142. löggjafarþing — 20. fundur,  3. júlí 2013.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

[14:56]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa skýrslu. Ég vil sérstaklega þakka þeim sem óskaði eftir því að hún yrði skrifuð, en um leið taka fram að við þingmenn Framsóknarflokksins studdum það í hvívetna. Það er okkur hollt, okkur sem nú erum á Alþingi, að líta okkur nær og læra af mistökum fortíðarinnar.

Hæstv. félagsmálaráðherra nefndi að þessi skýrsla gæti verið okkur leiðarljós inn í framtíðina og ég tek undir þau orð. Um leið og það er sagt verð ég samt að segja að það vantar ýmislegt í þessa skýrslu sem eftir á að hyggja hefði verið ágætt að þar hefði komið fram, til að mynda hvort um einhvers konar refsiábyrgð sé að ræða. Það var ekki kannað af nefndarmönnum. Ekki var beðið um að það yrði kannað og þeir töldu að það væri algjörlega fyrir utan hlutverk sitt.

Ég hafði líka talið að embættisverk ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokksins, frá árinu 2007 til 2009, væru til skoðunar. Ég skildi það þannig, í þeirri þingsályktunartillögu sem lögð var fram um málið, að það ætti að gera, en því miður litu skýrsluhöfundar svo á að það væri ekki sérstaklega til skoðunar. Þessi skýrsla fjallar því í meginatriðum um embættisverk sem unnin voru í kringum árið 2004. Ég hef reynt að kynna mér efni skýrslunnar eins og mér er unnt á stuttum tíma, en það vantar inn í hana. Við verðum að horfast í augu við það. Hún er, eins og öll önnur mannanna verk, ekki hafin yfir gagnrýni. (Gripið fram í: Nei.)

Við sem höfum tekið við keflinu eigum oft erfitt með að meta og gagnrýna gjörðir fyrirrennara okkar á þingi, hvað vakti fyrir þeim, hver var tíðarandinn og hver viðhorfin voru á þessum tíma. Ég tók mig til og fór aðeins yfir þær ræður sem fluttar voru á Alþingi þegar þessar ákvarðanir voru teknar svona til að sjá hvort þetta hafi eingöngu verið Framsóknarflokkurinn eins og ítrekað hefur verið gefið í skyn af þeim sem mælt hafa fyrir hönd stjórnarandstöðunnar — ekki öllum reyndar, svo að því sé haldið til haga — hvort aðrir hafi kannski stutt, verið sammála eða jafnvel viljað ganga lengra en tillögur voru um á þeim tíma.

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ágætt að fara yfir það jafnvel þó að hv. þm. Helga Hjörvar finnist óþægilegt að verið sé að taka út einhver nöfn eins og hv. þm. Karl Garðarsson gerði áðan í ágætri ræðu. Þar vitnaði hann eingöngu til þess sem kemur fram í skýrslunni sjálfri og er hér til umræðu. (Gripið fram í.) Hann vísaði líka til gagna sem liggja fyrir um gjörðir og viðhorf núverandi stjórnarandstöðuþingmanna á þessum tíma. Ég skil það svo sem ágætlega, þegar reynt er að koma höggi á Framsóknarflokkinn, að hv. þm. Helgi Hjörvar og fleiri ágætir þingmenn í þessum sal vilji ekki minnast þess sem þeir bæði sögðu og gerðu. Það er nefnilega því marki brennt að þeir vildu jafnvel ganga lengra. Ég ætla að koma aðeins seinna inn á það í ræðu minni, mér skilst að ég hafi ágætistíma.

Vandinn var að á þessum tíma átti ungt fólk í erfiðleikum með að kaupa sér húsnæði. Það er vandi sem við glímum við í dag. Ég vona að við séum öll sammála um að það sé vandi sem þarf að leysa. Leigumarkaðurinn er gríðarlega erfiður. Það er enn erfiðara fyrir ungt fólk að kaupa sitt fyrsta húsnæði.

Hér hafa margir komið og sagt að grípa þurfi til aðgerða, en ég hef ekki heyrt einn einasta stjórnarandstöðuþingmann koma með tillögur í þá veruna. Stjórnarandstaðan skilar einfaldlega auðu. Við höfum nefnt að við værum reiðubúin að skoða tillögur ASÍ, sem komu fram rétt fyrir kosningar, þær væru þess verðar að skoða. Hæstv. félagsmálaráðherra hefur upplýst að hún vilji koma á fót aðgerðahóp, samvinnuhóp, sem ég held að menn ættu að fagna gríðarlega þannig að við getum öll staðið að þeim breytingum sem þurfa að verða á húsnæðiskerfi Íslendinga. Það var ekki bara unga fólkið sem var í erfiðleikum, það var líka fólk sem var búsett úti á landi. Það var jafnvel stærri vandi.

