142. löggjafarþing — 20. fundur,  3. júlí 2013.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

[14:53]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Spakur maður sagði mér eitt sinn að maður ætti alltaf að hafa „frontinn“ í lagi. Það er sjálfsagt speki sem þykir sérstaklega mikilvæg í pólitík en einnig er oft sagt í pólitík að ekki sé ráð að líta til fortíðar heldur beri að horfa til framtíðar. Það er hin hryllilegasta stjórnmálaspeki sem virðist þó því miður vera einhvers konar almenn skynsemi. Í því sambandi langar mig að rifja upp árin 2003–2007 í víðara samhengi en út frá þessari skýrslu því að hún er birtingarmynd andrúmsloftsins á þeim tíma og vil ég vara sérstaklega við því að sá lærdómur verði ekki dreginn af þeirri umræðu sem hér á sér stað.

Því má halda til haga að þetta var í stjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks en gagnrýni mín varðar ekki einungis þá flokka, og reyndar ekki einungis Alþingi, heldur Ísland allt, samfélag okkar og menningu. Það virtust ekki margir finna fyrir því á þeim tíma en ég fann fyrir því. Maður sá ekki alveg hvað það var og gat ekki endilega komið því í orð en það var eitthvað óþægilegt, lúmskt, jafnvel undirförult en freistandi, eitthvað óheilbrigt og sjúkt við menningu okkar. Á þeim tíma voru það góð og gild tæki að tala efnahaginn upp og tala efnahaginn niður. Í fúlustu alvöru voru það lögmæt tæki. Það er einfaldlega rangt að viðvaranirnar hafi verið engar, þær voru hins vegar óvelkomnar. Viðvörunarljósin voru allsráðandi í umræðunni en af einhverjum ástæðum dugði það ekki til.

Ég vil nýta tækifærið og þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir að sannfæra mig endanlega í kringum 2006 eða 2007 um að stórhrun væri í vændum þegar hann fullyrti í sjónvarpsviðtali að krónan væri of sterk og hún hlyti að veikjast að einhverju leyti. Þá átti að vera augljóst, alla vega þeim sem höfðu mætt í tíma og unnið heimavinnu sína í besta háskóla heimsins, internetinu, að krónan gæti ekki lækkað lítillega, hún hlyti að hrapa. Sá sem hér stendur sá þetta fyrir. Hvers vegna ekki þeir aðilar sem stóðu að kerfinu? Jú, af sömu ástæðu og við stöndum nú frammi fyrir þessari skýrslu, því að fólkið sem stóð að kerfinu var blindað af vondri en umfram allt rangri speki: Að hægt væri að blekkja lögmálið um orsök og afleiðingu. Þeirri speki að til dæmis bjartsýni, kjarkur og þor kæmi í stað heilinda, athygli og ábyrgðar, að svo lengi sem „fronturinn“ væri í lagi væri allt í lagi.

Stjórnmálamenn voru skammaðir hatrammlega fyrir að láta hafa eftir sér nokkuð sem líkja mátti við svartsýni. Raunsæi og heiðarleiki voru orðin tabú. Við fengum gjörvallan efnahaginn að láni með hrokann einan að veði. Eftir stendur sú mikilvæga lexía sem ég vona að fólk fari að læra: Það er einfaldlega ekki nóg að hafa „frontinn“ í lagi.