skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.
Virðulegi forseti. Ég er eins og aðrir mjög hugsi yfir þessari skýrslu og get ekki beinlínis sagt að ég hlakki til að lesa hana en það er óhjákvæmilegt verkefni. Ég ákvað um jólin að lesa skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis orð fyrir orð og er rétt hálfnuð og ég verð að segja að lesturinn hefur valdið mér ómældu hugarangri og reiði.
Mig langar aðeins að nota tækifærið og rifja upp andrúmsloftið sem ríkti í þessu landi upp úr aldamótunum síðustu. Það var vissulega barnsleg bjartsýni sem ríkti og ofurtrú á fjármálakerfið alls staðar, það var ekki bundið við Ísland en við tókum þetta samt alveg alla leið. Við héldum því beinlínis fram að við hefðum einhverja sérstaka hæfileika á sviði viðskipta, stæðum jafnvel framar öðrum þjóðum. Við vorum áhættusækin og það var talinn kostur. Þegar gagnrýnisraddir fóru að berast frá útlöndum var ráðist í átak til að leiðrétta þennan misskilning. Við réðum erlendan ímyndarsérfræðing, mjög virtan, og hann kynnti niðurstöður starfshóps síns á viðskiptaþingi undir yfirskriftinni „Ísland best í heimi“. Þetta var árið 2007, kemur kannski ekki á óvart. Í kjölfarið var síðan skipuð nefnd um ímyndarmál sem átti að skoða hvernig styrkja mætti ímynd landsins.
Ástæðan fyrir því að ég rifja þetta upp hérna er sú að ef við erum ófær um að líta í eigin barm og taka gagnrýni alvarlega breytist ekki neitt. Og ef við svo mikið sem leyfum okkur að trúa því eitt augnablik að við séum eitthvað merkilegri en aðrar þjóðir, að við búum yfir einhverjum yfirburðum, skiptir engu máli hvað við fáum mörg þúsund blaðsíður í formi rannsóknarskýrslna, það mun ekkert breytast. Hv. þm. Brynhildur S. Björnsdóttir kom inn á það áðan hversu mikilvægt það er að við séum auðmjúk og tökum gagnrýni alvarlega og ég ítreka það og tek undir málflutning hennar.
Ég er oftast bjartsýn og trúi því að hrunið hafi vakið okkur og að við getum og viljum læra af þessum mistökum. Við erum í raun heppin, það er gríðarlega dýrmætt að hafa mistökin skjalfest og geta beinlínis farið systematískt yfir söguna með það að markmiði að búa til betri og öruggari framtíð.
En svo þyrmir yfir mig og ég spyr: Munum við læra eitthvað? Við erum enn sama þjóðin. Hrunið var á okkar ábyrgð, það er sameiginleg ábyrgð okkar allra sem þjóðar. Það er ekki bara eitthvað eitt sem klikkar, það er meira og minna allt. Eftirlitið klikkar, eftirlitið yfir höfuð. Pólitískar ráðningar og stöðuveitingar gera illt verra, allt of oft virðast menn hafa verið að vasast í málum sem þeir höfðu ekki þekkingu á. Og ég segi menn vegna þess að þetta voru mikið til karlmenn.
Aðgerðaleysi var viðhaft þegar þurfti nauðsynlega að grípa til aðgerða en svo var mikil athafnasemi þegar betra hefði verið væri að draga andann og meta stöðuna, samanber breytingar á Íbúðalánasjóði 2004. Síðan finnst mér skína í gegn, eftir lestur á rannsóknarskýrslunni og svo þessari nýju skýrslu sem ég hef aðeins náð að glugga í, að það er allt of algengt að fólk haldi að einhver annar muni bregðast við. Hlutverk eru ekki skýr, ábyrgð er ekki skýr og samráð og heildarsýn er lítil.
Ég held að við séum samt öll sammála um að við þurfum og verðum að læra af þessari skýrslu, hvað sem það kostar. Það sem veldur mér áhyggjum er að skrifaðar hafa verið skýrslur sem vara við ákveðinni þróun en við hlustum ekki. Hvernig fór til dæmis með skýrslur erlendra greiningardeilda sem gagnrýndu stöðuna hér? Síðan rakst ég á daginn á skýrslu sem Seðlabankinn gaf út árið 2000 og heitir Fjármálakerfið: styrkur og veikleikar og þar er beinlínis fjallað um það hvernig eigi að koma í veg fyrir fjármála- og gjaldeyriskreppu. Þar er varað við öllu því sem átti eftir að gerast, þenslu, viðskiptahalla, útlánabólu, of mikilli styrkingu krónunnar til að nefna nokkur dæmi. Eftir lesturinn hugsaði ég: Ókei, við erum hérna með skýrslu sem segir okkur hvernig við eigum að forðast hrun og gjaldeyriskreppu — og við tókum meðvitaða ákvörðun um að gera allt þveröfugt.
Við verðum að lesa skýrslur og þessar upplýsingar sem við höfum og taka þær alvarlega. Þá komumst við vonandi á þann stað að við lesum skýrslur um fyrirbyggjandi aðgerðir og tökum mark á þeim og þá þurfum við engar rannsóknarskýrslur.