Þá komum við inn á hið félagslega hlutverk sem Íbúðalánasjóður átti að gegna, það var að lána til þeirra einstaklinga sem vildu búa úti á landi. Það var og er væntanlega markmið okkar allra að reyna að hafa landið allt í byggð. Bankarnir voru ekkert á þeim buxunum að lána til þeirra einstaklinga sem áttu hús með lágu veði, því miður. Þannig var staðan. En þetta var ekki bara viðhorf Framsóknarflokksins. Þetta var viðhorf margra aðila og það er rétt að félagshyggjuflokkarnir, Framsóknarflokkurinn og vinstri flokkarnir, Vinstri grænir og Samfylkingin, voru sammála um að gæta þyrfti að þessum viðhorfum.

Þegar maður nefnir tíðarandann þurfum við líka að átta okkur á því hver staðan var. Staðan var einfaldlega þannig að nægir peningar voru í umferð eins og skýrsluhöfundar benda réttilega á, ekki bara hér á Íslandi heldur í hinum vestræna heimi. Því miður. Aðgangur að lánsfé var gríðarlegur, enda varð ekki bara bankahrun hér á Íslandi. Það var harður skellur hér en það varð víðar þó að okkur muni takast að komast fyrr upp úr þessu — kannski vegna þess að við búum við sjálfstæðan gjaldmiðil, sem betur fer. En við verðum að horfast í augu við að þetta er alþjóðlegt vandamál.

Á árinu 2004 var ákveðið að leggja niður húsbréfakerfið og íbúðabréfakerfið var tekið upp. Þeir þingmenn sem vildu hækka lánshlutfallið upp í 90%, þ.e. þeir þingmenn sem þá voru í meiri hluta, vildu fara varlega. Þeir vildu bíða eftir áliti ESA. Það vildu hv. þingmenn Samfylkingarinnar hins vegar ekki gera. Ég vona, virðulegi forseti, að mér sé heimilt að nafngreina þá aðila sem lögðu fram breytingartillögu á lögunum þess efnis að strax yrði ráðist í hækkunina. Það eru Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, og hv. þingmenn Helgi Hjörvar og Katrín Júlíusdóttir, núverandi þingmenn Samfylkingarinnar. (Gripið fram í.)(GuðbH: Hann er kominn með sökudólginn.)(Gripið fram í: Það er alveg ljóst.)

Ef þeir sem eru í stjórnarandstöðunni [Háreysti í þingsal.] mundu nú halda þræði (HHj: Mér finnst þetta …) og ég verð að (Forseti hringir.) gera þær kröfur, virðulegi forseti, að andsvör þeirra séu kannski (Gripið fram í.) jafn skemmtileg og þau voru hjá okkur í síðustu stjórnarandstöðu og kannski aðeins minna biturleg eins og vill því miður verða … (Gripið fram í.)[Hlátur í þingsal.]

En eins og staðan er núna, virðulegi forseti, held ég að það sé ágætt að halda þessu til haga. (Gripið fram í: Rétt.) Ég held það sé nefnilega ágætt (SSv: Rangt.) — er rangt að halda því til haga? (Gripið fram í: Nei, nei.) Er hv. þm. Svandís Svavarsdóttir að segja að það sé rangt að halda því til haga? (Gripið fram í.) Hverjir vildu raunverulega ganga lengra varðandi 90% lánin en þáverandi stjórnvöld? (Gripið fram í.)

Bíðið nú við. Við skulum halda aðeins áfram. Þessi tillaga kom til atkvæða á Alþingi. Með henni greiddu atkvæði — ég ætla að vona að hv. þingmenn sem sitja hér í sal bresti ekki í mikil ræðuhöld þó að ég nefni að hv. þingmenn Steingrímur J. Sigfússon, Össur Skarphéðinsson og Ögmundur Jónasson sögðu já, studdu þetta. Þetta eru bara einfaldlega gögn sem liggja fyrir hér á Alþingi. (Gripið fram í: Þau eru í skýrslunni.) — Eru í skýrslunni. Það er bara ágætt að fara yfir þetta.

