framtíðar, jafnt í málefnum Íbúðalánasjóðs sem öðrum.

Það þarf að loka endanlega á pólitísk ítök og hagsmunapot stjórnmálamanna. Framsóknarflokkurinn hefur einn flokka stigið það skref að skipta algjörlega um forustu eftir hrun. Enginn núverandi þingmanna flokksins sat á þingi þegar afdrifaríkar ákvarðanir voru teknar í málefnum Íbúðalánasjóðs árið 2004. Sá sem hefur mestu starfsreynsluna kom inn árið 2007, síðan komu nokkrir inn árið 2009. Uppgjör við fortíðina má ekki bara eiga sér stað úti í þjóðfélaginu, heldur þarf það líka að eiga sér stað í stjórnmálaflokkunum sjálfum. (Gripið fram í: Rétt) Þar getur Framsóknarflokkurinn borið höfuðið hátt.

Það ber að þakka fyrir þessa skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þetta er mikið plagg sem getur orðið góður vegvísir inn í framtíðina.