Skýrsluhöfundar ákveða meira að segja — vegna þess að þeir vilja varpa ljósi á þann tíðaranda sem er í gangi — að nefna orðaskipti sem áttu sér stað á þessum tíma. Þar er vitnað í hv. þm. Össur Skarphéðinsson sem segir um hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson, með leyfi forseta:

„Hv. þingmaður talar með mjög neikvæðum hætti um hugsanlegar afleiðingar af þróuninni á íslenskum fasteignamarkaði og er augljóslega að lýsa því yfir að það gæti orðið bankakreppa. Eða lendum við ekki í bankakreppu, herra forseti, ef þessi niðursveifla á fasteignaverði sem hv. þingmaður var að lýsa í öðrum löndum verður líka hér?“

Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson svarar ásökunum Össurar á þá leið að hann vildi einungis fara yfir málið og vekja athygli fólks á áhættunni sem fylgdi því að taka 90% eða 100% lán. Mögulega hefði hann hrætt Össur til þess að sjá fyrir sér bankakreppu. Guðlaugur sagðist hins vegar engar áhyggjur hafa og hann sæi enga bankakreppu fyrir.

Svo, með leyfi forseta, segja höfundar skýrslunnar:

„Ef framangreind orðaskipti Guðlaugs og Össurar eru lýsandi fyrir þann anda sem ríkti á Alþingi á miðjum fyrsta áratug aldarinnar virðist ekki hafa mátt vekja athygli á eða ræða möguleika á óheppilegri þróun á fasteignamarkaði án þess að uppskera háðsglósur.“

Það er nú bara það sem við erum að reyna hér, við erum að reyna að varpa ljósi á það hvernig umræðan var á þessum tíma. Ég vona að okkur sé heimilt að gera það hér í þingsal án þess að hljóta sömu háðsglósur og hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, viðhafði á þessum tíma þegar hann var að lýsa yfir stuðningi við 90% lánin og hafði áhyggjur en … (ÖS: Ég er aldrei með neinar háðsglósur.)

Virðulegi forseti. Nú er komið að því sem er í raun stærsta vandamálið í þessu öllu saman, það var hinn svokallaði uppgreiðsluþáttur. Þar segja skýrsluhöfundar að mestu mistökin hafi verið gerð, það sé sérstaklega alvarlegur þáttur. Á þeim tíma sem veita átti heimild til uppgreiðslu á lánum frá Íbúðalánasjóði komu fram viðvaranir. Þær viðvaranir leiddu til þess að þáverandi ráðherra lagði til svokallað uppgreiðsluálag og þá mundu menn reyna með einhverjum hætti að stemma stigu við þeim uppgreiðslum sem svo raunverulega áttu sér stað.

Ég held að það sé ágætt, vegna þess að hv. þm. Ögmundur Jónasson kallaði hér eftir ábyrgð, að vísa til þess að BSRB, sem hann var formaður í á þeim tíma, hafði fyrirvara gagnvart 12. gr. frumvarpsins þar sem ráðherra er einhliða veitt heimild til að ákveða aukaþóknun sem rennur til ríkissjóðs ef lántakandi ákveður að hraða greiðslum eða greiða að fullu ÍLS-veðbréf.

Virðulegi forseti. Þetta er einfaldlega tíðarandinn sem var þegar þessar afdrifaríku ákvarðanir voru teknar. Ég er sannfærður um að ef umræðan væri á þessu plani, að Alþingi allt hefði gert mistök, að eftirlitsstofnanirnar hefðu brugðist í staðinn fyrir að vera í þessum pólitísku skotgröfum, um að allt sé þetta Framsóknarflokknum að kenna, gætum við hugsanlega komist eitthvað áfram — okkur gæti miðað áfram.

Það voru fleiri mistök gerð, virðulegi forseti. Það var þegar Íbúðalánasjóði, vegna þess að það söfnuðust gríðarlegir fjármunir þar sem Íbúðalánasjóður hafði ekki heimild til að greiða upp eigin skuldabréf, var veitt heimild til að lána bönkum og sparisjóðum. Hv. þm. Karl Garðarsson nefndi það í ræðu sinni að sá aðili sem hafði talið þennan gjörning löglegan væri núverandi formaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Árni Páll Árnason.

Þetta er orðrétt úr þessari skýrslu. Ég sé að hv. þm. Helga Hjörvar þykir miður að þetta sé nefnt í umræðunni. Þá spyr ég: Eru einhverjir fleiri kaflar í þessari skýrslu sem þola ekki dagsljósið? Eru einhverjir fleiri kaflar í þessari ágætu skýrslu sem ekki má ræða efnislega úr pontu Alþingis?

Hv. þingmaður heyrði það vel á fundi nefndarinnar í morgun að formaður hennar taldi að þetta hefði ekki staðist lög og vísaði í greinargerð Jóhannesar Sigurðssonar prófessors þar sem hann taldi að lánasamningar sem ÍLS gerði við banka og sparisjóði væru ólöglegir.

Virðulegi forseti. Ég get vel ímyndað mér að þetta sé óþægilegt. En eigum við að ræða þetta og hafa þetta uppi á borðinu? Eða eigum við að loka þetta ofan í kistu svona eins og þegar Samfylkingin kannast ekki við að hafa verið í ríkisstjórn á árunum 2007 til 2009?

Það er eitt sem fer í taugarnar á mér í þessari umræðu. Það skal bara sagt hreint út. Það er þegar núverandi stjórnarandstæðingar tengja saman kosningaloforðin 2003 og kosningaloforð Framsóknarflokksins á árinu 2013. Hv. þm. Helgi Hjörvar sagði að loforðin hefðu verið allt fyrir alla og það ætti að varast vegna þess að það mundi leiða af sér þenslu og aukinn kostnað annars staðar í kerfinu. Kosningaloforð Framsóknarflokksins eru ekki þannig. Það veit hv. þingmaður. Hann hefur væntanlega lesið loforð okkar. Ég ætla að fara yfir þau.

Það sem hins vegar var sagt í morgun var að almennar aðgerðir, eins og t.d. tillögur Samfylkingarinnar um að taka upp evru og fá bara lægri vexti fyrir alla, það eitt og sér getur leitt af sér stærra vandamál. (SII: … fyrir alla) Loforðin (SII: Þú ert bara að …) um að hægt sé að lækka hér vexti (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) í eitt skipti fyrir öll …

(Forseti (ÞorS): Engin samtöl við ræðumanninn.)

… standast enga skoðun. Við skulum bara ræða það fyrst hér var verið að hnýta út í kosningaloforð Framsóknarflokksins.

Ég spyr hv. þingmann: Það liggur fyrir að stór hluti heimila í landinu er í vanda, þeirra sem tóku verðtryggð lán. Hverjum var bjargað með neyðarlögunum svokölluðu? Voru það ekki þeir sem áttu peninga í banka? Þeir sem áttu peninga í peningamarkaðssjóðunum? Og Hæstiréttur dæmdi gengistryggðu lánin ólögmæt. Eftir situr þjóðfélagshópur sem við í Framsóknarflokknum höfum sagt mjög skýr og skilmerkilega að við ætlum að reyna að aðstoða af fremsta megni. Það er loforðið.

Bíðum nú við. Þá stöndum við frammi fyrir einu. Niðurstaða skýrslunnar er í raun ein. Hún er sú að þingmenn eiga að vanda sig. Þeir eiga að taka sér tíma og vanda sig.

Við ákváðum að skipa nefndir til að reyna að framfylgja þessum loforðum. Það var gagnrýnt. Efndir strax. (SII: Þið eruð búnir að gaspra í fjögur ár …) Efndir strax. (SII: Búnir að gaspra í fjögur ár.)Virðulegi forseti. (Gripið fram í: Samfylkingin í ríkisstjórninni …) Þetta var þannig.

Virðulegi forseti. Þegar í ljós kom að staða ríkissjóðs er verri en áður var talið og fjármálaráðuneytið vill gefa sér (Gripið fram í.)tíma (Gripið fram í.) til að fara yfir fjárlögin (SII: … Íbúðalánasjóðs …)

(Forseti (ÞorS): Engin samtöl við ræðumann.)

Virðulegi forseti. Þegar við ætlum að vanda okkur, þá er það gagnrýnt. Stjórnarandstaðan, sem reyndar byrjaði að kvarta yfir því að ekki væri búið að framfylgja kosningaloforðum áður en ríkisstjórnin var mynduð, gagnrýnir það nú að við erum að reyna að vanda okkur. Við ætlum ekki að ræða hér — þetta eru svona samræðustjórnmál, ég áttaði mig á því að samræðustjórnmál Samfylkingarinnar eru það að tala um hluti eins og velferðarmál án þess að framkvæma. Við ætlum að framkvæma en við ætlum að vanda okkur, virðulegi forseti. Við skulum, hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu, hafa það að leiðarljósi í störfum okkar á þessu kjörtímabili. (SII: Eins og 2003.)